Aldrei er friður

Greinar

Þótt samið hafi verið um kjör á langflestum vígstöðvum, verðbólgan fari minnkandi og olíukaupareikningur ársins hafi lækkað um heilan milljarð króna, fer því fjarri, að þjóðin hafi fjármál sín á þurru. Ýmis vandamál eru óleyst og hafa raunar aukizt að undanförnu.

Tollalækkunin á bílum og heimilistækjum hefur þegar leitt til mikils innflutnings og gjaldeyrisnotkunar og mun áfram gera það fram eftir árinu. Þetta spillir viðskiptajöfnuðinum gagnvart útlöndum. Vaxandi halli mun svo óhjákvæmilega hafa áhrif á ýmsum sviðum.

Gjaldeyrisforðinn hlýtur að rýrna og krónan að veikjast sem gjaldmiðill. Þar með færumst við nær gengis lækkun, sem mundi bylta forsendum þjóðarsáttarinnar, er felst í kjarasamningunum. Ennfremur er hætt við, að enn aukist hinar miklu skuldir okkar í útlöndum.

Ríkisstjórn og Seðlabanki verða að fylgjast grannt með þessu, svo að unnt verði að grípa í taumana, áður en illa fer. Vinnufriðurinn er of mikilvægur til að honum sé spillt með veikari gjaldmiðli. Og hann er of dýru verði keyptur í nýrri skuldasöfnun í útlöndum.

Tollalækkunin hefur ekki eins alvarleg áhrif á afkomu ríkisins. Hinn aukni innflutningur mun vafalítið bæta ríkissjóði upp minnkun tekna af hverri innfluttri einingu. Reynslan sýnir, að lækkun tolla hefur tilhneigingu til að auka tekjur hins opinbera.

Ríkið er þó í miklum fjárhagsvanda vegna skuldbindinganna, sem það hefur tekið á sig í kjölfar kjarasamninganna. Aðilar vinnumarkaðsins ætla að útvega því 600 milljónir úr lífeyrissjóðunum, en sjálft þarf ríkið að ná í 1200 milljónir að auki vegna skuldbindinganna.

Þessar upphæðir bætast við 800 milljón króna hallann, sem fyrir var á fjárlögum þessa árs. Þannig þarf ríkið að ná sér í tvo milljarða fyrir utan það, sem fæst úr lífeyrissjóðunum. Samanlagt þýðir þetta 2,6 milljarða aukna samkeppni á lánamarkaði og háa raunvexti.

Ríkissjóður hefur um langt skeið haft forustu í að halda uppi háum raunvöxtum með sífellt bættum tilboðum við útgáfu skuldabréfa. Vextirnir eru nú 9% og að auki 1%, sem felst í eignaskattsundanþágu skulda bréfaeigenda. Samtals borgar ríkið 10% raunvexti.

Seðlabankinn styður verðgildi ríkisbréfanna með því að bjóða sjálfvirka innlausn þeirra gegn vægu gjaldi. Þar með eru skírteini ríkisins orðin að hálfgerðum bankaseðlum, sem fólk getur notað fyrirvaralaust og samt haft mun betri ávöxtun en bankarnir bjóða því.

Hætt er við að nú gerist tvennt. Í fyrsta lagi telji ríkið sig þurfa að bjóða enn betur til að ná í eitthvað af milljörðunum. Og í öðru lagi telji útgefendur skuldabréfa sig þurfa að bjóða enn betur en þeir gera nú ­ til að keppa við hin gulltryggu skuldabréf ríkisins.

Ekki er einfalt fyrir ríkið að létta sér þennan róður með því að taka mikið af fénu að láni í Seðlabankanum. Það jafngildir í rauninni aukinni seðlaprentun og rýrir verðgildi hverrar krónu. Þar með erum við enn komin að hættunni á gengislækkun, bara úr annarri átt.

Í öllu þessu, sem hér hefur verið rakið, gildir hin almenna regla, að handaflsaðgerðir stjórnvalda á einu sviði leiða óhjákvæmilega til afleiðinga á öðrum sviðum og að þessar afleiðingar geta unnið á móti árangri aðgerðanna ­ jafnvel gert ástandið verra en það var.

Þannig er engin ástæða fyrir ríkisstjórnina að sofna á verðinum, þótt nú sé stund milli stríða. Fjármálaslagurinn vinnst aldrei í eitt skipti fyrir öll.

Jónas Kristjánsson

DV