Aldarfjórðungs óvild

Greinar

Af viðskiptum Skúla Pálssonar á Laxalóni við yfirvöld er ekki unnt að komast hjá því að draga þá ályktun, að hann hafi verið ofsóttur í aldarfjórðung. Virðist hafa ráðið ferðinni óvild embættismanna í garð manns, sem ekki var gefinn fyrir að sleikja tær þeirra.

Í aldarfjórðung hefur Skúli ræktað regnbogasilung, sem frægur er um allan heim fyrir heilbrigði. Lengst af fékk hann samt ekki heilbrigðisvottorð yfirvalda og fékk þar af leiðandi ekki útflutningsleyfi. Beiðnum hans um heilbrigðiseftirlit með stöðinni var ekki einu sinni svarað.

Þessi viðbrögð hafa valdið Laxalónsstöðinni ómældu fjárhagstjóni og þjóðfélaginu gífurlegum missi gjaldeyristekna. Það var fyrst nýlega, að vinsamlegir þingmenn skárust í leikinn og knúðu kerfið til að veita Skúla leyfi til útflutnings á regnbogasilungi.

Andúð veiðimálastjóra á Laxalónsstöðinni hefur svo magnazt fyrir þá sök, að hún hefur reynzt Kollafjarðarstöð ríkisins harður keppinautur í sölu til veiðifélaga úti á landi. Er hún rekin á arðsemisgrundvelli, meðan Kollafjarðarstöðin hefur kostað þjóðfélagið marga tugi milljóna.

Þessi forsaga veldur því, að fara verður varlega í að taka mark á viðhorfum veiðimálastjóra og yfirdýralæknis gagnvart þeim vandamálum, sem Skúli á Laxalóni hefur nú við að stríða. Það er eðlilegt, að hann vilji heldur leita til útlendra sérfræðinga en innlendra óvildarmanna sinna.

Ekki hefur neinn orðið var við óeðlilegan dauða á laxi í Laxalóni, svo sem varð Í Elliðaánum og leiddi til slátrunar stofnsins þar. Hins vegar hafa á Laxalóni komið fram einkenni um veikindi, sem sumir telja minna á sjúkdóminn í Elliðaánum. Skúli teflir hins vegar fram sérfræðingum, sem telja einkennin stafa af rangri samsetningu vatnsins í stöðinni.

Veikindi þekkjast í laxi alls staðar í náttúrunni og þykja ekki tiltökumál. Aðalatriðið er, að þau leiði ekki til laxadauða. Svo virðist sem hinn kanadíski sérfræðingur, sem Reykjavíkurborg fékk til að rannsaka málið, telji hugsanleg veikindi á Laxalóni ekki svo alvarlegs eðlis, að slátra þurfi stofninum, né banna sölu seiða úr honum.

Af hverju leggja veiðimálastjóri og yfirdýralæknir þá svona mikla áherzlu á að slátra öllum laxi Skúla? Full ástæða er til að ætla, að gamalgróin óvild þeirra í garð Skúla liti viðhorf þeirra. Og af hverju telja þeir Bregnballe hinn danska ekki marktækan? Er hann þó ekki verri en svo, að hann flytur erindi á ráðstefnum fiskifræðinga og að vitnað er í hann í kennslubókum.

Embættismennirnir hafa komið í veg fyrir, að Skúli gæti flutt starfsemi sína austur fyrir fjall, þar sem hann hefur undirbúið mun fullkomnari stöð, með betra vatni og betri aðstöðu en á Laxalóni. Sjúkdómahræðsla þeirra kann að vera hreint yfirvarp.

Fá þarf óhlutdræga erlenda sérfræðinga til að segja álit sitt á slíkum útflutningi, því að aldarfjórðungs óvild er ekki heppilegur mælikvarði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið