Hækkun skatta lendir á þeim, sem greiða háa skatta, en ekki á hinum, sem losna undan háum sköttum. Þessi einföldu sannindi vilja flækjast fyrir þeim stjórnmálamönnum, sem vilja sækja auð í grannans garð til að kosta gjafmildi sína gagnvart gæludýrum atvinnulífsins.
Í hópi þeirra, sem samkvæmt skattskýrslum eru hátekjumenn, eru fjölmennastir opinberir starfsmenn og aðrir þeir, sem af ýmsum ástæðum verða að telja rétt fram eða sjá sóma sinn í að telja rétt fram. Þar eru ekki hinir frægu atvinnurekendur með vinnukonuútsvörin.
Sagan endurtekur sig í sífellu. Þegar stjórnmálamenn eru búnir að fárast yfir, að tekjuskattar skili sér ekki nógu vel, er niðurstaða þeirra sú, að ekkert sé hægt að gera í málinu, en hins vegar sé hægt að hækka skatta á þeim, sem áður er búið að leggja á háa skatta.
Þegar hinn nýi og fjárfreki fjármálaráðherra er búinn að finna formúlu fyrir hækkun tekjuskatta, til dæmis þá að bæta við nýju skattþrepi fyrir þá, sem hafa meira en 100.000 krónur í tekjur á mánuði, kemur eins og venjulega í ljós, að það eru opinberir starfsmenn, sem munu borga.
Önnur einföld sannindi fara líka jafnan fyrir ofan garð og neðan hjá fjárfrekum stjórnmálamönnum. Þau eru, að atlögur að svokölluðum fjármagnseigendum afla minna fjár en til er ætlazt og minnka fjármagnið, sem þjóðfélagið fær á lánamarkaði til uppbyggingar.
Í hópi þeirra fjármagnseigenda, sem fjárfrekir stjórnmálamenn geta náð til með lögboðinni vaxtalækkun og skatti á vaxtatekjur og fjármagn, eru fjölmennastir hinir öldruðu og aðrir þeir, sem ávaxta fé eftir hefðbundnum leiðum. Þar eru ekki hinir frægu okurkarlar.
Ríkisstjórnin er að reyna að róa gamla fólkið og aðra þá, er spara á hefðbundinn hátt, með því að biðja það að taka ekki mark á rugli í nýjum fjármálaráðherra. En ákvörðunin um lækkun raunvaxta um 3% er þó ekki frá honum komin, heldur sjálfum forsætisráðherra.
Lækkun vaxta er auðvitað beinn skattur á alla þá mörgu og smáu, sem eiga peninga í bönkum og öðrum lánastofnunum. Það er skattur á sparisjóðsbækur og ríkisskuldabréf gamla fólksins og almennings yfirleitt, hvað sem Steingrímur Hermannsson segir.
Um leið minnkar vaxtalækkunin þann skattstofn, sem ríkisstjórnin hyggst ná meiri tekjum af. Hún segist samt munu hækka skatta á fjármagnstekjum, sem væntanlega eru aðallega vextir, og ná þannig auknu fé í ríkissjóð. Mikið skortir á, að þetta reikningsdæmi gangi upp.
Samanlagt munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn svokölluðum fjármagnseigendum hrekja lánsfé úr bönkum og öðrum lánastofnunum. Eitthvað af því mun verða notað í ferðir og aðra neyzlu, en annað fara af hvíta markaðinum yfir á hinn gráa og einkum hinn svarta.
Eftir því sem þessar aðgerðir þrengja hinn hefðbundna lánamarkað munu þær sprengja upp vexti á öðrum markaði, þar sem þeir geta leitað að sjálfvirku jafnvægi, til dæmis í mynd affalla af fjárskuldbindingum, sem eru vel þekkt fyrirbæri hér á landi.
Fjármálaráðherra og forsætisráðherra segjast veifa sverði sínu yfir ríkisbubbum og okurkörlum, en munu í staðinn hitta fyrir opinbera starfsmenn, aldrað fólk og annan almenning. Þeir segjast ná réttlæti í vöxtum, en munu uppskera lánsfjárskort og hækkaða raunvexti.
Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fjárfrekir stjórnmálamenn verða fangar síns eigin lýðskrums og valda almenningi stórtjóni með beitingu handafls í fjármálum.
Jónas Kristjánsson
DV