Ammoníak á togarana.

Greinar

Allt stendur og fellur með eldsneyti, hér á landi sem í öðrum þróuðum löndum. Án þess kæmi nær enginn fiskur á land og nær ekkert hey í hlöðu. Án þess væru nær engir vöruflutningar, hvorki til landsins né um það.

Við hljótum því að fylgjast náið með orkukreppunni í heiminum og tilraunum manna til að bæta úr henni. Sérstaklega er okkur nauðsynlegt að draga úr ofurvaldi olíunnar í rekstri nútíma þjóðfélags á Íslandi.

Talið er, að olíur og benzín muni að verulegu leyti ganga til þurrðar á fyrri hluta næstu aldar. Þetta hefur þegar komið fram í verðhækkun hráolíu úr 3 dollurum í 32 dollara áratuginn 1970-1980. Og 1985 verður olían komin í 50 dollara.

Efnahagskreppa Vesturlanda á síðasta áratug byggðist langmest á þessum verðhækkunum olíu. Vaxandi hluti verðmætasköpunarinnar hefur farið í eldsneytiskostnað. Og við sjáum fram á enn þyngri róður á næstu árum.

Hér á Íslandi hefur jafnan verið talað um, að orkan í fallvötnum og hverasvæðum landsins muni verða okkur til bjargar. En samt höfum við enn sem komið er aðeins nýtt þessa orku á afmörkuðum sviðum, einkum til ljósa og hitunar.

Við erum komin svo langt í raforkumálum, að framleiðsla rafmagns með olíu er nánast að verða úr sögunni. Þá hafa á síðustu árum verið stigin stór skref til minnkunar á notkun olíu til hitunar, einkum með gerð jarðhitaveitna.

Á öðrum sviðum stöndum við nánast á upphafspunkti. Samgöngutæki okkar ganga fyrir olíum og fiskiskipafloti okkar gengur fyrir olíum. En svo þarf alls ekki að verða um aldur og ævi. Við eigum nefnilega hráefni til eldsneytis.

Flestir kannast við tilraunir Gísla Jónssonar prófessors til að vekja athygli á rafmagnsbílum, sem ættu með vaxandi orkugeymslutækni að henta vel til innanbæjaraksturs og á öðrum stuttum vegalengdum.

Þá hefur Bragi Árnason prófessor bent á, að nota megi innlenda orkugjafa til að framleiða vetni, metanól og jafnvel benzín til notkunar á aflvélar samgöngutækja almennt. Orkugjafarnir yrðu þá vatnsafl og mór.

Og nú hefur Bragi í viðtali í Dagblaðinu bent á sérstaka lausn, sem gæti hentað fiskiskipaflota okkar. Það er að láta hann brenna ammoníaki, sem unnið yrði úr lofti og vatnsafli, alveg eins og þegar er gert í Áburðarverksmiðjunni.

Ammoníak er hægt að nota á benzínvélar með litlum breytingum og á dísilvélar með því að setja í þær kerti. Orkunýting ammoníaks er meira að segja betri en benzíns. Og loks er tiltölulega auðvelt að geyma fljótandi ammoníak í skipum.

Þessi aðferð mundi síður henta kaupskipum, sem yrðu að taka eldsneyti í erlendri höfn, þar sem ammoníak yrði mun dýrara en það, sem hér væri hægt að framleiða. En fiskiskipaflotinn mundi nota 750 megavött af vatnsorku landsins.

Bragi telur, að um þessar mundir sé ammoníak 50- 75% dýrara eldsneyti en gasolía. En það ætti fljótlega að verða samkeppnishæft, ef olía hækkar meira en tvöfalt í verði á næstu fimm árum. Við erum því þegar á þröskuldi mikilla möguleika.

Allar þessar hugleiðingar eru liður í nauðsynlegri viðleitni okkar til að tryggja hag okkar í erfiðri og ótryggri framtíð, viðleitni okkar til að láta innlenda orkugjafa koma í stað takmarkaðra, erlendra orkugjafa, sem sífellt hækka í verði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið