Alls engar sættir

Greinar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um helgina sýndi staðfestu í hitamálunum tveimur, sem hafa skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Að ráði forustumanna flokksins hafnaði fundurinn sáttum í fiskveiðikvóta og Kárahnjúkavirkjun og studdi í þess stað stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í fiskveiðikvótanum var samþykktur málamyndagerningur, kallaður “hóflegt veiðigjald”, sem felur í sér eftirgjöf af stærðargráðunni 5% við sjónarmið þeirra, sem vilja afnema gjafakvótann. Slíkt frávik frá fyrri stefnu felur ekki í sér neina marktæka tilraun til sátta.

Málamiðlun og sættir eru þekkt hugtök hér á landi. Þau fela í sér, að tekið er tillit til ýmissa sjónarmiða og fundin þolanleg niðurstaða að mati flestra málsaðila, enda falla deilur niður í kjölfarið. Engin leið er að rugla þeim hugtökum saman við niðurstöður landsfundarins.

Raunar varð niðurstaða fundarins um Kárahnjúkavirkjun svo eindregin, að klappað var, þegar helzti andstæðingur hennar á fundinum var kallaður “hryðjuverkamaður”. Þannig fer fyrir þeim, sem heimta að fá að reyna að raska fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.

Vitað er, að þjóðin skiptist í tvær fylkingar í hitamálunum tveimur. Raunar hafa flestar skoðanakannanir mælt meiri stuðning við sjónarmiðin, sem landsfundurinn hafnaði. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins vita af þessum vanda, en létu eigi að síður slag standa á fundinum.

Fulltrúar koma ekki á landsfund til að hafa áhrif á gerðir fulltrúa flokksins á Alþingi og í ríkisstjórn. Þeir koma til að taka þátt í fagnaði rétttrúaðra sem eins konar klapplið fyrir sitt lið á vellinum. Á landsfundi minnir flokkurinn á íþróttafélag, sem styður “okkar” menn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er enginn þverskurður kjósenda flokksins, sem eru samkvæmt skoðanakönnunum miklu hallari undir markaðsvæðingu kvótans og náttúruvernd á Austurlandi. Fundurinn er fyrst og fremst gjallarhorn og bergmál fyrir flokksforustuna.

Foringjarnir hafa gilda ástæðu til að ætla, að þeir komist upp með þetta, því að kjósendur eru flestir stilltir. Reynslan sýnir, að yfirleitt láta kjósendur skoðanir sínar á einstökum ágreiningsmálum ekki trufla hefðbundinn stuðning við flokkinn sinn í kjörklefanum.

Meðan kjósendur hafa ekki næga sannfæringu til að fylgja viðhorfum sínum til hitamála eftir í kjörklefanum, munu forustumenn halda áfram að líta svo á, að hlutverk sitt sé fremur að leiða hjörðina heldur en að spyrja hana, hvert skuli fara. Enda er það eðlileg niðurstaða.

Þannig munu hinir fáu útvöldu halda áfram að fá gefins sína skammta af takmörkuðum hlunnindum sjávar. Þannig mun náttúruperlum Austurlands verða fórnað fyrir tæpa gróðavon. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið þetta og fengið stuðning landsfundar.

Þetta verður síðan staðfest á Alþingi í vetur og verður þar með löglegt. Allt byggist þetta á, að kjósendur eru ekki reiðubúnir til að taka skoðanir sínar alvarlega. Undir niðri líta flestir þeirra á sig sem þegna fremur en frjálsborna borgara. Þeir treysta yfirvaldinu.

Þegar stjórnmálaflokkar fara að líkjast fótboltafélögum og landsfundir þeirra fara að líkjast klappliðum, sjá menn fljótt, að þetta er ekki vettvangur fyrir málafylgju. Hún færist yfir í eins máls samtök og þrýstihópa, sem taka vaxandi þátt í þjóðmálaumræðu fjölmiðla.

Slíkir hópar munu svo áfram puða markvisst við að reyna að knýja fram sættir á borð við þær, sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV