Frá sæluhúsinu í Hlöðuvík um Almenningaskarð og Þorleifsskarð til Atlastaða í Fljótum og sæluhússins Fljótavíkur. Stikuð leið.
Á Almenningum gerði Geirmundur heljarskinn bú, en eftirmaður hans missti það í hendur almennings í sekt eftir þjófnaðarmál. Í Almenningum var trjáreki og stundum hvalreki, sem sóttur var af sjó. Um Almenningaskarð segir í Árbók FÍ 1994: “Um grjóthjalla er að fara neðan úr Almenningum og í skarðið, en ef komið er úr Fljóti um Breiðuskörð eða Þorleifsskarð er veruleg hækkun uppí Amenningaskarð ekki nauðsynleg, en farið skáhallt um grýtt og lækjótta hjalla fremst á Almenningum og komið í gróðurlaust skarðið …” Og: “Ráð er þá að fara ofarlega uns kemur á móts við grænar tætturnar af Kjaransvíkurbæ og fara þá ofan.” Á Atlastöðum bjó Atli, þræll Geirmundar heljarskinns.
Förum frá sæluhúsinu í Hlöðuvík vestur með sjó til Kjaransvíkur og þaðan norður um skriður og hjalla Kjalarárnúps í Almenningaskarð í 360 metra hæð. Síðan vestur um stórgrýtta hjalla Almenninga að Þorleifsskarði í 400 metra hæð. Þaðan niður skriður til Þorleifsdals og ekki alveg að Fljótavatni. Síðan í hlíðinni ofan vatnsins norðvestanverðs út með Hvannadalshorni og komum niður að vatninu við Hvanná. Áfram um mýrina meðfram vatninu yfir Svíná út á Langanes að Atlastöðum í Fljótum handan vatnsins og áfram vestur að sæluhúsinu í Fljótavík. Einnig er hægt að fara Snið úr Þorleifsdal til Atlastaða.
13,7 km
Vestfirðir
Erfitt fyrir hesta
Skálar:
Hlöðuvík: N66 24.860 W22 40.520.
Fljótavík: N66 27.128 W22 55.558.
Nálægar leiðir: Skálarkambur, Hlöðuvíkurskarð, Kjaransvíkurskarð, Fljótsskarð, Háaheiði, Kjölur, Breiðuskörð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort