Niður fljótin runnu atkvæðaseðlar, þar sem krossað hafði verið við nöfn frambjóðenda stjórnarandstöðunnar. Á öskuhaugum til sveita fuku slíkir atkvæðaseðlar til og frá. Öllum þekktum leiðum til atkvæðafölsunar var beitt í nýafstöðnum forsetakosningum í Mexíkó.
Glæpaflokkur að nafni Byltingarstofnunarflokkurinn hefur í nærri sex áratugi ráðið ríkjum í Mexíkó í skjóli vinnubragða af þessu tagi. Nokkrum dögum fyrir kosningarnar lét hann myrða manninn, sem sá um eftirlit stjórnarandstöðu með framkvæmd kosninganna.
Hið hefðbundna kosningasvindl nægði ekki til sigurs. Þegar fyrstu tölur komu á borð kosningastjórna, var ljóst, að annar af frambjóðendum stjórnarandstöðunnar, Cuauhtémoc Cárdenas, mundi verða sigurvegari, ef ekki yrði gripið til aukinna og nýrra falsana.
Tæknimenn voru látnir slá nýjar atkvæðatölur inn á talningartölvurnar. Sjálf talningin tafðist í marga daga umfram venju, meðan stjórnin tryggði sínum manni ímyndaðan meirihluta með þessum hætti. Fjöldi útlendinga hefur verið vitni að talningarsvindlinu.
Hægri andstöðuflokkurinn hefur árum saman haft mikið fylgi og sennilega meirihluta í ýmsum norður fylkjum landsins. Það kom þó ekki á óvart, að undir lok talningarinnar birtust þaðan tölur, sem sýndu, að stjórnarflokkurinn hefði hirt nærri allt fylgið.
Þessi grófi endasprettur talningarinnar var talinn nauðsynlegur til að koma Carlos Salinas de Gortari, frambjóðanda glæpaflokksins, yfir 50% atkvæða í forsetakosningunum. Í rauninni fékk hann mun minna, sennilega minnst fylgi frambjóðendanna þriggja.
Salinas mun nú taka við þrælkun 75 milljón Mexikana úr höndum Miguels de la Madrid, sem hér á landi er þekktur fyrir þáttöku í klúbbi nokkurra misindismanna úr þriðja heiminum, sem vilja, með aðstoð Ólafs Ragnars Grímssonar, segja stórveldunum fyrir verkum.
Athyglisvert er, hvernig menn, sem hafa flesta hugsanlega glæpi á samvizkunni, og það í stórum stíl, komast upp með að láta taka sig fullgilda í umheiminum. Fyrirrennari Madrids, Echeverria, lét sig til dæmis dreyma um að verða forstjóri Sameinuðu þjóðanna.
Echeverria, Madrid og Salinas hafa notað og nota enn Mexíkó sem þrælabúðir til að halda uppi glæpaflokknum. Efnahagslíf landsins er meira eða minna ríkisrekið. Forstjórarnir og verkalýðsrekendurnir stela öllu steini léttara og halda fólki í sárustu örbirgð.
Einn versti leikur harðstjóranna í Mexíkó er svipaður og sálufélaga þeirra úti um allan heim, svo sem í Tanzaníu, að raka saman erlendum lánum, sem ekki eru notuð til að bæta hag þjóðarinnar. Í Mexíkó hverfa lánin í gráðugar hendur glæpaflokks Salinas de Gortari.
Þannig stelur Byltingarstofnunarflokkurinn ekki aðeins þeim verðmætum, sem 75 milljón þrælar framleiða, heldur leggur þeim þar á ofan á herðar byrðina af ógreiðanlegum skuldum, sem stofnað er til í Bandaríkjunum og víðar. Ánauðin í Mexíkó verður varanleg.
Við getum harla lítið gert í málum Mexikana. Við getum hins vegar neitað að tala við fulltrúa glæpaflokksins sem umboðsmenn fólksins. Ástæðulaust er fyrir okkur að vera í stjórnmálasambandi við óþokka og þrælahaldara, sem hafa falsað umboðið, er þeir sýna.
Forsetakosningarnar í Mexíkó hafa ekkert gildi annað en að staðfesta fyrir umheiminum, að Carlos Salinas de Gortari er algerlega umboðslaus valdhafi í Mexíkó.
Jónas Kristjánsson
DV