Allir þurfa áreynslu

Greinar

Rannsóknir eru smám saman að leiða betur og betur í ljós, að hæfileg líkamsáreynsla lengir og hressir lífið. Sérfræðingar eru farnir að halda fram, að kyrrseta sé svipaður skaðvaldur og tóbaksreykingar, ­ stytti líf margra manna um ein tíu eða tuttugu ár.

Ein nýjasta rannsóknin bendir til, að þeir, sem ganga rösklega samtals 15 kílómetra á viku búi við rúmlega 20% minni hættu á andláti en hinir, sem ganga minna en 5 kílómetra á viku. Þeir vinna ekki aðeins tímann, sem fer í heilsuræktina, heldur mikinn tíma að auki.

Í sömu rannsókn kom í ljós, að þeir, sem eyddu 3.500 hitaeiningum á viku í líkamsrækt, höfðu helmingi minni andlátslíkur en hinir, sem ekkert hreyfðu sig. 3.500 hitaeiningar samsvara sex til átta tíma rösklegum hjólreiðum á viku eða um 50 kílómetra göngu á viku.

Langhlaup eru talin vera sú hreyfing, sem þjálfar líkamann á stytztum tíma. Tuttugu mínútna hlaup þrisvar eða fjórum sínum í viku er talið vera hæfileg hreyfing, jafngildi þess að hætta að reykja, auk þess sem hlaup hvetja fólk til að hætta að reykja.

Margt fleira er gott en að hlaupa. Sund er einnig afar góð hreyfing, ef því fylgir áreynsla og fólk lætur sér ekki nægja að liggja í heitum pottum. Og sund er hægt að stunda hér á landi í hvaða veðri sem er. Svo eru hjólreiðar og rösk ganga einnig heppileg.

Bandarískir læknar, sem sjá um þjálfun herflugmanna og geimfara, hafa gefið út bækur með töflum með samanburði mislangrar áreynslu í ýmsum greinum. Þær, sem gefa bezta raun, eru hlaup, sund, hjólreiðar og ganga, allt aðgengilegar greinar.

Þessar staðreyndir hafa eflt mjög trimmáhuga á Vesturlöndum, ef til vill minna hér en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Sá tími er þó liðinn hér á landi, að börnum og hundum sé sigað á hlaupandi fólk. Þjálfun er ekki lengur talin heimska.

Í dag er alþjóðlegi heilbrigðisdagurinn og er hann að þessu sinni helgaður heilbrigðu lífi. Slíkt líf telur Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin fela í sér líkamlega þjálfun, tóbaksbindindi, hollt mataræði og hvarf frá ofnotkun áfengis og misnotkun lyfja.

Í ávarpi dagsins segir forstjóri stofnunarinnar, að “sú trú hafi orðið nokkuð almenn vegna framfara í læknavísindum, að heilsa sé það, sem læknar gefi fólki”. Hið rétta sé, að heilsa sé “gjöf einstaklinganna og samfélagsins til sjálfs sín”, það er eigin ákvörðun fólks.

Hann segir einnig, að nauðsynlegt sé fyrir fólk á öllum aldri, ekki aðeins fólk á bezta aldri, að þjálfa sig á einhvern hátt. Ennfremur minnir hann á gleðina og vellíðanina, sem fylgir því að hreyfa sig og reyna á sig. Árin verða ekki aðeins fleiri, heldur líka ánægjulegri.

Fólk er að vakna til vitundar um skaðsemi tóbaks, ruslfæðis, ofneyzlu áfengis og misnotkunar lyfja. Starfandi eru félög, sem hafa náð miklum árangri í að kynna fólki hættur á þessum sviðum. Árangurinn í kynningu líkamsþjálfunar hefur líklega verið hægari.

Mikilvægt er, að fólk átti sig á, að velferðarþjóðfélagið leysir ekki allan vanda þess, þótt það bjóði nánast ókeypis læknishjálp og sjúkrahúsvist á kostnað skattgreiðenda. Vanheilsa kostar miklu meira en þetta og mest þann, sem fyrir henni og vanlíðaninni verður.

Um leið og menn læra að vara sig á eiturefnum og ruslfæðu er jafnmikils virði að læra að láta líkamlega áreynslu, langlífi og ánægju leysa kyrrsetu af hólmi.

Jónas Kristjánsson

DV