Allt er óbreytt í bönkunum

Greinar

Fyrir nokkrum árum var úrskurðað, að kona nokkur gæti vegna hagsmunaárekstra ekki í senn verið starfsmaður verðbréfasjóðs og stjórnarmaður Landsbankans. Forsætisnefnd Alþingis fékk skrifstofustjóra sem lögfræðing til að kanna málið. Þetta var niðurstaða hans.

Nú skipar viðskiptaráðherra starfsmann sama verðbréfasjóðs sem stjórnarmann sama banka. Hann hefur ekki einu sinni fyrir að afla sér nýs lögfræðiálits, sem segi okkur, að skrifstofustjóri og forsætisnefnd Alþingis séu ekki marktækir álitsgjafar í bankamálum.

Skipan bankaráða vekur líka athygli fyrir þá sök, að viðskiptaráðherra telur heppilegt, að saman fari seta þar og störf við að afla stjórnmálaflokkum peninga. Væntanlega stafar það af, að þá getur sami maðurinn lofað fyrirgreiðslu um leið og hann tekur við skattinum.

Bankar á Íslandi hafa yfirleitt verið illa reknir, einkum Landsbankinn, sem ríkið bjargaði frá gjaldþroti fyrir nokkrum árum. Þeir hafa sóað milljörðum í geðveikislegar fyrirgreiðslur, ekki sízt til ýmissa gæludýra, sem hafa verið í nánum tengslum við pólitíkina.

Viðskiptaráðherra skipar samt í bankaráðin menn, sem með annarri hendinni taka við framlögum gæludýranna til stjórnmálaflokkanna og mæla með hinni hendinni með afbrigðilegum fyrirgreiðslum til gæludýranna. Breytingar hans felast í að hafa ástandið óbreytt.

Ein mikilvægasta breytingin, sem viðskiptaráðherra hafði boðað, var sparnaður og samþjöppun ábyrgðar með því að fækka bankastjórum úr þremur í einn í hvorum banka. Niðurstaðan var auðvitað sú, að breyting ráðherrans felst í að hafa ástandið óbreytt.

Ekkert nýtt er í breytingum viðskiptaráðherra. Ekkert er gert til sparnaðar eða skilvirkari yfirstjórnar. Ekkert er lært af útlánatjónum áratugarins, heldur skipaðir sömu menn og sams konar menn til að sukka. Breytingar hans felast einkum í orðaleikjum.

Ríkisbankarnir verða áfram fyrst og fremst helmingaskiptafélög ríkisstjórnarflokkanna tveggja. A-flokkarnir eru þó gerðir samábyrgir með því að bjóða hvorum þeirra einn stól í hvoru bankaráði. Þannig sáir viðskiptaráðherra til friðar á Alþingi um hneyksli sitt.

Í alvöruþjóðfélagi væri reynt að bæta rekstur bankanna með því að losa þá við bankastjóra og bankaráðsmenn, sem hafa staðið fyrir slíku sukki með peninga í óráðsútlánum, að helzti banki þjóðarinnar væri orðinn gjaldþrota, ef ríkið hefði ekki hlaupið undir bagga.

Hafa ber þó í huga, að breytingar til bóta eru sagðar væntanlegar. Verða þær lofaðar, þegar þær eru í húsi. Þar á meðal er afnám ríkisábyrgðar á bönkunum og sala bankanna í áföngum. Þegar bankarnir verða orðnir frjálsir af ríkinu, verða þeir frjálsir af flokkaspillingu.

Slík breyting hefur ekki gerzt. Viðskiptaráðherra hefur framlengt fyrra ástand og hrókað mönnum milli reita. Hann hefur raunar magnað fyrri spillingu með því að ganga þvert á niðurstöðu skrifstofustjóra og forsætisnefndar Alþingis um skipan bankaráðsmanna.

Að baki gerða ráðherrans er sú óþægilega staðreynd, að skammvinnu tímabili siðvæðingar í stjórnmálum er lokið að sinni. Um tíma héldu pólitíkusar að þeir yrðu að rifa spillingarseglin, en hafa nú komizt að raun um, að kjósendur láta sér fátt um spillingu þeirra finnast.

Þess vegna mun Ísland enn um sinn verða rekið sem Kardimommubær, þar sem ekki gilda siðareglurnar, sem móta nágrannaþjóðir okkar í austri og vestri.

Jónas Kristjánsson

DV