Írak er ekki að breytast í lýðræðisríki undir járnhæl hernámsins. Kosningum hefur verið slegið á frest. Við völd er leppstjórn, sérvalin af Bandaríkjunum, með Ajad Allavi, þekktan njósnara sem forsætisráðherra, arftaka Ahmad Sjalabi, sem áður var helzta gæludýrið, en féll í ónáð.
Dauðarefsing hefur verið innleidd í Írak, líka fyrir að “stofna öryggi ríkisins í hættu”. Það er orðalag, sem ógnarstjórnir víða um heim hafa löngum notað til að útrýma stjórnarandstöðu. Lög og regla er á því stigi, að Sjalabi var nýlega kærður fyrir falsanir upp á samtals 150 krónur.
Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur verið bönnuð, þótt atvinnumenn telji hana að minnsta kosti miklu skárri en Fox, sem er hornsteinn að heljartökum George W. Bush forseta á Bandaríkjunum. Al-Jazeera hefur ítrekað skúbbað vestrænar fréttastofur og birt óvinsælar myndir af hryðjuverkum.
Pólitísk völd hafa ekki verið flutt frá Bandaríkjunum. Þau eru enn í höndum leppa, sem njóta ekki stuðnings fólks. Ástandið er ekki betra en það var á dögum Saddam Hussein. Bandaríska hernámsliðið hefur drepið fleiri óbreytta borgara en Saddam lét drepa á jafnlöngum tíma, um 10.000 manns.
Raunveruleg völd í landinu eru hjá bandaríska hernámsliðinu. Frægar erum allan heim eru myndir úr bandarískum fangelsum, sem sýna skipulegar pyntingar. Þær eru hluti af óþverranum, er fylgir hernámi, þar sem unnið er eftir þeirri meginreglu bandarísks þjóðfélags, að útlendingar séu óæðri en menn.
Áður vissum við, að það var lygi, að gereyðingarvopn væru í Írak. Ennfremur, að það var lygi, að samband væri milli Saddam Hussein og Osama bin Laden. Einnig, að hernámið er ekki skárra en stjórn Saddam Hussein. Nú erum við að skynja, að ekki er verið að stíga nein skref í átt til lýðræðis.
Innrásin og hernámið var aldrei og er ekki enn stutt af alþjóðasamfélaginu, aðeins samfélagi hinna viljugu, þar sem eru ýmis eyríki í Karabíska hafinu og Kyrrahafi, að Íslandi meðtöldu. Það er fyrst og fremst að frumkvæði væntanlegs forsætisráðherra, að Ísland er aðili að glæpunum í Írak.
Fyrr eða síðar munu spjót réttlætis meðal annars beinast að valdhöfum, sem í smæð sinni og eymd studdu óhæfuna í Írak í veikri von um, að herþoturnar færu ekki af Keflavíkurvelli.
Jónas Kristjánsson
DV