Allt kom fyrir ekki

Greinar

Gagnsókn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stöðvaðist helgina fyrir kosningar, þegar flokkurinn náði 48,4% fylgi í skoðanakönnun. Upp úr þeirri tölu komst hann ekki í könnunum kosningavikunnar. Þrjár kannanir í röð sýndu nákvæmlega þetta sama fylgi fram eftir vikunni.

Síðan dalaði fylgið í lok vikunnar. Þá komu til sögunnar tveir kappræðufundir borgarstjóraefnanna. Samkvæmt mælikerfi fyrri fundarins varð Ingibjörg Sólrún sigurvegarinn. Eftir fundina jókst fylgi R-listans úr 51,6% í þau 53%, sem komu fram í kosningaúrslitunum sjálfum.

Lokaspretturinn í kosningavikunni bendir ekki til, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð meiri árangri í Reykjavík, þótt kosningabaráttan hefði orðið lengri. Þar með er ekki sagt, að mikill áróðurskostnaður flokksins hafi verið til einskis. Hann dugði bara ekki á endaspretti.

Sjálfstæðisflokkurinn sýndi mikinn sveigjanleika í kosningabaráttunni. Hann skipti um borgarstjóra í upphafi baráttunnar, þegar skoðanakannanir voru flokknum erfiðar. Og hann færði sig snögglega yfir til vinstri í borgarmálefnum, gerðist hreinn vinstri flokkur um tíma.

Borgarstjóraskiptin, vinstri stefnubreytingin og peningaausturinn sýndu, hve alvarlega flokkskerfið tók hinar slæmu horfur í kosningunum í Reykjavík. Þótt flokkurinn hafi víða tapað miklu fylgi og sums staðar meira fylgi, er ósigurinn í Reykjavík annars og meira eðlis.

Flokksforustan getur ekki vænzt þess, að andstöðuflokkarnir lendi að þessu sinni í sömu vandræðum og í fyrra skiptið, þegar þeir náðu völdum í Reykjavík. Þá buðu þeir fram hver fyrir sig, höfðu ekki borgarstjóraefni og gerðu síðan tæknimann að borgarstjóra.

Nú buðu flokkarnir sameiginlegan lista, sem svo mikil samstaða náðist um, að breytingar voru gerðar á innan við átján hundruð kjörseðlum í kjörklefum. Mikilvægast er þó borgarstjóraefnið, sem greinilega hefur unnið víðtækt traust meðal Reykvíkinga, Ingibjörg Sólrún.

Hugsanlegt er, að flokkarnir fjórir að baki hinum nýja borgarstjóra haldi friðinn sín á milli á vettvangi borgarmála; að borgarstjórinn komi fram breytingum á áherzlum í málefnum borgarinnar; og að henni takist að bæta fjárhag borgarinnar úr því að smíði monthúsa er lokið.

Miklu skiptir, hvort borgarstjórinn nær tökum á embættismannakerfinu, sem að nokkru er orðið samvaxið Sjálfstæðisflokknum. Ef hlutar kerfisins reyna að halda áfram fyrri áherzlum, getur reynzt heppilegt að stokka upp spilin, svo að pólitíski viljinn nái fram að ganga.

Ef mál fara í þennan farveg, er ekkert sem segir, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi greiðan aðgang að hjörtum borgarbúa að nýju eftir fjögur ár. Nýi meirihlutinn í borginni hefur mun betri möguleika en vinstri meirihlutinn 1978-1982 til að halda örlögum sínum í eigin höndum.

Samstarf flokkanna fjögurra í Reykjavík hefur óbeint þau áhrif að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar í landsmálum. Að vísu er ekkert beint samband milli borgarstjórnar og landsstjórnar, en samstarf á einum stað getur freistað til samstarfs á öðrum stað og vettvangi.

Til dæmis má nefna, að Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar verður eftir næstu alþingiskosningar tregari til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn en hann hefði orðið, ef samstarf Framsóknarflokksins við hina flokkana hefði ekki leitt til kosningasigurs í Reykjavík.

Myndun nýs meirihluta í Reykjavík veikir óbeint stöðu Sjálfstæðisflokksins í landsmálunum, um leið og hann verður greinilega utanveltu í pólitíkinni í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV