Amsterdam göngur

Ferðir

1. ferð:

Grachten

Sú ferð, sem nýkomnir ættu að byrja á, er raunar engin gönguferð, heldur þægileg bátsferð um Grachten, síki borgarinnar. Þannig kynnumst við Amsterdam frá því sjónarhorni, sem áður fyrr var hið eðIilega. Við sjáum hana eins og siglandi gestir fyrri alda sáu hana.

Auk þess er bátsferð um síkin ágæt aðferð til að átta sig á lögun borgarinnar og afstöðu ýmissa merkisstaða, sem gaman væri að skoða nánar síðar á hestum postulanna. Við finnum líka, hvernig síkin liggja eins og skeifur, hver utan yfir aðra, og hvernig umferðargöturnar liggja eins og geislar út frá borgarmiðju, yfir hvert síkið á fætur öðru.

Úr bátnum kynnumst við gaflhúsagerðinni og ýmsum tilbrigðum hennar. Húsin voru reist svona há og mjó, af því að borgarskattur manna fór eftir því lengdarmáli, sem þeir tóku af síkisplássi. Persónuleiki byggingarmeistara fékk svo útrás í nánari útfærslu gaflanna.

Tígulsteinn gaflanna er misjafn á litinn. Sum húsin eru ljósgrá, önnur brúnleit, gul, ljósrauð eða jafnvel blárauð. Þá er toppstykkið útfært á misjafnan hátt, sumpart vegna tízkustrauma á 17. og 18. öld, og höfðu tilhneigingu til að verða voldugri, eftir því sem auður kaupmanna jókst með tímanum.

Þessi saga byggingalistar, samþjappaðrar í mjóum göflum, rennur saman við fegurð ótal bogabrúa yfir síkin og voldugra trjáa á síkisbökkunum. Úr þessu verður heildarmynd, sem bezt er að njóta úr báti á miðju síki.

Mörg fyrirtæki reka bátsferðir og hafa brottfararstaði víðs vegar um miðborgina. Sama er, hvar við byrjum hringferðina, sem tekur eina stund. Bátarnir eru svipaðir, verðið svipað og leiðin í stórum dráttum hin sama.

Singel

Innsta skeifusíkið umhverfis gamla miðbæinn er Singel, og framhald þess til norðausturs, handan Amstel, í Oudeschans. Singel var upprunalega síkið framan við borgarmúrana og var svo fram að gullöld Hollands og Amsterdam, sem hófst um 1600.

Við tökum eftir grennsta húsi borgarinnar, við Singel 7. Það er jafnmjótt og útidyrnar. Nokkru ofar, þar sem við komum að fyrstu beygjunni á síkinu, sjáum við sérkennilegt fangelsi í brúnni, sem við förum undir. Að fangelsinu verður einungis komizt á báti.

Við Singel eins og við Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht eru hús númeruð frá norðurendanum til suðurs og síðan til austurs að ánni Amstel.

Herengracht

Næsta skeifusíki utan við Singel er Herengracht, „herramannasíki“, sem varð í upphafi 17. aldar að fína heimilisfanginu í Amsterdam. Þar reistu ríkustu kaupmennirnir hús sín og kepptu hver um annan þveran í glæsibrag.

Þessi hús standa nærri öll enn og hýsa skrifstofur og banka. Glæsilegust eru þau við aðra beygju síkisins, „gullbeygjuna“, við um það bil nr. 390, þar sem Nieuwe Spiegelstraat mætir síkinu. Rétt ofan við þriðju beygju, á nr. 502, er svo borgarstjórabústaðurinn.

Keizersgracht

Þriðja skeifusíkið heitir Keizersgracht eftir Habsborgaranum Maximilian I, sem meðal annarra landa réði Hollandi í upphafi 16. aldar. Við sjáum á húsunum, að þau eru ekki alveg eins ríkmannleg og við Herengracht. Hér bjuggu miðlungskaupmenn og vel stæðir iðnrekendur. Einnig hér standa 17. aldar húsin enn.

Prinsengracht

Yzta skeifusíkið innan við nýrri borgarmúrana á 17. öld er Prinsengracht. Þar eru íbúðarhúsin enn minni um sig og mikið er um vöruhús í bland. Mörgum þessara vöruhúsa hefur nú verið breytt í lúxusíbúðir, þótt ytra útlit sé óbreytt, enda eru þau yfirleitt friðuð.

