Aga þarf sendiráðin.

Greinar

Erlend sendiráð hafa tilhneigingu til að verða eins konar ríki í ríkinu. Því valda einkum ýmis sérréttindi þeirra, allt frá friðhelgi starfsmanna og tollfrelsi yfir í eigin lögsögu sendiráðanna á lóðum sínum og húsakosti.

Íslenzkum stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að sjá um, að sérstaðan sé ekki misnotuð. Þau eiga að beita gagnaðgerðum, ef sendiráðin láta ekki segjast. Þau geta beitt brottvísunum og öðrum takmörkunum til að halda uppi aga.

Hávaði, slagsmál, leynivínsala og næturkúbbsrekstur bandarískra sendiráðsmanna í Þingholtunum er dæmi um vandamál af þessu tagi. Þegar lögreglan kemur til skjalanna, hlaupa berserkirnir inn í hús sitt og þykjast hólpnir.

Tafarlaust ber að vísa úr landi sendiráðsmönnum af þessu tagi. Jafnframt er nauðsynlegt að neita um tíma að samþykkja nýja í staðinn, unz sendiráðið áttar sig á, að það þarf að koma miklum mun strangari aga á sitt fólk.

Oft hefur komið fram, að erlendir sendiráðsmenn hafa reynzt hættulegir í umferðinni, einkum vegna ölvunar. Til dæmis hafa Frakkar þótt fréttnæmir á því sviði. Slíka friðhelgismenn á að senda úr landi eins og slagsmálaliðið.

Áfengisflaumur sendiráðanna er töluvert vandamál. Innan dyra eru sífelld hanastélsboð fyrir ístöðulitla ríkisstarfsmenn, sem hafa lítið að gera í vinnunni. Og utan dyra eru hálfrónarnir, sem vilja hlutdeild í ódýrum leka.

Stundum mætti ætla, að erlendir sendiráðsmenn telji þessar tvær sérhæfðu stéttir vera venjulega Íslendinga. Það væri þá skýringin á herraþjóðarhneigðum, sem lýsa sér í fyrirlitningu á tilraunum til aðhalds af íslenzkri hálfu.

Áfengisvelta sumra sendiráðanna er með slíkum ólíkindum, að staðarmenn komast tæpast yfir hana í eðlilegum gestakomum. Mismunurinn gæti farið í bein og óbein brot á tollalögum og telst tæpast til eðlilegra sendiráðsfríðinda.

Rétt væri að setja áfengishámark á vandræðasendiráðin og tolla síðan umframmagnið. Það er ófært, að fríhöfn af þessu tagi sé í öðru hverju húsi við sumar miðborgargötur. Skömmtun á tollfrelsinu er líklegasta viðnámið.

Allra verst er svo eignasöfnun sendiráða og misnotkun þeirra á fjölda sendiráðsmanna. Þar er í broddi fylkingar sovézka sendiráðið. Umsvif þess í eignum og mannahaldi eru langt umfram það, sem eðlilegt má teljast.

Setja ber skorður við frekari útþenslu sovézka sendiráðsins á fasteignamarkaði og koma á einhverju hámarkshlutfalli í samanburði á fjölda íslenzkra sendiráðsmanna í Moskvu og sovézkra sendiráðsmanna í Reykjavík.

Til dæmis væri hægt að setja þá reglu, að hinir sovézku væru aldrei meira en fimm sinnum fleiri en Íslendingarnir. Altjend er brýn nauðsyn að koma á reglu, sem gerir íslenzkum stjórnvöldum kleift að fækka sovézkum sendiráðsmönnum.

Svipaða hlutfallsreglu þarf að setja um hinn friðhelga sendiráðspóst, sem er ótrúlegur að magni hjá sovézka sendiráðinu. Við megum ekki gleyma, að í sumum löndum hafa sovézku sendiráðin reynzt hernaðarlega viðsjárverð.

Aðhaldsskortur íslenzkra stjórnvalda að forréttindum erlendra sendiráða felur í sér óhóflega kurteisi. Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna, að nauðsynlegt er að koma aga á sendiráðin, því að þau gera það ekki sjálf.

Jónas Kristjánsson.

DV