Allan fisk á markað

Greinar

Í kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna er tekizt á um grundvallaratriði, hlutdeild í hagnaði af notkunarrétti á takmarkaðri auðlind hafsins. Kvótakerfið hefur fært útvegsmönnum þennan rétt á silfurfati, en sjómenn vilja láta markaðskerfið færa sér hlut af honum á silfurfati.

Samkvæmt kvótakerfinu eiga skipin kvótann. Útgerðarfyrirtæki kaupa hann og selja og láta hann jafnvel ganga í erfðir. Þetta er sjálfvirk peningauppspretta, af því að kvótinn felur í sér gulltryggan aðgang að takmarkaðri auðlind. Þetta hefur búið til stétt sægreifa.

Þeir ná forréttindahagnaði, hvort sem þeir selja fiskinn á markaði eða nota hann í viðskiptum milli skyldra aðila, þegar útgerð og vinnsla eru í eigu sama aðila eða skyldra aðila. Með niðurfærslu á verði í viðskiptum skyldra aðila ná sægreifar til sín öllum gróðanum.

Þegar fiskur er seldur á markaði, ná sjómenn á hlutaskiptum hins vegar í hlut af þessum viðbótarhagnaði af kvótakerfinu. Það eru því hagsmunir sjómanna, að allur fiskur fari á markað, en sé ekki seldur utan markaða milli aðila, sem líta á fiskverð sem bókhaldsatriði.

Reynslan sýnir, að útvegsmenn freistast til að nota aðstöðu sína sem handhafa kvótakerfisins til að lækka tekjur sjómanna með því að láta fiskverð utan markaða vera eins lágt og þeir treysta sér til. Þetta hefur valdið mikilli úlfúð í samskiptum útvegsmanna og sjómanna.

Því fer fjarri, að kjarasamningar séu langt komnir, þegar ósamið er um verðmyndun á fiski, sem fer framhjá fiskmörkuðum. Miklu nær væri að segja, að viðræðurnar séu skammt á veg komnar, því að þetta atriði hlýtur að vera megininntak viðræðna um kjör sjómanna.

Útvegsmenn segjast ekki vera málsaðili og vísa sjómönnum á að ræða við samtök fiskvinnslunnar. Þetta er dæmigerð hundalógík, sem segir okkur einkum, að núverandi verðmyndunarkerfi er í þágu þeirra útvegsmanna, sem geta notað sér viðskipti skyldra aðila.

Ríkisstjórnin er að þessu sinni ekki fús til að hafa forgöngu um að koma flotanum aftur á sjó. Hún vill reyna að rjúfa vítahringinn, sem myndazt hefur á löngum tíma og felur í sér, að málsaðilar semja ekki, af því að þeir telja ríkisstjórnina munu leysa málin fyrir þá.

Vegna vítahringsins hafa samningaaðilar komizt upp með að láta eins og óþægir krakkar og verða sér hvað eftir annað til skammar með uppæsingi og reiðiköstum á almannafæri. Tímabært er orðið, að þeir fullorðnist og fari að semja um mál sín án afskipta ríkisins.

Í rauninni er margt gott um verkfallið að segja. Það hvílir fiskimiðin um tíma fyrir skipulegri ofveiði og eykur líkurnar á, að þjóðin hafi lifibrauð af fiskveiðum fram yfir aldamótin. Það verndar framtíðarhagsmuni fyrir stundarhagsmunum, sem annars ráða jafnan ferðinni.

Þess vegna er bezt, að ríkisstjórnin skipti sér ekki af verkfallinu og leyfi deiluaðilum að rífast um hagnaðinn, sem kvótakerfið hefur tekið af þjóðinni og fært sægreifunum. Ef samningamenn deiluaðila eru ófærir um að semja, þá verða deiluaðilar sjálfir að skipta þeim út.

Harkan í deilunni er gott dæmi um, að kvótakerfið hefur gengið sér til húðar og ætti að víkja fyrir gjaldskyldum veiðileyfum. Kvótakerfið færir mikla peninga til í þjóðfélaginu og býr á þann hátt til eins konar þýfi, sem forgangshópar berjast um með kjafti og klóm.

Við þær aðstæður er bezt, að allur fiskur sé seldur á markaði, svo sem sjómenn leggja til. Hin leiðin hvetur til misnotkunar eins og innherjaviðskipti gera yfirleitt.

Jónas Kristjánsson

DV