Singelgracht

Utan um þessi hverfi 17. aldar var svo reistur nýr virkisgarður, innan við hann skeifusíkið Lijnbaansgracht og utan við hann síðasta skeifusíkið, Singelgracht. Það var raunverulegt virkissíki og engin borgarbyggð við það. Seint á 19. öld voru borgarvirkin rifin og fékkst þá dýrmætt rými fyrir samgönguæðar, garða, torg, opinberar byggingar og söfn.

Til greina kemur að endurtaka bátsferðina að kvöldlagi, þegar fallegu brýrnar eru lýstar miklum fjölda rafmagnspera. Þá lítur Amsterdam út eins og ævintýraborg.

2. ferð:

Allar gönguferðirnar þrjár í þessari bók byrja og enda við aðaltorgið Dam. Fyrsta ferð leiðir okkur um austurhluta gömlu miðborgarinnar.

Dam

Þar sem nú er Dam, var fyrsta stíflan í ánni Amstel gerð einhvern tíma á 13. öld. Eftir þeirri stíflu fékk borgin nafn og kallaðist Amsteldamme. Við stífluna myndaðist höfn og út frá henni stækkaði fiskiþorpið upp í kaupsýsluborg.

Við hefjum gönguna framan við Krasnapolsky hótel og frestum því að skoða konungshöllina og Nieuwe Kerk handan torgsins. Í okkar enda þess trónir þjóðarminnisvarðinn (sjá líka bls. 42), sem reistur var 1956 fyrir samskotafé til að minnast afreka Hollendinga í síðari heimsstyrjöldinni.

Hægra megin við hótelíð, handan lítils sunds, er ein af hinum gömlu Bruine kroegs, De Wildeman, í elzta húsi torgsins, frá 1632. Þar væri gott að styrkja sig á kaffi fyrir gönguna og skoða um leið veggskreytingu hinna mörgu peningaseðla gamalla tíma frá ýmsum löndum.

Við getum líka litið inn í vetrargarðinn Wintertuin, morgunverðarsal Krasnapolsky (sjá bls. 18), sem er einstakur í sinni röð, ekki sist ef við erum á ferðalagi að vetrarlagi.

Warmoesstraat

Frá hótelinu göngum við til hægri eftir Warmoesstraat, elztu götu borgarinnar. Þar bjuggu á 15. öld fínustu borgararnir. Þegar þeir fluttu á 17. öld til Herengracht, varð þessi gata að helztu verzlunargötunni og hótelgötunni. Hertoginn af Alba bjó hér, þegar hann vildi sauma að Hollendingum.

Tvær kaffiverzlanir endurspegla enn hina gömlu tíma. Thee en koffiehandel á nr. 102 og Geels & Co á nr. 67. Og farfuglaheimilið á nr. 87, sem bauð gistingu á Fl 17 og Fl 12 í sal, síðast þegar við gengum hjá, endurspeglar líka gamla tímann.

Við tökum fljótt eftir, ef við höfum ekki gert það á siglingunni um síkin, að mjóu gaflhúsin slúta í rauninni fram. Þau eru byggð svona af ásettu ráði. Efst í gaflinum er bálkur fyrir blokk. Þannig má á reipi draga stóra muni upp á hæðirnar, án þess að reka þá utan í. Engin leið er að koma þeim upp þrönga stigana. Þessa iðju verða menn að stunda enn þann dag í dag um alla borg.

Við förum götuna út að Oudebrugsteeg, sem liggur til vinstri og lítum aðeins inn í hana, því að þar er þétt setinn bekkurinn af smáhótelum, börum og búðum. Síðan förum við spölkorn til baka eftir Warmoesstraat, unz við sjáum Oudekerk til vinstri.

Oudekerk

Við göngum kringum Oudekerk, Gömlukirkju, og furðum okkur á tvennu. Annars vegar litlu húsunum, sem skotið er inn í króka kirkjuveggjanna til að nýta plássið. Og hins vegar, að hálfklæddu og digru dömurnar í rauðlýstu gluggunum skuli stunda iðju sína beint undir kirkjuveggjunum.

Oudekerk er elzta kirkja borgarinnar, frá því um 1300, næstum því eins gömul og Sturlungaöld. Hún er byggð úr tígulsteini og er í rómönskum stíl, en þó með miklum gluggum, fallega steindum, eins og tíðkaðist á síðari gotneskum tíma. Turninn er yngri, frá miðri sextándu öld, í blandstíl gotnesku og endurreisnar.

Turninn er raunar furðuleg smíði. Neðsti stallurinn er voldugur og ferstrendur með klukkuskífum til allra átta. Þar á ofan kemur port hárra og mjórra súlna. Síðan kemur næpa. Málið er ekki enn búið, því að þar á ofan kemur annað súlnaport og loks önnur, gullin næpa efst uppi.

