Allt var það satt og rétt

Greinar

Magnaður hlýtur sá texti að vera, sem knýr Bandaríkin og Ísrael til að hverfa af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttamisrétti og fær ríki Evrópusambandsins til að hóta að gera slíkt hið sama, ef ekki verði mildaður. Önnur saga er svo af réttmæti hins magnaða texta.

Á Vesturlöndum hefur Ísrael einkum verið sakað um brot á fjölþjóðasáttmálum um framkvæmd styrjalda og meðferð fólks á hernumdum svæðum. Slík brot eru áþreifanleg og nægja til að setja Ísrael á aðra skör en Vesturlönd, en tæpast lægri en ýmis þriðja heims ríki.

Ný vídd kemst í umræðuna um Ísrael, er það er sakað um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu; þegar ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna fer næstum út um þúfur, af því að fulltrúar Vesturlanda telja ekki við hæfi að gera Ísrael að blóraböggli á þeim sviðum.

Við nánari athugun kemur þó í ljós, að efnislega er margt réttmætt í ásökunum um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu Ísraels. Tökum fyrst nýlendustefnuna, eins og hún lýsir sér í landnámi ísraelskra borgara á hernumdum svæðum í Palestínu.

Þótt þessar byggðir landnema séu einn helzti þröskuldurinn í vegi friðarsamninga milli Ísraels og Palestínu, er sífellt haldið áfram að stofna til þeirra, hvaða stjórnmálaflokkar sem eru við völd í Ísrael. Land er tekið frá Palestínumönnum með valdi og afhent Ísraelsmönnum.

Þótt slíkt landnám hafi fyrr á öldum verið talið sjálfsagt á Vesturlöndum, þegar siðferði var á lægra stigi en það er nú, var nýlendustefna að mestu aflögð í heiminum á síðustu áratugum. Nú er Ísrael versta dæmið um stefnu, sem samkvæmt fjölþjóðasamþykktum er ólögleg.

Aðskilnaðarstefna er orð, sem áður var einkum notað um stefnu stjórnvalda í suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri hluta síðustu aldar og stjórnar hvítra manna í Suður-Afríku á síðari hlut aldarinnar. Orðið vísar til kerfisbundins aðskilnaðar og mismununar borgaranna.

Slík aðskilnaðarstefna hefur myndazt í Ísrael eftir trúarbrögðum. Svæði ríkistrúarfólks fá betri þjónustu ríkis og sveitarfélaga en svæði hinna, sem játa önnur trúarbrögð, einkum áhangenda Íslams. Ísrael er smám saman að breytast í ofsatrúarríki með aðskilnaðarstefnu.

Kynþáttastefna er mikil og vaxandi í Ísrael. Þeir, sem heimsækja landið, komast tæpast hjá að sjá, að mikill hluti almennra Ísraelsmanna lítur niður á Palestínumenn sem annars flokks og ómennskt fólk. Þessi kynþáttastefna er studd af stefnu og aðgerðum stjórnvalda Ísraels.

Ísraelsmönnum finnst ekki tiltökumál, að Palestínumenn séu drepnir og telja það nánast eðlilega afleiðingu þess, að nýlenduríkið fái ekki athafnafrið á hernumdum svæðum. Sé einn Ísraelsmaður hins vegar drepinn, kallar það að mati þjóðarinnar á margfaldar hefndaraðgerðir.

Venja er að kalla þessi viðhorf kynþáttahatur, þótt erfitt sé að skilgreina, hvað séu kynþættir, síðan fræðimenn komust að raun um, að líkamlega er meiri munur innan hópa en milli hópa. Skilgreining kynþáttahaturs hefur breytzt og nær greinilega til Ísraelsmanna.

Ísrael er ríki, land og þjóð stríðsglæpa og glæpa gegn fólki á hernumdum svæðum. Það er ríki nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttahaturs, sem beinist einkum gegn fólki utan trúarbragða ríkisins. Magnaða orðalagið um Ísrael á ráðstefnunni var efnislega satt og rétt.

Hitt er svo flóknara, hvort skynsamlegt sé að setja Ísrael í gapastokkinn fyrir atferli, sem tíðkast víðar. Niðurstaðan varð því sú, að sannleikanum var kippt út.

Jónas Kristjánsson

DV