Alvöruþáttur í sjónvarpi

Veitingar

Fari ég aftur til London, verður það til að heimsækja Gavroche, þar sem mér hefur liðið bezt á veitingahúsi. Hef komið þar tvisvar og þekki engan betri matstað. Því var mér sérstök ánægja að fylgjast með MasterChef á BBC2, þar sem kokkarnir á Gavroche voru dómarar, Michel Roux og Monica Galetti. Þetta var allt annar klassi en aðrir matreiðsluþættir, hef ég þó séð marga. Þarna blómstraði sú nýfranska, betri en tízkan frá El Bulli og Fat Duck, betri en bylgjan frá Noma, betri en hefðin frá Bocuse. Hráefnið í forgrunni, kryddið í baklandi, fegurð skyggði ekki á innihald. Þessa þætti vil ég eiga á diski.