Fjölmiðlar rekja nú þræðina í lygasögum brezkra og bandarískra stjórnvalda um ógnarvopn Íraks. Ráðamenn ríkjanna kenna leyniþjónustum sínum um lygarnar og bandaríska leyniþjónustan kennir hinni brezku um þær. Nýjustu fréttir eru þær, að bandaríska CIA hafi á sínum tíma beðið brezka SIS um að birta ekki lygina um kaup Íraks á úrani í Níger. Ennfremur hefur komið í ljós, meðal annars í bréfi frá Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, að Bretar og Bandaríkjamenn héldu meintum upplýsingum leyndum hvor fyrir hinum. Frá þessari furðuveröld ríkisrekinna undirheima segir Kamal Ahmed í Observer.