Márar frá Sahara byggðu Alhambra-kastala í Granada á Spáni. Þegar þeir komu til Spánar, urðu þeir hugfangnir af rennandi vatni. Þeim fannst þeir vera komnir til himnaríkis. Er þeir reistu kastalann, veittu þeir vatni í stokk til hans og létu læki hríslast um stofur og garða. Þessi mannvirki standa enn. Þau eru minnisvarði um mesta lúxus heims í huga eyðimerkurbúans. Hér á Íslandi gerum við okkur ekki grein fyrir gildi rennandi vatns. Við höfum svo mikið af því. En ég er samt hissa á, að forfeður okkar skyldu ekki veita vatni í stokkum inn í hús. Sérstaklega á stöðum með heitu yfirborðsvatni.