Allt er gott sem var

Greinar

Í tilefni landsfundar er Sjálfstæðisflokkurinn um það bil að hrista af sér slenið. Hann er um það bil að taka afstöðu með fortíðinni og gegn framtíðinni í veigamiklum atriðum. Slíkt uppgjör er sjaldgæft, því að stjórnmálamönnum líður yfirleitt illa, þegar þokunni léttir.

Í stofnunum Sjálfstæðisflokksins hafa menn velt vöngum yfir ýmsum hugtökum, sem hafa verið fyrirferðarmikil á síðum blaðanna síðasta áratuginn og jafnvel lengur. Þar finnst mönnum tímabært að fara að taka afstöðu til sölu veiðileyfa og innflutnings búvöru.

Við venjulegar aðstæður mætti búast við því af stjórnmálaflokki, að hann fyndi eitthvert orðalag, sem þýddi bæði og eða hvorki né. Af tillitssemi við margs konar kjósendur vilja stjórnmálaflokkar gjarna sýnast breiða vængi sína yfir óþarflega fjölbreytt sjónarmið.

Sennilega hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið óvæntan metnað af skoðanakönnunum, sem sýna mikið fylgi flokksins. Við slíkar aðstæður er auðvitað gott tækifæri til að taka af skarið og koma skarpari línum í stefnu flokksins og ímynd hans. Og það er verið að gera.

Stundum er þessi flokkur kallaður Íhaldið. Eftir landsfundinn verður enn frekari ástæða til að nota þetta góða nafn, því að flokkurinn hyggst leggja áherzlu á stuðning sinn við íhaldssamar hugmyndir og andstöðu sína gegn róttækum breytingum á ríkjandi ástandi.

Málefnanefnd innan flokksins hefur náð sáttum um að ítreka hina gamalkunnu reglu, að innflutningur skuli ekki hafinn á búvöru, sem hægt er að framleiða innanlands. Í stórum dráttum á vitleysan að halda áfram með hefðbundnu sniði og árlegum milljarðakostnaði.

Í rauninni er við hæfi, að Sjálfstæðisflokkurinn ítreki þrjátíu ára gamalt þrælahald, sem hann hneppti þjóðina í, með Alþýðuflokknum, þegar Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu. Það sýnir, að Framsóknarflokka má enn sem fyrr víða finna í litrófi stjórnmálanna.

Þá hefur formaður flokksins tekið af skarið og hafnað hugmyndum varaformannsins um að fara að taka tillit til þrautræddra tillagna um að stjórna fiskveiðum til frambúðar með sölu veiðileyfa. Formaðurinn segir, að nýbreytni af slíku tagi komi alls ekki til greina.

Sjálfstæðisflokkurinn er vanur að fylgja formanni sínum, hver sem hann er hverju sinni. Þess vegna mun landsfundurinn ítreka, að rétt sé, að þjóðin gefi útgerðarmönnum kvótann og þeir selji hann síðan hver öðrum, svo sem verið hefur í tíð Framsóknarráðherra.

Það er einkar vel við hæfi, að Sjálfstæðisflokkurinn ítreki á landsfundi hin fornu sjónarmið í landbúnaði og sjávarútvegi; staðfesti enn einu sinni, að ekki er í rauninni neinn munur á honum og Framsóknarflokknum: og hafni alls konar nýtízkulegri röksemdafærslu.

Svo er bara að hamra klisjurnar inn í sauðarhausa á landsfundi. Þar þarf að ítreka enn einu sinni, að flokkurinn sé á móti vondum orðum eins og auðlindaskatti, af því að hann sé á móti nýjum sköttum. Enginn vafi er á, að landsfundarmenn munu klappa saman lófunum.

Sömuleiðis þarf á landsfundinum að hamra inn lífseigu klisjuna um, að þjóðin þurfi að vera sjálfri sér næg um matvæli á ófriðartímum, alveg eins og hún sé ekki enn farin að lifa á erlendri kornvöru og pakkamat og eigi engan fisk í geymslum vinnuslustöðva sjávarútvegs.

Því fylgir öryggistilfinning, að Sjálfstæðisflokkurinn telji okkur enn einu sinni trú um, að heimurinn hafi ekkert breytzt og allt sé í rauninni eins og áður var.

Jónas Kristjánsson

DV