Alfaðir kvótanna

Greinar

Varðgæzlumenn kvótakerfa sjávarútvegsráðherrans treysta sér ekki til að andmæla rökum gegn þeim. Þeir játa meira að segja annmarka kerfanna, en segja þau varðveita byggðastefnu og vera smíðuð eftir margvísleg samráð við ýmsa aðila, sem hagsmuna hafi að gæta.

Sjávarútvegsráðherra er vanur að tefla saman ýmsum hagsmunum í svokölluðu samráði hans við sjávarútveg. Í samráðinu er reynt að finna leið, sem veldur öllum hagsmunaaðilum nokkrum vandræðum, en engum aðila yfirþyrmandi miklu meiri vandræðum en öðrum.

Niðurstaðan er jafnan sú, sem sótzt er eftir í sjávarútvegsráðuneytinu og í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Með lögum og reglugerðum er sjávarútvegsráðherra “heimilað” að stjórna eftir eyranu hverju sinni. Geðþótti ráðherra leysir fastar leikreglur af hólmi.

Rækjukvótinn er gott dæmi um þetta ástand, sem fullkomnazt hefur í tíð núverandi sjávarútvegsráðherra. Á grundvelli samanlagðra byggðahugsjóna eru útvegaðir ódýrir forgangspeningar á allt of marga staði, sem síðan sitja uppi með ónotaða framleiðslugetu.

Þá er komið á fót opinberu kvótakerfi til að bjarga málunum fyrir horn. Hinn mikli alfaðir í sjávarútvegsráðuneytinu, sjálfur ráðherrann, situr með sveittan skallann við að finna af innsæi sínu, hverjir eigi skilið 500 tonna kvóta og hverjir eigi skilið 2000 tonna kvóta.

Enginn má heyra minnzt á, að ekki hefði átt að útvega með handafli alla þessa ódýru peninga til að búa til offramleiðslugetu í rækjunni. Slík rök eru talin vera villutrú, er stríði gegn byggðastefnu, sem í íslenzkum sið jafngildir fyrsta boðorðinu í kristnum sið.

Þannig er búin til ein tegund byggðagildru. Sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, sem falla undir byggðastefnu, fá tækifæri til að taka á sig skuldabagga, sem síðan verða svo yfirþyrmandi, að fólk verður að flýja staðinn og alla offjárfestinguna, sem þar liggur.

Allt er þetta svo rökfræðilega allsnakið, að ráðherrann hefur neyðzt til að finna ný nöfn til að dylja ofskipulagið. Kvótinn má til dæmis ekki lengur alltaf heita kvóti. Orðaleikir ráðuneytisins minna á landbúnaðinn, þar sem kvótinn heitir fullvirðisréttur eða búmark.

Fyrir helgina var settur kvóti á útflutning ferskfisks, þótt verð hans á erlendum markaði sé hátt í samanburði við vinnslufisk og þótt verðið hafi einmitt hækkað þá í vikunni. Þetta var gert til að framleiða verkefni handa fiskvinnslustöðvum, ­ “fullvinna” aflann heima.

Sjávarútvegsráðherrann sagði, að þessi kvóti væri raunar alls ekki kvóti, enda væri raunar óheppilegt að hugsa um kvótann sem kvóta. Þetta væri bara takmörkun á ferkfiskútflutningi við 600 tonn á viku. Það er helmingur af því, sem hefði orðið án afskipta ráðherrans.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra og helztu varðgæzlumenn kvótakerfa hans viðurkenna, að Nýsjálendingar hafa komizt framhjá verstu göllum okkar fiskveiðikvóta og búa við hagkvæmara kerfi. En það samrýmist bara ekki okkar byggðastefnu, segja þeir svo.

Með þessu eru þeir að saka byggðastefnu um, að hún valdi tjóni víðar en í hefðbundnum landbúnaði og loðdýrarækt. Þeir eru að segja, að ekki megi reka hér hagkvæman sjávarútveg, af því að það geti skaðað fámenn kauptún. Hvað má þá gera á arðbæran hátt hér á landi?

Þegar við höfum losnað við alföðurinn úr ráðuneytinu, verður mikið verk að hreinsa brott alla kvótana, sem hann hefur í góðsemi hert að hálsi sjávarútvegs.

Jónas Kristjánsson

DV