Amigos

Veitingar

Loks fást góðir og bragðsterkir pönnukökuréttir af mexikóskum ættum í Reykjavík, á nýlegum veitingastað við hlið Jónatans Máfs í Tryggvagötu. Þar má af löngum matseðli velja flestar þekktustu tegundir af maís- og hveitikökum og verða aldrei fyrir vonbrigðum.

Þetta eru hinar hefðbundnu tortillas úr maís; svo og stórar og mjúkar burritos; oststeiktar enchiladas-maísrúllur; djúpsteiktar, en ekki stökkar tacos; gufusoðnar tamales-maískökur; piparaðar quesadillas-hveitikökur; upprúllaðar, djúpsteiktar og stökkar taquitos; djúpsteiktar og stórar chimichangas; og óvafðar fajitas, sem gestir fylla sjálfir.

Mexikósk matreiðsla er með hinum merkari í heimi, að grunni frá Aztekum hinum fornu, blönduð áhrifum frá Spánverjum og síðar Frökkum. Maís, kakó, kartöflur, tómatar og vanilla komu upprunalega frá Mexikó og hafa flætt um allan heim. Nú á dögum einkennist mexikósk eldamennska einkum af maís-pönnukökunum.

Amigos er stór og rúmgóður staður, hannaður í spönskum Texasstíl, með skemmtilega grófum og ljósrauðum veggjum ofan við grænar þiljur. Við sitjum á miðlungi þægilegum tréstólum með sessum við svört borð á vönduðu timburgólfi. Stemmningin er góð og niðursoðin tónlist stundum í hærri kanti.

Góð þjónusta, öflug og glaðleg, er aðalsmerki staðarins. Þjónustustúlkan mundi nákvæmlega, hver hafði pantað hvað og kom tólf mismunandi réttum til skila án þess að þurfa að spyrja neins. Þetta gerist ekki einu sinni á dýrustu veitingastöðum landsins. Verðlagið er í meðallagi, aðalréttur á 1.245 krónur að meðaltali og þriggja rétta máltíð með kaffi á 2.535 krónur að meðaltali.

Sömu atriðin eru endurtekin í sífellu í fyllingum og meðlæti mismunandi pönnukökutegunda, svo sem hrísgrjónaklatti, lárperumauk, pintobaunamauk, tómatsósublanda, bræddur ostur, sýrður rjómi, chili-pipar og jöklasalat.

Muchos Nachos var skemmtilegur forréttur, matarmikið og létt salat með stökkum tortillaflögum úr maís. Annar góður var Cevice, sterklega sítrónuleginn og meyr fiskur, klæddur stökkri pönnukökuskel. Camarones Chimichanga voru góðar rækjur, djúpsteiktar í mjúkri og víðáttumikilli hveiti-tortilla-köku, skyldri burritos.

Tortilla kjúklingasúpa var góð og þykk og kraftmikil tómat- og grænmetissúpa með bræddum osti og stökkum tortilla-ræmum. Osta-Chili Relleno var djúpsteiktur og bragðsterkur chili-pipar, fylltur bráðnum osti. Fajita voru óvafðar hveitikökur, sem gestir fylltu sjálfir margvíslegu innihaldi, matarmikill réttur.

Texasáhrif voru í Chili Con Carne, eins konar ofurkryddaðri lasagna úr nautahakki og tortilla-plötum, borinni fram með stökkum maískökum, fremri amerísku útgáfunni. New York áhrif voru í Buffalo Wings, sem er sniðug aðferð til að losna á góðu verði við kjúklingavængi sem enginn vildi áður borða eða borga.

Maískökurnar frá Mexikó gefa færi á sætum eftirréttum að íslenzkum pönnukökuhætti. Þeirrar ættar eru kanillegin epli í djúpsteiktri maísköku, með þeyttum rjóma og súkkulaðisósu.

Jónas Kristjánsson

DV