Framsóknarmennirnir Jón Helgason og Þorsteinn Pálsson Suðurlandsráðherrar eru ekki sér á parti, þegar þeir setja 4050% toll á innfluttar kartöflur, svo að þær verða dýrari til neytenda en ella. Slíkir ráðherrar eru um allan heim, ákaft studdir skammsýnum kjósendum.
Við eigum ekki að verða undrandi, þótt lagður sé aukatollur á saltfiskinn, sem við reynum að selja Portúgölum. Við eigum ekki að verða hissa þótt Bandaríkjastjórn bjóði okkur sjónhverfingar, þegar þarlendir borgarar þurfa að ná flutningum til varnarliðsins.
Verndarstefna þeirra Jóns og Þorsteins á auknu fylgi að fagna í heiminum. Hún getur orðið okkur skeinuhættari en nú. Hér í blaðinu á fimmtudaginn var í leiðara um fríverzlun meðal annars fjallað um tvær tillögur amerískra þingmanna, er gætu orðið okkur dýrar.
Í augsýn er viðskiptastríð milli hinna þriggja efnahagsjötna heimsins, Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins. Í auknum mæli er beitt tollum, innflutningskvótum og öðrum hugvitsamlegum aðgerðum til að vernda þrýstihópa á kostnað neytenda.
Enginn haftasinni vill vakna til vitundar um, að haftastefna er tvíhliða., Þar gildir gamla lögmálið um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Allir tapa um síðir á höftunum og mest auðvitað almenningur, sem þarf að borga meira fyrir vörurnar en væri við fríverzlun.
Einna óhugnanlegust er haftastefnan gagnvart þjóðum þriðja heimsins. Það eru fleiri en kaupmaðurinn í Flónni, sem kvarta um undirboð fátækra þjóða, þar sem börn vinna við framleiðslu. Í uppsiglingu er siðlaust viðskiptastríð norðurs gegn suðri.
Lönd þriðja heimsins eru flest í miklu skuldafeni, einkum vegna vinfengis þarlendra harðstjóra og vestrænna bankastjóra. Hinar fátæku þjóðir geta ekki greitt vexti af þessum skuldum, nema þær fái tækifæri til að koma hinni ódýru framleiðslu sinni í verð.
Ef vestrænum markaði er lokað, hefur þriðji heimurinn ekki fé til að kaupa tækni og aðrar lyftistengur efnahags. Þannig hefur haftastefnan viðskipti af ríku löndunum, um leið og hún kippir fótunum undan stöðu lýðræðis í heiminum og öryggi í alþjóðasamskiptum.
Í þessu andrúmslofti gagnkvæmrar skammsýni liggja fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins um 400 haftatillögur þingmanna á atkvæðaveiðum. Að minnsta kosti tvær beinast gegn löndum eins og Íslandi, sem hafa hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum.
Fáar þjóðir í heiminum eru eins háðar fríverzlun og Íslendingar eru. Við eigum hvarvetna að berjast fyrir jafnrétti innfluttrar og heimaframleiddrar vöru. Þannig getum við selt vörur, sem við getum framleitt ódýrar en aðrir og keypt vöru, sem aðrir bjóða ódýrar.
Slík verkaskipting lækkar vöruverð og tilheyrandi vísitölur verðbólgu. Hún bætir lífskjör neytenda, stéttarinnar, sem jafnan má sín lítils gegn þrýstihópum. Hún flýtir fyrir, að úreltar greinar á borð við hefðbundinn landbúnað víki fyrir atvinnugreinum hárra tekna.
Oftast liggja þröngir hagsmunir landbúnaðar að baki haftastefnu. Evrópubandalagið ver 70% tekna sinna til að verjast ódýrri framleiðslu Norður-Ameríku, Ástralíu og þriðja heimsins. Við verjum milljörðum á ári hverju til að halda dauðahaldi í bændafortíð okkar.
Við skulum vara okkur á haftasinnum á borð við Jón og Þorstein. Við skulum aflétta hömlum á verzlun með innfluttar vörur og semja við aðra um slíkt hið sama.
Jónas Kristjánsson
DV