Akureyri og Þórshöfn.

Greinar

Eðlilegri endurnýjun fiskiskipaflotans á Akureyri er haldið niðri af gegndarlausri smábyggðastefnu, sem vill togara í hvert sjávarpláss kjördæmisins. Þessi stefna hefur leitt til offjölgunar togara og síðan til banns á nýjum togurum.

Hinir gífurlegu fjármunir sem runnið hafa úr Framkvæmdastofnun og öðrum sjóðum til smábyggðanna, hafa um leið heft viðgang hinna lífvænlegri byggða. Þær hafa orðið undir í samkeppninni um skömmtunarfé hins opinbera.

Akureyri hefur verið í of hægum vexti vegna forgangs smábyggðastefnunnar. Þar er þó tækniþekking til eflingar margvíslegs iðnaðar og ýmis þjónusta, sem hann þarf. Auk þess er þar betri útgerðarþekking en víða annars staðar.

Ef menn vilja beina fjármagni úr eðlilegum markaðsfarvegi í farveg byggðastefnu, er miklu nær að efla staði eins og Akureyri, sem hafa grunn til að byggja á, – sem hafa aðstöðu til að gera útlagða peninga arðbæra.

Í staðinn hefur fénu verið brennt á báli smábyggðastefnunnar. Ber þar hæst hina gífurlegu offjárfestingu í kindum og kúm annars vegar og í togurum hins vegar. Sú smábyggðastefna hefur gert þjóðina hartnær gjaldþrota.

Íslendingar eru hvorki nógu fjölmennir né nógu ríkir til að halda uppi smábyggðastefnu til að tryggja búsetujafnvægi í hverjum dal og hverju plássi. Tilraunir til slíks stórspilla afkomumöguleikum þjóðarinnar í heild.

Offjölgun togara í smáplássum hefur leitt til skrapdagakerfis og minnkandi aflaverðmætis á hvern togara. Þetta hefur kippt fótunum undan arðsemi togaraútgerðarinnar í heild, þar á meðal útgerðarinnar frá Akureyri.

Fé neytenda og skattgreiðenda er án afláts sóað í kindur og kýr, sem haldið er uppi af innflutningsbanni, beinum og óbeinum styrkjum til framkvæmda og rekstrar, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, verðjöfnun og harðindafé.

Þetta fé, sem nemur nokkrum Kröfluverum á hverju ári, væri betur komið í framtíðargreinum en fortíðargreinum. Það væri betur komi í fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt svo og í stórum og smáum iðnaði af ýmsu tagi.

Um leið væri þetta fé betur ávaxtað á stöðum, sem hafa grunn til að byggja á. Grunnurinn getur verið margvíslegur, allt frá úrgangi fiskvinnslustöðva yfir í jarðhita – allt frá handbærri þjónustu yfir í iðnaðarreynslu.

Á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga að undanförnu hefur sáralítið verið fjallað um, hvernig smábyggðastefnan hefur gert byggðastefnuna gjaldþrota. Þar er talið óviðurkvæmilegt að ræða um, hvort Þórshöfn troði af Akureyri skóna.

Í staðinn er hlustað á ráðamenn Framkvæmdastofnunarinnar, hálfruglaða af óhóflegum peningaumsvifum, fjalla um hve gott væri að bora fjöllin til samgöngubóta. Þannig er óraunsæið ræktað enn, þótt gjaldþrotið blasi við.

Íslendingar eiga að búa þar sem hafnir eru góðar og stutt er á fiskimiðin. Þeir eiga að búa þar sem kostur er á ódýrum jarðhita. Þeir eiga að búa þar sem vinnuafl er til nýrra verkefna og markaður er fyrir afurðirnar.

Akureyri er dæmi um stað, sem hefur upp á flest þetta að bjóða og ætti að vera í örum vexti. En hún vex mjög hægt, af því að hið opinbera dregur að sér lungann úr fjármagni þjóðarinnar og kastar því á glæ smábyggðastefnunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV