Stöð 2 skúbbaði tugmilljónagreiðslum útrásarvíkinga til Sjálfstæðisflokksins í fyrrakvöld. Um nóttina og í gær loguðu bloggheimar. Vefmiðlar töluðu í gær við ýmsa framámenn Flokksins, sem allir þóttust koma af fjöllum. Haldinn var miðstjórnarfundur Flokksins um kaffileytið, formanni og varaformanni falið að tjá sig. Niðurstaðan kom fyrir kvöldfréttir ljósvakans, 30 milljónir frá Baugi, 25 milljónir frá Bjöggum. Athyglisverðast í þessu ferli er, að þar áttu prentuð dagblöð engan þátt. Þau endurbirtu þætti úr frétt Stöðvar 2 og sýndu ekkert eigið frumkvæði. Þau skákuðu sér út af fjölmiðlaborðinu.