Aidid stríðsherra í Sómalíu er afsprengi þjóðahreinsarans Milosevics í Serbíu. Aidid sá, hvað Milosevic komst upp með í Króatíu og Bosníu, og taldi sér einnig kleift að ögra vestrænum siðareglum. Það hefur kostað og mun kosta miklar fórnir að leiðrétta þann misskilning.
Munurinn á þessum tveimur stöðum er fyrst og fremst sá, að í Sómalíu eru Bandaríkin í fyrirsvari vestrænna siðareglna, en í Bosníu og Króatíu er Vestur-Evrópa í fyrirsvari. Það er magnþrota Evrópa þjóðríkja Kohls, Mitterrands og Majors og það er Evrópusamfélag Delors.
Aidid er fyrsta vandamálið, sem siglir í kjölfar uppgjafar vestræns samfélags fyrir fjöldamorðingjunum og stríðsglæpamönnunum í kringum Milosevic í Serbíu. Með því að taka hart á Aidid í Sómalíu eru Bandaríkin að reyna að stöðva flóðgáttina, sem Serbar opnuðu.
Serbar eru nú að undirbúa enn meira blóðbað í Kosovo, enda vita þeir, að viðvaranir og hótanir Vesturlanda hafa reynzt og munu reynast gersamlega innihaldslausar. Það blóðbað verður að verulegu leyti skrifað á reikning linra forustumanna stærstu Evrópuríkjanna.
Síðan mun Milosevic beina athyglinni að Vojvodina, þar sem Ungverjar búa. Það verður lærdómsríkt fyrir aðra harðlínukomma, sem ráða ríkjum í Slóvakíu og Rúmeníu og langar til að dreifa huga fólks með því að hreinsa ungverska þjóðernisminnihluta heima fyrir.
Þjóðahreinsanir eru hafnar í sumum ríkjum Kákasus og munu bresta á víðar í þeim ríkjum, sem spruttu upp í kjölfar andláts Sovétríkjanna. Sigur á glæpaflokki Aidids í Sómalíu nægir ekki sem fordæmi til að vega upp á móti ósigri fyrir glæpaflokki Milosevics á Balkanskaga.
Athyglisvert er getuleysi Evrópusamfélagsins á þessu sviði. Það er hernaðarlega máttlaust, þótt það sé sérstaklega ofbeldishneigt í viðskiptum við umheiminn, reisi tollmúra gegn Austur-Evrópu og þriðja heiminum og hamli gegn samkomulagi um alþjóðlegar tollalækkanir.
Uppgjöf Vestur-Evrópu fyrir fjöldamorðingjum og fjöldanauðgurum Milosevics sýnir, að Evrópa er ófær að sameinast á æðra plani og mun áfram velta sér upp úr viðskiptaþröngsýni Evrópusamfélagsins undir yfirborði blaðurs um ódáinsakra Maastricht-samkomulags.
Uppgjöf Atlantshafsbandalagsins fyrir mestu stríðsglæpamönnum síðustu áratuga sýnir, að tilverurétti þess lauk með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins. Atlantshafsbandalagið hefur misst af tækifæri til framhaldslífs á breyttu sviði og mun ekki ná því aftur.
Öll vestræn framganga í máli Milosevics einkennist af vilja- og getuleysi þjóðarleiðtoga og sáttasemjara, sem hafa misst sjónar á helztu forsendum vestræns samfélags. Þeir haga seglum eftir vindi án þess að hafa neitt markmið fyrir stafni. Þeir sitja, en stjórna ekki.
Með markvissum aðgerðum fyrir hálfu öðru ári hefði Vestur-Evrópa getað komið í veg fyrir blóðbaðið á frumstigi þess. Í stað aðgerða var hafið fáránlegt ferli friðarsamninga og málamiðlunar, sem gaf Serbum tækifæri og tíma til að efna til martraðarinnar í Bosníu.
Það hefði kostað Vestur-Evrópu litlar fórnir að stöðva Milosevic, þegar hann réðst á menningarsöguna í Dubrovnik og gaf umheiminum óhugnanlega innsýn í þjóðargeðveiki Serba. Núna neita vestrænir leiðtogar að taka afleiðingunum af þeim fyrri mistökum sínum.
Afleiðing getuleysis og viljaleysis vestrænna ráðamanna endurspeglast ekki bara í blóðbaði Milosevics í Bosníu, heldur einnig í blóðbaði Aidids í Sómalíu.
Jónas Kristjánsson
DV