Allir vildu spána kveða

Greinar

Ekki er unnt að sjá, hvern forstjóri Þjóðhagsstofnunar var að reyna að blekkja, þegar hann sagði í yfirlýsingu hér í blaðinu í gær, að nýjasta þjóðhagsspá hefði ekki velkzt um í kerfinu, heldur orðið til á þriðjudaginn var, þegar hún var kynnt ríkisstjórn og fjölmiðlum.

Öllum þeim, sem fylgjast með, var þó kunnugt um, að fyrir þá helgi höfðu bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra komið fram í fjölmiðlum til að ræða innihald þeirrar þjóðhagsspár, sem forstjórinn segir nú, eins og hann sé nýkominn frá Marz, að hafi ekki verið til.

Munurinn á þessu volki þjóðhagsspár og hinum fyrri er, að í þetta sinn tókst pólitískum hagsmunum í ríkisstjórninni ekki að fá spánni breytt, áður en hún var birt almenningi. Stafar það af, að Þjóðhagsstofnun er að reyna að reka af sér orðspor þjónustulundar.

Í þetta sinn verður því að taka meira mark á þjóðhagsspá en löngum áður hefur verið hægt. Hún er ekki lengur eins eindregin stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og hún hefur allt of oft verið áður. Hins vegar er engin ástæða til að taka hana allt of bókstaflega.

Ef þjóðhagsspáin er skökk, er það ekki í áttina, sem fjármálaráðherra heldur fram. Spáin ofmetur ekki fjárhagserfiðleika ríkissjóðs eða forustu ríkisins í framleiðslu heimatilbúinnar verðbólgu. Hún er ekki of svartsýn, heldur of bjartsýn, ef einhverju skeikar.

Í umræðunni um þjóðhagsspá kemur á óvart, hversu dólgslega fjármálaráðherra hefur haldið fram atriðum, sem ekki er sjáanlegt, að séu annað en algerar firrur og þverstæður. Breytingar á tekjukerfi ríkissjóðs hafa ekki dregið úr tekjum hans, heldur stóraukið þær.

Þótt ríkissjóður sé á hausnum, hafa tekjur hans aukizt um 4,3 milljarða umfram áætlun fjárlaga. Skattheimtan hefur verið langt umfram fyrri venju. Það er einkum vegna eftirminnilegra skattabreytinga, svo sem matarskattsins og staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars.

Líta má á spá fjármálaráðherra um enn auknar tekjur síðari hluta ársins sem yfirlýsingu um, að fyrri orð hans séu ómerk, og sem eins konar almenna hótun um, að skattbyrði ársins verði ekki eins þung og hörðustu gagnrýnendur héldu fram í vetur, heldur enn þyngri.

Tekjurnar, sem þegar hafa innheimzt, benda til, að ríkissjóður ætli að taka til sín stærri hlut landsframleiðslunnar en áður hefur tíðkazt, 24,7% í stað 22,4%. Nú er fjármálaráðherra að hóta því, að Íslandsmet hans verði enn stærra, þótt hann hafi áður neitað metinu.

Þessa gífurlegu tekjuaukningu hefur fjármálaráðherra ekki notað til að koma ríkissjóði á réttan kjöl, heldur til að sóa henni í allar áttir og einkum þó í landbúnað, sem er svo þurftarfrekur, að ekki virðast til þeir peningar í heiminum, er hann gæti ekki torgað.

Í stað tekjuafgangsins, sem ráðgerður var, er kominn hálfs milljarðs fjárlagahalli. Þar á ofan er lánsfjáráætlun ríkisins komin þrjá milljarða fram úr áætlun. Í hvorugu tilvikinu eru öll kurl komin til grafar, svo að ástandið á enn eftir að versna, þegar líður á síðari hluta ársins.

Nú síðast er fjármálaráðherra farinn að heimta meira fé úr bönkunum og hótar þeim ella aukinni frystingu sparifjár. Augljóst er, að frystingin fer til verðbólgu hvetjandi verkefna og magnar enn hina gífurlegu samkeppni um rándýrt fjármagn, sem einkennir þjóðfélagið.

Eitt atriði er öruggt í þjóðhagsspánni. Það er, að fjármálaráðherra hefur rækilega misst tökin á starfi sínu. Þess vegna vildi hann fá að ráða niðurstöðum spárinnar.

Jónas Kristjánsson

DV