Albanskt velferðarríki

Greinar

Hagfræðingur útvegsmanna segir, að lána- og styrkjakerfi sjávarútvegs hafi byggt upp tvær stéttir atvinnurekenda, annars vegar þá, sem borgi skuldir og standi við skuldbindingar, og hins vegar þá, sem geri hvorugt. Segir hann, að sífellt fari fjölgandi í síðari hópnum.

Á aðeins tveimur árum hafa hallærisfyrirtækjum verið útvegaðir tíu milljarðar króna á vegum tveggja nýrra sjóða, Atvinnutryggingasjóðs og Hlutafjársjóðs, svo og á vegum Verðjöfnunarsjóðs og Byggðastofnunar. Fyrirgreiðslan hefur framlengt vonlaust dauðastríð.

Sigling dauðvona fyrirtækja til grafar gegnum þetta kerfi er á þann veg, að fyrst útvegar Atvinnutryggingarsjóður lán með skilyrði um aukningu hlutafjár. Síðan leggur Hlutafjársjóður fram mest af hlutafénu. Og loks leggur Byggðasjóður fram afganginn af hlutafénu.

Fyrirtækin eru auðvitað áfram rekin af þeim, sem komu þeim á hausinn, meðal annars með því að halda, að peningar séu ekki verðmæti, sem borga þurfi af leigu í formi raunvaxta, heldur sé fjármagnskostnaður eitthvert ytra fyrirbæri, sem fundið hafi verið upp syðra.

Vegna þessa hefur verið lagt í framkvæmdir í skipum og vinnslustöðvum, sem eru langt umfram það, sem veiðanlegt fiskmagn leyfir. Þannig er vandi skussa yfirfærður á greinina í heild og veldur þyngri samkeppni en mundi þrífast, ef peningamarkaður væri frjáls.

Of mörg skip berjast um of lítinn afla. Réttur til fiskveiða gengur kaupum og sölum. Of margar fiskvinnslustöðvar berjast um of lítinn afla. Skussarnir fara með fulla vasa af ríkisfé á fiskmarkað og yfirbjóða hina, sem velta fyrir sér hverri krónu, áður en þeir eyða henni.

Við erum að fikra okkur í öfuga átt við þjóðir Austur-Evrópu. Meðan þær eru að hverfa frá opinberri fyrirgreiðslu handa gæludýrum í atvinnulífinu erum við að auka hana. Meðan þær eru að leyfa eymdarfyrirtækjum að fara á höfuðið erum við að reyna að fresta andlátum.

Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru að hverfa frá ofanstýringu atvinnuvega erum við að efla ofanstjórn með reglugerðum úr ráðuneytum. Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru að segja, að hver skuli vera sinnar gæfu smiður erum við að gera ríkið að smiði okkar ógæfu.

Tíu milljarðar hafa farið á tveimur árum í að framlengja dauðastríð fyrirtækja, svo að fólk megi vera áfram á lágu kaupi við færiböndin, í stað þess að freista gæfunnar í greinum, sem gefa meira kaup og betri vinnu. Þetta fé er horfið og kemur aldrei aftur.

Ekki vill heldur svo vel til, að þessir tíu milljarðar séu eitthvað, sem Íslendingar skuldi hver öðrum, svo að í heild sé dæmið í lagi. Tíu milljarðarnir eru beint eða óbeint fengnir frá útlöndum til að bæta upp innlent framboð af lánsfé. Og erlend lán þarf að endurgreiða.

Á Vesturlöndum er fátítt, að tekin séu lán til að greiða annað en vandlega skoðuð verkefni, er geta staðið undir fjármagnskostnaði, sem er sízt minni en hér. Erlend lán eru hér hins vegar notuð til að brenna peningum í úreltum og óþörfum fyrirtækjum og verkefnum.

Við notum hið opinbera og sjóði þess til að ýta bjartsýnismönnum í of mikla fjárfestingu í landbúnaði og sjávarútvegi, nú síðast í loðdýraeldi og fiskeldi. Við setjum allt okkar traust á ríkið og ráðherrann í ráðuneytinu. Við viljum reka velferðarríki fyrirtækja.

Eftir um það bil eitt ár verða ekki mörg lönd í Evrópu, önnur en Albanía, með meiri og dýrari ofanstýringu atvinnuvega en við erum búnir að koma okkur upp.

Jónas Kristjánsson

DV