Þjóðleiðir göngumanna og reiðmanna eru víðtækustu fornminjar landsins. Eru margar varðaðar og vörðurnar því með merkustu fornminjum okkar. Mosavöxnum steinum var hlaðið í vörðurnar og við það breytist mosinn, þannig að hægt er að aldursgreina hleðsluna. Flestar vörður voru endurhlaðnar, svo að þar má væntanlega finna hleðslusteina frá ýmsum tímum. Fróðlegt væri að komast að, frá hvaða tíma elztu hleðslusteinarnir eru. Til dæmis í vörðum á þekktum þjóðleiðum, svo sem á sögufrægri Biskupaleið um Ódáðahraun. Kannski er hún frá kaþólskum tíma. Þetta væri verðugt verkefni fyrir fornleifafræðing.