Alþingiskassi í Kvosinni

Greinar

Að tilhlutan forseta Alþingis hefur verið teiknaður og verðlaunaður alþingiskassi í Kvosinni. Þetta er voldugur kassi, sem minnir á bankakastala þá, sem hingað til hafa stuðlað að flótta lífs úr Kvosinni. Þar á ofan er hann nokkrum sinnum víðáttumeiri en þeir.

Þetta er þriðja atlagan á skömmum tíma að elzta hluta borgarinnar. Önnur atlagan var afturganga hugmyndarinnar um ráðhús í Tjörninni og hin fyrsta var ráðagerð borgaryfirvalda um, að öll Kvosin verði hverfi fimm hæða hárra síkishúsa með stormgjám á milli.

Alþingiskassinn hefur án efa verið verðlaunaður fyrir hentuga innri skipan. En að utan lítur hann út eins og yfirstærðar bankakassi, sem á að ná götuhorna milli. Að massa fellur hann að dapurlegum hugmyndum borgaryfirvalda um samfellda klettaveggi í Kvosinni.

Stormgjár milli slíkra veggja þekkjum við úr Austurstræti og Pósthússtræti. Klettaveggir bankanna flétta vindinn saman í stormreipi eftir götunum, gangandi fólki til vandræða og skapraunar. Þaðan kemur vetrarmynd Reykjavíkurlífsins, álútt fólk að berjast upp í vind.

Eina leiðin til að gera slíkar gjár sæmilega göngufærar í okkar veðráttu er að byggja yfir þær og fyrir enda þeirra. Erlendis eru mörg dæmi um glerþök. Síkishúsahugmyndir borgarinnar gera ekki ráð fyrir þeim. Ekki heldur teikningin að alþingiskassanum.

Hinar samfelldu bankahliðar Kvosarinnar stuðla að fábreytni götulífs og götumyndar. Fólk er látið ganga meðfram löngum steinveggjum, sem vekja lítinn áhuga og draga ekki að sér athygli. Að þessu leyti er Laugavegurinn líflegri en norðurhlið Austurstrætis.

Eina leiðin til að gera gjár banka og alþingiskassa sæmilega mannlegar er, að þessar stofnanir dragi sig í hlé frá götu, láti sér þar nægja virðulegan inngang og gefi smáverzlunum og smáþjónustu rými við stéttina, svo að fólk geti að minnsta kosti horft í búðarglugga.

Síkishúsayfirbragðið á Kvosarhugmyndum borgar innar var tilraun til að milda kulda stormgjárstefnunnar með því að setja skarpar lóðréttar línur í klettaveggina. Alþingiskassinn gerir enga tilraun til slíks. Hann minnir þannig á þunga valdsins, sem ögrar almenningi.

Ekki er eins mikið vitað um ráðagerðir borgarinnar um ráðhús í Tjörninni. Þó virðist svo sem þrefalda eigi lóðina á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis og minnka Tjörnina sem því nemur. Að vísu er það minna Tjarnarrán en áður voru fyrirhuguð, en samt of mikið.

Borgin er öflug stofnun, sem þarf miklar skrifstofur. Sú starfsemi er of umfangsmikil til að hægt sé að koma henni fyrir í Kvosinni eða Tjörninni. Nýja hugmyndin viðurkennir þetta að verulegu leyti, en ekki alveg. Tjarnarráðhús verður ekki gott, fyrr en þetta skilst.

Í ráðhúsi við Tjörnina ætti að vera hátíðasalur með því þjónusturými, sem slíkur salur þarf, en engir aðrir kontórar. Allar skrifstofur borgarinnar mega svo gjarna vera undir einu þaki annars staðar í bænum. Ráðhús má ekki og þarf ekki að vera stórt, aðeins fallegt.

Enginn vafi er á, að ráðhúsleysi borgarinnar og húsnæðisleysi Alþingis má leysa með mildari og mannlegri aðferðum og af meira tilliti til umhverfis annarra mannvirkja í Kvosinni og við hana, einkum gömlu húsanna, svo og til fólksins, sem þar er og verður á ferð.

Brýnast er, að yfirvöld borgar og Alþingis sjái, að stefna síkishúsa og alþingiskassa við stormgjár verður hinum ábyrgu ekki að neinum frægðarauka.

Jónas Kristjánsson

DV