Íslenzkir fréttamiðlar eru fullir af innlendum fréttum og telja réttilega, að notendur fjölmiðla hafi lítinn áhuga á erlendum fréttum. Samt er heimsmálunum svo komið um þessar mundir, að erlendar fréttir skipta okkur meiru en innlendar. Veraldarsagan liggur stundum í dvala og tekur kippi þess á milli. Nú stendur yfir eldgosahrina heimsfrétta, þar sem Bandaríkin seilast til heimsyfirráða og kjarnaríki Evrópu þvælast fyrir þeim, meðal annars með því að reisa mesta efnahagsveldi veraldarsögunnar. Ýfingarnar varða íslenzka hagsmuni, allt frá Keflavíkurvelli yfir í vaxtakostnað, sem við höfum af sérstakri krónu íslenzkri. Af þessum ástæðum hef ég miklu meira gaman af að segja ykkur frá margvíslegri túlkun heimsviðburðanna, heldur en að túlka meira eða minna fáfengilegar fréttir innlendar.