Sá fáheyrði atburður hefur gerzt í veitingabransanum, að risið hefur skemmtistaður, sem hefur góðan og hugmyndaríkan mat á boðstólum. Þetta er brot á öllum hefðum innanlands sem utan og veldur því, að ég brýt að þessu sinni þá hefð að fjalla í veitingarýni minni aðeins um hreina matsölustaði, danslausa og prógrammlausa.
Amma Lú í kjallara Borgarkringlunnar er eins og klúbbur, ekkert auðkenndur að utanverðu og mildilega þungt innréttaður úr daufbrúnum viði, með bogariðum, bókahillum og börum. Heildaráhrifin eru fremur virðuleg, að minnsta kosti á þeim tíma sólarhringsins, sem ég þekki til, það er á matmálstíma og fram undir miðnætti.
Annað fáheyrt við matinn á Ömmu Lú er, að á föstudagskvöldum hefur að undanförnu verið á boðstólum þriggja rétta matseðill á 1993 krónur á mann auk drykkjarfanga. Velja má milli fjögurra forrétta, fjögurra aðalrétta og þriggja eftirrétta. Þetta er hreint gjafverð.
Eldhúsið kom strax á óvart með heimabökuðu brauði, grófu hvítlauksbrauði með basilikum og hvítu anisbrauði með rúsínum og banönum. Síðara brauðið er ólíkt öllu öðru, sem ég hef prófað á langvinnum ferli.
Góð fiskisúpa var gerð úr sterku humarsoði með stórum hörpufiski. Andakjötsræmusalat var fallega sett á disk og frísklegt. Ostapastabögglar voru ekkert sérstakir, en bornir fram með góðri gráðostsósu. Fegursti forétturinn var reyktur lax á steiktum kartöfluþráðum.
Grillaður nautahryggsvöðvi var mjög góður, grísalundirnar frambærilegar, svo og silungurinn. Grísinn var húðaður með ágætis innmatarfyllingu, svonefndri netju. Bezt var kjúklingabringan, borin fram með linsubaunum, sem gáfu réttinum austrænan svip og ilm.
Súkkulaðibúðingur var mildur og fínn. Pönnukaka var of þykk fyrir minn smekk. Beztur var skozkur karamellubúðingur, kallaður vanillubúðingur. Kaffi var gott og reikningurinn beztur, aðeins 1993 krónur á mann.
Á laugardagskvöldi kostar þríréttað svipað og á beztu matstöðum landsins, um 3100 krónur að meðaltali, fyrir utan drykkjarföng. Matseðillinn er þá allt annar og einnig var boðið upp á óvenjulega hluti á borð við ferskar ostrur og ferskan stórhumar frá útlöndum. Ostrurnar voru ágætlega ferskar og humarinn frambærilegur.
Á seðlinum var úrvals fiskisúpa karríkrydduð; góð gæsabringa rúmlega léttreykt; og fínasti hörpufiskur af stærstu gerð með góðu og léttu hvítlaukshlaupi.
Í aðalrétt var lambalæri með góðu gulrótarmauki og ristuðum hvítlauk. Einnig góð önd, steikt á pönnu, borin fram með ferskjum. Og nautalundir með fínu bragði af pecanhnetuhjúp, bornar fram með kartöfluflöguköku.
Súkkulaðiterta í skákborðsstíl var ekki góð. Hins vegar var góður lime-búðingur með kiwimauki. Marsipanhúðaðar perur voru fremur góðar, en berjafylltar pönnukökur voru þykkar eins og í fyrra skiptið.
Matreiðslan var í heild af betra taginu og kom á margan hátt á óvart með hugmyndaflugi í smáu sem stóru, svo sem reynt hefur verið að lýsa hér að ofan.
Ég veit ekki, hvernig Amma Lú er sem skemmtihús. En þetta er örugglega alvöru matstaður með metnað.
Jónas Kristjánsson
DV