Með símanum greiðum við atkvæði í sönglagakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Síminn flytur okkur fréttir, til dæmis af gengi hlutabréfa eða úrslitum íþróttaleikja. Við tökum þátt í spurningaleikjum í símanum, skoðum gengi gjaldmiðla og látum símann vekja okkur eða minna okkur á mikilvæga fundi.
Fljótlega kemur að kröfu um að fá að kjósa í gemsanum í stað þess að fara á kjörstað. Það er freistandi leið til að halda uppi kjörsókn í alþingis-, byggða- og forsetakosningum og kjörin aðferð til að virkja þjóðaratkvæðagreiðslur sem hornstein lýðræðis, enda kostar símakosning ekki mikið.
Gemsinn er þegar kominn í harða samkeppni við tölvuna, til dæmis um tölvupóst. Hvar sem er sendum við stutt skilaboð símleiðis og tökum við þeim. Með lofttengingu tölvunnar mun hún veita símanum samkeppni, en allur almenningur hefur þegar veðjað á gemsann sem félagslegt samgöngutæki sitt.
Bandarískir kvalarar í fangelsum Íraks tóku myndir hver af öðrum við iðju sína. Þessar myndir láku út og breyttu gangi heimssögunnar. Menn vissu að vísu af pyndingunum áður, en þá voru þær sagðar vera ímyndun dálkahöfunda. Það var ekki fyrr en myndgemsar komu, að siðferðisþakið hrundi ofan á herinn.
Smám saman mun síminn taka að sér meira af þeim hlutverkum, sem upphaflega voru ætluð lófatölvum. Síminn verður dagbók með minnislistum og fundatímum. Síminn verður leiktæki og útvarp og sjónvarp. Krafa markaðarins er, að síminn taki sífellt að sér fleiri verksvið, sem áður voru tölvunnar.
Gemsinn þarf ekki aðeins að taka að sér hlutverk lófatölvu, síma og útvarps. Hann þarf líka að taka að sér hlutverk staðsetningartækis, sem segir eigandanum, hvar hann er staddur og hvaða leið hann eigi að fara til að komast á tiltekinn stað. Gemsinn verður bæði Palm og GPS-tæki.
Auðvitað verður það tæknilegt afrek að sameina öll þessi þrjú tæki í léttum gemsa, en annað eins hefur verið leyst. Helzti þröskuldurinn á veginum er rafmagnið. Útvíkkaður gemsi þarf miklu meira rafmagn en núverandi gemsi til að haldast í sambandi við umheiminn milli hleðslustunda.
Tugþúsundir tæknimanna í tæknideildum gemsaframleiðenda vinna við að þróa búnað, sem geri gemsanum kleift að gera allt, sem hér hefur verið talið upp og raunar margt fleira. Flest bendir til, að gemsinn sé, fremur en fistölvan, að verða einkennistæki og einkennistákn hinnar nýju aldar.
Sigurganga gemsans byrjaði raunar, þegar fólk áttaði sig á, að þar var komið tæki, sem gat sagt nákvæmlega, hvenær það kæmi heim í mat. Þá varð gemsinn hluti af lífinu sjálfu.
Jónas Kristjánsson
DV