Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að vera áfram gamaldags flokkur aldraðra þingmanna, réttar sagt þingkarla, sem reka hentistefnu og gæta hagsmuna dreifbýlis á kostnað þéttbýlis, svo notað sé orðaval úr nýlegri könnun Félagsvísindadeildar Háskólans.
Þetta kom í ljós á þingi Sambands ungra framsóknarmanna um síðustu helgi. Þangað fóru menn vígreifir með digurbarkalegum yfirlýsingum, en koðnuðu síðan niður í nánast ekki neitt. Krafan um alger skipti í þingliði flokksins varð að kröfu um skipti á hluta þess.
Steingrímur Hermannsson var viðstaddur til að gæta þess, að orðalag ungliðanna færi ekki úr skorðum. Það tókst honum að flestu leyti, enda átu ungliðarnir úr lófa hans sem hins óumdeilanlega höfðingja flokksins. Þannig sigraði Steingrímur á fundinum.
Hann er að vísu sjálfur hlynntur því að losna við verulegan hluta þingmanna sinna og fá aðra heppilegri í staðinn. En hann ræður ekki við málið, því að hver þingmaður um sig er kóngur í sínu dreifbýliskjördæmi og lætur ekki átakalaust stjaka við sér.
Ungliðunum var vorkunn. Rétt fyrir þingið voru birtar niðurstöður áðurnefndrar könnunar Félagsvísindadeildar. Þar kom ekki aðeins fram, að almenningsálitið telur Framsóknarflokkinn vera gamaldags hentistefnuflokk dreifbýlishagsmuna, heldur einnig, að það er í lagi.
Í könnuninni kom í ljós, að mikill meirihluti þjóðarinnar styður byggðastefnu, þótt hún kosti peninga. Þótt ekki sé þar með endilega sagt, að þjóðin styðji dreifbýlisstefnu Framsóknarflokksins, hlýtur niðurstaðan að benda til, að hann sé ekki fjarri réttri leið.
Ennfremur kom í ljós, að mikill meirihluti þjóðarinnar telur framboðslista ekki verða girnilegri kost, þótt þar verði meira af ungu fólki og konum. Framsóknarflokkurinn getur þess vegna óhræddur haldið áfram að bjóða upp á gamla karla sem þingmenn flokksins.
Þetta er auðvitað um leið hughreysting öðrum stjórnmálaflokkum, sem hafa eins og Framsóknarflokkurinn átt erfitt með að verjast kröfum ungs fólks og kvenna um aukin áhrif í flokkunum. Nú losna forustumenn allra flokka við broddinn úr væli af því tagi.
Framsóknarkonur voru ekki alls fyrir löngu með háværar kröfur um að fá fast hlutfall öruggra sæta og baráttusæta á framboðslistum flokksins. Nú verður ekki hlustað á slíkt, enda munu kröfurnar falla niður, alveg eins og ungliðarnir heyktust á að krefjast sér valda.
Til þess að undirstrika, að allir væru sáttir og að úlfarnir mættu hætta að góla, lét Ingvar Gíslason fórna sér á ungliðaþinginu. Hann sagðist ekki fara aftur fram. Liðið lét friðast, þótt Ingvar sé tæpast hinn dæmigerði fulltrúi þingmannanna, sem það hafði viljað losna við.
Framsóknarflokkurinn verður áfram ekki síður hagsmunaflokkur Páls á Höllustöðum og annarra slíkra en flokkur Steingríms formanns. Þeir félagar munu áfram geta rifizt í blöðum um, hvor fari oftar til útlanda og hvor þeirra segi fleira, sem betur væri ósagt.
Eftir þing Sambands ungra framsóknarmanna er ljóst, að í næstu kosningum mun Framsóknarflokkurinn bjóða upp á nokkurn veginn nákvæmlega sömu andlit og hann hefur hingað til gert. Hann mun fá slæðing af þingmönnum í dreifbýlinu, en lítið í þéttbýlinu.
Þeir, sem vilja varðveita fornar minjar, geta glaðst yfir, að í fallvöltum heimi sé þó einn stjórnmálaflokkur, sem verður áfram eins og hann hefur alltaf verið.
Jónas Kristjánsson
DV