Helztu seljendur GPS-tækja eru R. Sigmundsson, sem er með Garmin, og Aukaraf, sem er með Magellan.
Garmin vasatæki eru af mörgum gerðum. Ódýrast er Geko 101, sem kostar 14.500 krónur. Ódýrasta tækið, sem getur tekið landakort, er Legend, sem kostar 29.000 krónur og alls 44.000 krónur með korti. Vista hefur rafeindaáttavita og loftvog til viðbótar og kostar 44.000 krónur og alls 59.000 krónur með korti, rafeindaáttavita og loftvog. Þessi tæki eru um 150 grömm á þyngd nema Geko, sem er 90 grömm. Verð kann að hafa breyzt, síðan Eiðfaxi athugaði það.
Magellan vasatæki eru líka af mörgum gerðum. Ódýrast er GPS 310, sem kostar 19.900 krónur. Ódýrasta tækið, sem getur tekið landakort, er Sportrak Map, sem kostar 39.900 krónur með korti, en felur ekki í sér rafeindaáttavita. Sportrak Pro er meira tæki og kostar 49.900 krónur. Þessi tæki eru um 170 grömm á þyngd. Verð kann að hafa breyzt, síðan Eiðfaxi athugaði það.
Bezt eru tæki með
korti og áttavita
Jónas Kristjánsson:
Bezt er að eiga GPS tæki með korti og stafrænum áttvita, sem auka öryggi ferðamannsins, þótt þú hafir ekki skráð neina leiðarpunkta í það. Á kortinu sérðu, hvar þú ert á landinu, og áttavitinn sýnir þér, í hvaða átt þú ert að fara eða þarft að fara. Kortið sýnir flest neyðarskýli á svæðinu, sem þú ert að ferðast um, og mikilvægustu örnefni. Minna gagn er af tækjum, sem ekki hafa þessa tvo ágætu eiginleika.
Ef GPS-tækið á að koma að meira gagni en að vera einfalt staðsetningartæki í neyðartilvikum, þarftu að vera búinn að setja inn leiðarpunkta áður en þú ferð. Það er auðveldast fyrir þá, sem hafa komizt yfir tölvudisk með stafrænu GPS-korti í hlutföllunum 1 á móti 50.000, miklu nákvæmara en kortið í tækinu sjálfu, sem er 1 á móti 300.000. Af nákvæma tölvukortinu má merkja með tölvumúsinni röð af leiðarpunktum inn á tölvuna. Punktaröðinni er síðan hlaðið inn í GPS-tækið.
Leiðarpunkta má einnig setja inn eftir grófara kortinu, sem er í GPS-tækinu sjálfu. Innsetning punkta verður síðan miklu einfaldari, þegar Landmælingarnar setja í sölu ódýru kortadiskana með nákvæmum kortum í hlutföllunum 1/50.000 og 1/100.000, sem fara sennilega líka beint inn á GPS-kubbana, svo sem Magnús Guðmundsson lýsir hér á öðrum stað í opnunni.
Leiðarpunkta má líka setja inn í GPS-tæki með því að fara á vettvang og merkja staðina inn. Ef það er gert í hestaferð, myndast leiðsögn, sem hægt er að nota í síðari hestaferðum, þótt hún nýtist ekki í fyrri ferðinni. Á slíku ferðalagi er hægt að setja nákvæmlega inn vöð, vænlega áningarstaði, hlið og aðra leiðarpunkta fyrirhugaðrar ferðar.
Sem dæmi má taka fyrirhugaða langferð Fáks í sumar um Kerlingafjöll og afréttirnar milli Þjórsár og Hvítár. Áður verður væntanlega búið að fara á bíl um svæðið og setja inn leiðarpunkta, þar sem skilur með jeppa- og hestaslóðum og þar sem þær mætast aftur. Öll vöð, vænlegir áningarstaðir og hlið verða þá komin inn á GPS-tækin, sem notuð verða í ferðinni. Sömuleiðis ýmsir aðrir mikilvægir leiðarpunktar.
Jafnframt verður sennilega haft tæki opið alla leiðina til að skrá sjálfvirkt raunverulega ferilpunkta ferðarinnar. Úr slíkum ferilpunktum, sem eru mjög þéttir, má síðan velja ýmsa mikilvæga ferilpunkta og gera að leiðarpunktum í leiðarlýsingu fyrir aðra, sem ætla að fara sömu leið síðar. Á þann hátt bjó ég til leiðarlýsingu fyrir fimm daga ferð um Löngufjörur og nágrenni, allt frá Hvanneyri að Arnarstapa.
Þannig geta margir lagt smám saman til efni í banka af leiðarlýsingum fyrir hestamenn. Bankinn getur svo farið á vefinn eins og hjá jeppamönnum og vélsleðamönnum.
Í síðasta tölublaði Eiðfaxa sagði listmálarinn Baltasar Samper frá reynslu sinni af notkun GPS-tækja. Hann benti þar á, að nauðsynlegt er að æfa sig fyrirfram á sömu tegund tækja og notuð er í ferðinni, því að mismunandi tæki virka á mismunandi hátt. Sérstaklega taldi hann mikilvægt að æfa notkun stafræna áttavitans, sem er gagnmerkt öryggistæki.
