Brottför Davíðs Oddssonar úr pólitík gerðist á sama feita planinu og hefur einkennt brottför annarra ráðherra. Hann útvegaði sér embætti Seðlabankastjóra, útvegaði sér aukin laun, verandi búinn að útvega sér sérstök ofurellilaun fyrir tæpu ári. Þetta er íslenzk pólitík í hnotskurn, bara ýkt.
Langur ferill Davíðs einkenndist af spillingu, sem hefur þrifizt í valdastéttunum frá ómunatíð. Hann staflaði frænda sínum og einkavini sínum í Hæstarétt. Í tíð hans hefur sjaldan verið farið eftir hæfni í ráðningum í ofurstörf ríkisins. Þau hafa fallið í hlut gæludýra stjórnarflokkanna.
Davíð tók upp þann sið að skrifa bréf og taka upp símann til að ógna mönnum, sem hann taldi vera fyrir sér, svo sem umboðsmann Alþingis, bankastjóra Landsbankans og svo framvegis. Annáluð hefur verið ruddaleg umgengni hans við fólk, sem hann taldi mundu svitna og kikna í hnjáliðunum.
Davíð elti uppi kaupsýslumenn, sem hann taldi sér andvíga, sakaði þá um mútur og bjó til aðstæður, sem embættismenn túlkuðu sem ábendingu um, að lögregluaðgerðir væru æskilegar. Eftir alla þá jóðsótt, fæddist eitthvað, sem virðist vera mús, alténd minna kvikindi en stefnt var að.
Gott er að losna við Davíð úr pólitíkinni. Hann var þar mara, af því að hann notaði völd sín til að ráðskast með hluti, sem eiga ekki að vera pólitískir, til dæmis með mannaráðningar úti í bæ. Hann heimtaði, að menn bugtuðu sig og lét sér vel líka að menn flöðruðu upp um hann.
Það er líka gott, að tómarúm myndist í hirðinni, sem áður valsaði um í krafti guðdóms einræðisherrans. Þar standa eftir aumkunnarverðir menn, sem nú eru ekki neitt neitt, af því að allt, sem þeir voru, gerðist í krafti Davíðs. Nú verða hirðmennirnir að leita sér skjóls annars staðar.
Allir aðrir eru komnir í feitt. Davíð er kominn í feitt í Seðlabankanum, hafandi hækkað laun sín og eftirlaun. Þjóðin er komin í feitt, af því að nú skapast tækifæri til að koma persónulegum þáttum í rekstri ríkisvaldsins í svipað horf og tíðkast meðal siðaðra þjóða í næsta nágrenni við okkur.
Davíð hefur sloppið vel frá þessum vandræðum, af því að þjóðinni hefur vegnað vel. En þeir eru óneitanlega margir, sem hafa verið léttstígari síðustu daga en þeir voru áður.
DV