Alex

Veitingar

Alex er smart. Þetta vinkillaga, 34 sæta blómahaf er allt í stíl. Gráblái liturinn í bar og stálstólum fer vel við bleika dúka. Allur borðbúnaður er samstæður. Á gólfi er glansandi parkett og í lofti þrjár víðáttumiklar viftur í gömlum stíl. Teikningar og málverk eru á ljósum veggjum. Undarlega rykkt gluggatjöld gamals tíma fara vel við stálhúsgögn nútímans.

Blómin eru helzta einkenni staðarins. Í gluggum eru pottablóm í hrönnum, í sumar meira að segja einnig utan við rúðurnar. Þau eru líka í ytra horni vinkilsins og víðar í salnum. Frísklega, afskorin blóm prýða borðin ásamt logandi kertum á kvöldin. Þá er Alex einkar rómantískur, kjörinn fyrir kurr í turtildúfum.

Hvert veitingahúsið á fætur öðru hefur verið reynt hér á austurhorni Hlemmtorgs. Núverandi eigendur Alex eru ekki hinir fyrstu. Áður voru hér Zorba, Mamma Rósa, Kráin og þar áður einhver, sem hafa dofnað mér úr minni. Þessa hringekju er tímabært að stöðva. Ef til vill tekst Alex það, þótt hann keppi á þétt setnum markaði hinna fínu og dýru matstaða.

Þjónusta er fagleg og góð í Alex. Eins og útlitið er hún í svipuðu samræmi við verðlagið og gengur og gerist á hinum betri stöðum borgarinnar. Verðið er nokkru hærra en á svokölluðum miðjuverðsstöðum á borð við Torfuna og er raunar ískyggilega nálægt hæsta verðflokknum. Miðjuverð þríréttaðrar máltíðar með kaffi og hálfri vínflösku á mann var 1262 krónur.

Helzti galli þjónustunnar er hinn sami og víða annars staðar, að gestir eru í tíma og ótíma ónáðaðir með hinni bjánalegu spurningu, hvort þeim líki maturinn. Hverju á að svara? Hvernig á að forðast uppistand, sem eyðileggur kvöldið? Hér með er auglýst eftir hlutlausu svari, sem hægt sé að nota við þær aðstæður, er ríkja í flestum íslenzkum veitingahúsum, – að ekkert er varið í matinn, en að hann er samt ætur.

Vínlistinn afar góður

Vínlisti Alex er afar góður. Þar er töluvert úrval af hinu bezta, sem fæst í Ríkinu og í öllum verðflokkum. Ruslið, sem einkennir íslenzk vínkort, drukknar hér innan um raðir mjög svo drykkjarhæfra vína. Hér fást meira að segja áfengislaus vín og hanastél.

Til að draga fólk inn í hádeginu hefur Alex komið sér upp tilboði, sem er mun ódýrara en annað framboð hússins. Það er kaldur diskur, sem kostar með súpu dagsins og eftirrétti 325 krónur.

Kaldi diskurinn hafði hrásalat neðst. Þar ofan á var annað hvort kjöt- eða sjávarréttur, nautatunga í annarri útgáfunni og hörpudiskur og fiskikæfa í hinni. Þar að auki voru á diskunum eggjasneiðar, tómatbátar, kotasæla, ostur og ýmislegt fleira. Þetta voru frísklegir og lystarlegir diskar. Súpan var að þessu sinni rjómalöguð blómkálssúpa og eftirrétturinn fersk jarðarber með rjómablandi. Þetta var ríkmannleg máltíð fyrir tiltölulega lítið fé, tromp staðarins.

Fyrir utan þetta býður Alex alveg nýjan, fatan matseðil með átján réttum, þar af átta aðalréttum og breytilega hádegis- og kvöldseðla með sjö réttum, þar af fjórum aðalréttum. Áherzlan er jöfnum höndum á sjávarréttum og kjötréttum. Ef daglegu seðlarnir eru nægilegum breytingum undirorpnir, má telja þetta meira en fullnægjandi úrval.

Reyktur nautavöðvi með melónu og dilli var fallega dökkur, en allt of seigur. Honum fylgdi ágætis sinnepssósa og ristað brauð með smjörkúlum, sem ekki voru í álpappír.

Reyksoðinn lambavöðvi reyndist vera þversneiddur hryggvöðvi, frekar þurr og grár, og hefði mátt vera eldaður í skemmri tíma. Reykta bragðið var eindregið og minnti raunar mest á reyktan fisk. Þetta er skemmtileg nýbreytni eins og reykti nautavöðvinn, en þarf að vanda betur. Með lambinu var léttsoðin pera fersk í þunnum sneiðum og mild piparrótarsósa úr sýrðum rjóma. Í þetta sinn fylgdi ristaða brauðinu smjör í álpappír.