Einnig þurfa menn að muna eftir að hafa aukarafhlöður með í reiðinni. Það er sérstaklega mikilægt, ef menn hafa tækið alltaf opið til að skrá sjálfvirka ferilpunkta, því að sett af rafhlöðum tæmist á tíu klukkustundum. Ef ekki eru skráðir slíkir punktar, þarf aðeins að hafa tækið opið, þegar það er notað, því að það finnur gervihnettina fljótt. Við þær aðstæður ætti nýtt sett að endast alla ferðina.
Betri
kort
koma
Magnús Guðmundsson:
Hagur GPS notenda fer senn að vænkast, því að tveir stórir atburðir eru ívændum.
Undanfarið hafa ýmsar nýjungar komið á markað frá Landmælingum Íslands sem lengi hefur verið beðið eftir og má þar nefna nýjan Íslandskortadisk sem kom út í lok síðasta árs, þar sem kort í mælikvarða 1:250.000 eru gerð aðgengileg fyrir tölvunotendur með sérstökum hugbúnaði. Einnig má nefna diskinn Á flugi yfir Íslandi, sem selst hefur í um 10.000 eintökum á rúmu ári.
Um mitt þetta ár verða gömlu herforingjaráðskortin í mælikvarðanum 1/100.000 komin í stafrænu formi með GPS hnitum í sölu á geisladiski, sem seldur verður á 5.000 krónur eða minna á almennum markaði. Um mitt næsta ár koma svo enn nákvæmari kort, í mælikvarðanum 1/50.000, í stafrænu formi með GPS hnitum í almenna sölu á geisladiski á svipuðu verði.
Notendur kortanna geta merkt punkta með músinni og fengið upp hnitin, hlaðið slíkum hnitum í lista í tölvunni og flutt svo úr henni yfir í GPS-tækin. Ennfremur eru í gangi viðræður við einkaaðila, sem selja GPS-tæki, um að þessi kort fari beint í kubbana í GPS-tækjunum sjálfum.
Flest verða þessi kort samfelld heild, en ekki á aðskildum blöðum. Að grunni til eru herforingjaráðskortin 87 talsins og kortin í mælikvarðanum 1:50.000 um 200 talsins af öllu landinu. Áður voru til 110 kort í 1:50.000, sem náðu yfir hálft landið. Þau voru til sölu á diski, sem var mjög dýr, en ekki nógu vel læstur, svo að menn brenndu af honum sjóræningjaútgáfur í stað þess að kaupa diska.
Að baki kortadisksins í mælikvarðanum 1/50.000 verður nýr og stafrænn kortagrunnur, sem verið er að vinna hjá Landmælingum Íslands af landinu öllu. Verður fyrsta útgáfa hans tilbúinn í lok þessa árs. Nýi gagnagrunnurinn í mælikvarðanum 1:50.000 byggist á margs konar gögnum, loftmyndum, gervihnattamyndum og gögnum frá ýmsum stofnunum.
Ég tel, að þessi bylting í landmælingum muni færa notendum GPS-tækja, þar á meðal hestamönnum, frábær gögn í hendur.
Samstarf
leysir
málin
Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri:
Vegagerðin tók þátt í tilraun til að flokka, skrá og merkja reiðleiðir á kort á Norðurlandi vestra. Við teljum heppilegt og nauðsynlegt að halda slíkri vinnu áfram, en Vegagerðin getur ekki gert það ein. Sveitarfélögin, sem hafa skipulagsvaldið, þurfa að taka þátt í þessari vinnu, enda hljóta þau að hafa skoðanir á, hvar og hvernig reiðleiðir eigi að liggja. Ennfremur er æskilegt, að þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, hafi sem mest frumkvæði í málinu, til dæmis Landssamband hestamannafélaga og staðbundin hestamannafélög. Ekki stendur á Vegagerðinni að taka þátt í slíkri vinnu.
Merking reiðleiðanna í tilraunverkefninu var handvirk. Við erum nú farnir að merkja bílvegi stafrænt á kort og teljum eðlilegt, að reiðvegir verði einnig merktir á þann hátt. Bílvegirnir eru merktir með því að aka þá með GPS-tæki og taka ferilpunkta. Reiðleiðir þarf að merkja stafrænt með sama hætti, það er að segja með því að ríða þær með GPS-tæki á “trakki”, að minnsta kosti þær reiðleiðir, sem ekki liggja meðfram bílvegum. Það er hins vegar flóknara dæmi og meiri kostnaður að ríða reiðvegi en aka bílvegi. Draga má úr þessari fyrirhöfn með því að fá ferilpunkta hjá ýmsum aðilum, sem hafa riðið þessar leiðir með opið GPS-tæki. Vegagerðin er opin fyrir samstarfi við slíka aðila.
