Amigos er meira Tex og minna Mex en áður var. Kryddið er meira sparað, enda er líklegt, að varfærnir viðskiptavinir kunni betur við sig í Texas en í Mexíkó. Fyrir bragðið er heldur minna gaman að borða hér en áður var og sorglegast að borða sætt snittubrauð og álpakkað smjör með súpunni.
Mexíkósk matargerðarlist er ættuð frá Aztekum og Spánverjum og lítillega Frökkum, með hinum merkari í heimi. Þótt kryddið og grænmetið sé gerólíkt, minnir hún dálítið á indverska, notar sterkt krydd og lítinn sykur, grænmeti fremur en kjöt. Báðar hefðirnar eru hollar, en einhæfar til lengdar.
Amigos býður mikið úrval af flatkökum úr hveiti og maís, sem einkenna matargerðarlist Mexíkós: Hefðbundnar tortillas úr maís; stórar og mjúkar burritos; oststeiktar enchiladas-maísrúllur; djúpsteiktar, en ekki stökkar tacos; gufusoðnar tamales-maískökur; pipraðar quesadillas-hveitikökur; upprúllaðar, djúpsteiktar og stökkar taquitos; djúpsteiktar og stórar chimichangas; og óvafðar fajitas, sem gestir fylla sjálfir.
Sömu atriðin eru endurtekin í sífellu í fyllingum og meðlæti mismunandi pönnukökutegunda, svo sem salsa-grautur, lárperumauk, pintobaunamauk, tómatsósublanda, bræddur ostur, sýrður rjómi, chili-pipar og jöklasalat. Þegar ýmsar tegundir af fyllingum eru látnar fylgja ýmsum tegundum af flatkökum, er niðurstaðan langur matseðill að kínverskum hætti.
Erfitt er að spá fyrirfram í matreiðsluna, sem er upp og ofan, einkum í hliðaratriðum. Þykk og þrælsterk tómatsúpa dagsins með kjúklingabitum var skemmtilega mögnuð, en ostfyllt paprika hafði gleymzt á pönnunni og kanilkrydduð chimichanga verið tekin of snemma af henni. Baunaréttir voru yfirleitt góðir, en kjöt of þurrt, til dæmis naut í taco og kjúklingur í fajitas. Bezt tókst matreiðslan, þegar hún var Mex fremur en Tex, með grænmeti fremur en kjöti, með hörðu kryddi fremur en vægu.
Ostgrilluð guesadilla var vel bökuð og hörð, djúpsteikt flauta var líka vel bökuð, djúpsteikt enchilada var þægilega mjúk, djúpsteikt taco var ágætlega hálfstökk, faijta-pönnukaka var hæfilega þunn, en djúpsteikt chimichanga var of þykk og ekki bökuð í gegn.
Rúmgóð og dimm húsakynni eru hönnuð í heildstæðum, spönskum Texasstíl veitingastaða af Tex-Mex ættum, með snyrtilegum húsgögnum, illa sópuðu gólfi, vestrænni aulatónlist og góðri þjónustu notalegri. Í hádeginu er hægt að fá súpu og tortillu með fiski eða kjöti á 890 krónur. Á kvöldin er þríréttað með kaffi á 3200 krónur að meðaltali.
Jónas Kristjánsson
DV