Hvítlauksristaðir sjávarsniglar voru margir og litlir, hæfilega fastir undir tönn, bornir fram blandaðir spírum og kryddjurtum í rjómasósu með tómatkeim, svo og ristaðri heilhveitisneið. Þetta var skemmtilegasti rétturinn, sem prófaður var.

Kartöflusúpa rjómalöguð var í sjálfu sér bragðgóð og fól í sér mikinn graslauk, en hveitiskánin gerði hana ólystuga.

Girnilegt hrásalat

Hrásalat með aðalréttum var yfirleitt frísklegt og gott. Í eitt skiptið var það ísberg, seljustönglar og sterkur ostur. Í annað skipti ísberg, tómatar, gúrka, paprika, gráðostur og smávegis karrísósa. Í þriðja skiptið var það blaðsalat með gúrku og grænni papriku, svo og gráðosti.

Rjómasoðinn steinbítur með kínverskum sveppum var milt soðinn, fallega borinn fram á nútíma vísu ástamt töluverðu magni af sveppum, rósakáli, gulrótastrengjum, hvítum kartöflum og rifsberjum. Sveppasósan var hveitileg og kartöflurnar of lítið soðnar. Annað var hins vegar hæfilega léttsoðið. Kínversku sveppirnir voru ágæt tilbreytni. Þetta var sennilega bezti maturinn, sem prófaður var.

Smjörsteiktar laxakótilettur með humarhölum voru fallegar, bornar fram með fjórum stórum humrum. Þetta var ekki alvarlega ofeldað, en humarbragð hveitisósunnar yfirgnæfði laxabragðið. Með fylgdu ferskir sveppir og hvítar kartöflur.

Rjómasoðin lúða með lime var orðin afar þurr af ofeldun, auk þess sem fiskurinn leit út fyrir að hafa bæði kynnzt frystikistu og örbylgjuofni. Með fylgdi léttsoðið blómkál og töluvert af vínberjum.

Léttsteiktur lambainnanlærisvöðvi var fallegur, rauður, vægt eldaður, borinn fram með milt elduðu brokkáli, gulrótarstrengjum, ferskum sveppum og sítrónusósu, sem ekki var hveitiblönduð.

Lambahnetusteikur á teini voru miðlungi mikið eldaðar, aðeins rauðar í miðju, frekar þurrar, en sæmilega bragðgóðar. Þeim fylgdu vægilega soðnar gulrætur og sveppir, góð vínsósa rjómuð, vínber og lítilfjörlegt brokkál.

Heit eplaterta með þeyttum rjóma og fersku jarðarberi var hið sæmilegasta pæ. Kaffið var gott, borið fram með afar fínu truffles-konfekti, ágætis punktur yfir i-ið. Auk góðra vína í Alex er hægt að fá Tio Pepe fyrir matinn og Noval eftir hann.

Þetta væri afar ánægjulegur staður, þótt dýr sé, ef eldamennskan rokkaði ekki allt of mikið út og suður; ef gæði matreiðslunnar væru í samræmi við metnað hennar og smæð veitingastaðarins. Alex er staður, sem skortir ekkert nema þennan sífellt nauðsynlega herzlumun.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður dagsseðill:
220 Hvítlaukskryddaðir sjávarsniglar
150 Rjómalöguð blómkálssúpa
385 Pönnusteikt smálúða með kiwi og hörpuskel
370 Rjómasoðinn steinbítur með kínverskum sveppum
680 Léttsteikt nautafillet með ferskum sveppum og hunangi
510 Pönnusteiktar kjúklingabringur með piparsósu
165 Ferskt kiwi með púrtvíni

Nýi fastaseðillinn:
310 Ostasoufflé með ferskum kiwi
295 Léttsteiktur hörpuskelfiskur með graslauk og sítrónu
240 Reyksoðin síld með fínsöxuðum lauk og eggjarauðu
220 Súrsætt grísakjötseyði
240 Reykt laxasúpa með eggjahræru
450 Pönnusteikt rauðsprettuflök með feta osti og kaffisósu
435 Rjómasoðinn steinbítur með saffran og kínverskum sveppum
420 Smjörsteiktur karfi með engifersósu
960 Smjörsteiktir humarhalar í skel
635 Pönnusteiktur grísahryggur með hvítlauksristuðum smokkfiski
630 Smjörsteiktar kjúklingabringur með ferskum vínberjum og léttri chili-sósu
880 Heilsteiktar nautalundir með nautabeini og valhnetusósu
590 Léttsteiktar svartfuglsbringur með ferskum rifsberjum og þunnri pernod-sósu
195 Rúlluterta með avocado líkjör
190 Rifsberjaís með hvítri súkkulaðisósu
210 Ferskir ávextir með kókoslíkjör

DV