Fyrst þarf
að æfa sig
Þormar Ingimarsson:
Fyrir ferðalag er ég búinn að taka inn alla GPS-punkta, sem ég held, að ég þurfi að nota. Ég set inn alla skála, sem ég ætla að fara í og aðra skála í nágrenninu að auki. Ég set inn einstök kennileiti, svo sem vöð og áberandi fjöll. Þetta tek ég allt inn af korti heima hjá mér og er búinn að skipuleggja allt í GPS. Ég tel líka, að gott sé að hafa sömu upplýsingar í tveimur tækjum í ferð, svo að annað sé til reiðu, ef hitt blotnar eða bilar. Það er ég að hugsa um að gera næsta sumar og hafa þá annað tækið opið á trakki (ferilpunktum) alla daga. Aðalatriðið við notkun á GPS er að vera búinn að æfa sig áður en það er notað í ferð.
Það væri til bóta, ef við upphaf og endi reiðleiða yrðu sett upp skilti með helztu upplýsingum um leiðina, áningastaði og með mikilvægum GPS-punktum á henni.
Verkefninu
miðaði lítið
Jón Albert Sigurbjörnsson:
GPS er verkefni sem er búið að vera hér á dagskrá hjá LH í nokkurn tíma. Forsaga málsins er að árið 2000 var samþykkt á landsþingi að hefja samstarf við E-ferðir sem var að vinna að svipuðum verkefni fyrir jeppa og göngufólk.
Hugmyndin var að vera í samstarfi vegna þess á þeim tíma var mjög dýrt að fá svokallaða kortagrunna og mikil vinna þessu samfara. Við fengum m.a. birtingarétt allra aðila sem rituðu greinar í “Áfanga”.
Þetta verkefni er í samstarfi við Hestamiðstöð Íslands og átti að taka Norðurland vestra sem tilraunaverkefni. Verkefninu hefur því miður miðað lítið og höfum við ákveðið að endurskoða það frá grunni.
Kort eru nauðsyn
nauðsyn
Andreas Bergmann:
Ég fór norður með Gusti á landsmótið á Vindheimamelum 1974. Við riðum inn Gnúpverjaafrétt. Öðrum bílnum var snúið við í Bjarnalækjabotnum og hinn fylgdi okkur í Tjarnarver með það allra nauðsynlegasta. Við lögðum svo þaðan tímanlega af stað um morguninn mjög langa dagleið til Laugafells. Við fórum í Arnarfell og yfir Þjórsárkvíslar og í áttina að Laugafelli vestan allra bílaslóða. Ég hafði skilið kortin eftir í trússinu, af því að ég var ekki fararstjóri. Svo kom í ljós, að fararstjórarnir höfðu líka skilið kortin eftir.
Búið var að segja okkur, að kofinn væri norðvestan undir Laugafelli. Þegar við svo sjáum hnjúk framundan, ríðum við niður með honum að vestan, en finnum engan kofann eftir þrettán tíma í hnakknum. Þá vorum við í rauninni við Laugafellshnjúk, sem er miklu meira kennileiti en Laugafell, sem er bara alda, þegar það er séð úr suðri. Ákveðið var að senda tvo-þrjá menn til að leita að skálanum. Þeir komu til baka eftir hálfan annan tíma og höfðu þá fundið hann. Við komum svo í náttstað eftir sautján tíma reið. Ef við hefðum haft kort með okkur, hefðum við ekki lent í þessum misskilningi.
Í Laugafelli var engin beit, því að veður hafði verið kalt. Í þá daga voru menn ekki farnir að hafa hey í ferðum. Engir hagar höfðu verið síðan í Tjarnarveri. Við ákváðum því að fara sex saman eftir þriggja tíma áningu með hrossin niður í byggð í Skagafirði, en hitt fólkið kom svo með bílunum um morguninn. Þegar komið var að eyðibýlinu Þorljótsstaði innst í Vesturdal, var dagleiðin úr Tjarnarveri orðin nokkuð löng.
Ég man vel eftir fyrstu löngu hestaferðinni minni, árið 1963. Farið var upp Gnúpverjaafrétt inn í Arnarfell og þaðan yfir Þjórsárkvíslar austur í Nýjadal. Þar gerði á okkur mikið norðanrok, versta veður, sem ég hef lent í, og tjöldin fuku um koll. Þá var búið að vera mikið vatnsveður, en sandurinn fauk samt blautur. Við þessar aðstæður var hætt við að fara suður gróðurleysurnar austan Þjórsár og í staðinn riðið til baka í Arnarfell.
Síðan fórum við suður fyrir Hofsjökul og norður fyrir Kerlingafjöll, þar sem var snjókoma. Þaðan fórum við í Hvítárnes og síðan niður Hrunamannaafrétt, með áningu í Svínárnesi, Miklaöldubotnum og Hrunakrók. Í Miklaöldubotnum var veðrið gengið niður og við hengdum blautu fötin okkar til þerris yfir nóttina. Um morguninn voru þau öll beingödduð, svo að minna varð úr þurrkinum en til stóð.
Í þessari ferð voru hestarnir heftir á nóttunni og vakað yfir þeim til skiptis, því að hvergi voru hús né girðingar. Margar mínar beztu minningar úr hestaferðum eru af vöktunum yfir hestunum.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 4.tbl.2003