Oudezijds Voorburgwal

Kirkjan er við Oudezijds Voorburgwal, sem er þungamiðja gleðikvennahverfisins, ásamt með hinu samhliða Oudezijds Actherburgwal. Íflestum húsunum umhverfis síkin tvö sitja þær í stórum gluggum og bíða viðskiptavina um bjartan dag sem á kvöldin.

Við höldum til vinstri norður eftir bakkanum og tökum fljótlega eftir mjóstu götu borgarinnar, milli nr. 54 og 62. Þaðer nafnlaust og liggur inn að rauðum ljósum.

Museum Amstelkring

Örlitlu norðar komum við að Museum Amstelkring á nr. 40. Þar uppi á lofti er leynikirkja kaþólskra frá 1663. Hún var notuð í tvær aldir, meðan Kalvínismi Hollendinga var sem strangastur. Talið er, að 60 slíkar leynikirkjur hafi verið í borginni, en þessi er hin eina í upprunalegu ástandi.

Kirkjan er innréttuð á efstu hæðum og í risi þriggja íbúðarhúsa. Hún er sjálf á þremur hæðum. Kirkjugestir skutust úr hliðargötu inn um litlar dyr upp þrönga og flókna stiga. Við tökum eftir, hversu slitin þrepin eru.

Kirkjan er til sýnis og sömuleiðis neðri hæðir hússins, þar sem innréttað hefur verið minjasafn, sem sýnir híbýli og húsbúnað hins vel stæða fólks, er lét gera kirkju uppi á lofti.

Sint Olofssteeg

Við förum áfram norður meðfram síkinu og sjáum framundan kirkjuna, sem tók við, þegar kaþólikkar máttu aftur þjóna guði opinberlega. Það er St Nicolaaskerk.

Við enda síkisins hægra megin brúar sjáum við hrörlegt hús hanga yfir síkinu. Það er frá því um 1500, eitt elzta hús borgarinnar. Þar var til skamms tíma hið fræga veitingahús Le Chat qui pelote, sem orðið hefur mörgum harmdauði.

Áfram höldum við síðan ferð okkar eftir Sint Olofssteeg upp á hina frægu götu Zeedijk. Á horninu verða fyrir okkur smáhópar iðjuleysingja frá fyrrverandi nýlendum Hollands. Þeir eru sumir í vímu og taldir meinlitlir, en lögreglan er þó oftast hér á vakki.

Út á brúna förum við og virðum fyrir okkur útsýnið til baka eftir Oudezijds Voorburgwal og enn fremur í gagnstæða átt eftir þröngu síkinu Oudezijdskolk, þar sem er bakhlið St. Nicolaaskerk innan um gömul vöruhús. Síðan snúum við til baka af brúnni og höldum til vesturs Zeedijk stuttan spöl að Prins Hendrikkade.

Beurs

Hér sjáum við til vinstri, handan bátalægisins við Damrak, kauphöllina í Amsterdam, Beurs. Það er skrítin höll, reist um aldamótin í eins konar Jugend-stíl. Hún þótti mikið hneyksli á þeim tíma og þykir jafnvel enn. Þetta er þunglamalegt tígulsteinshús, sem tekur sig einna bezt út frá þessu sjónarhorni.

Jugendstíll, ungstíll, eða Art Nouveau, nýstíll, kom til skjalanna rétt fyrir síðustu aldamót, þegar byggingarmeistarar voru orðnir þreyttir á stælingum gamalla stíla, á nýgrísku, nýrómversku og nýgotnesku. Mælirænni formfestu var kastað fyrir róða og frelsið fekk að ríkja. Stíllinn stóð ekki lengi, því að milli heimsstyrjaldanna leysti nytjastíll nútímans hann af hólmi.

Sá, sem hér horfir á tilviljanakennt útlit Beurs, á erfitt með að trúa, að eins konar nytjastíll ríkir að innanverðu, þar sem gríðarlegir stálbogar spanna yfir margra hæða kauphallarsal undir risavöxnum þakgluggum. Þannig blandaði byggingameistarinn Berlage saman innra svifi og ytri þunga.

Gamla kauphöllin, sem brann, var reist hér á sama stað árið 1611. Hún var þannig gerð, að skipin gátu siglt eftir henni miðri, undir þaki. Til beggja hliða voru svo sölubúðir á tveimur hæðum. Eftir lýsingum og myndum hlýjur það að hafa verið miklu skemmtilegri kauphöll en þessi.

Centraalstation

Í hinni áttinni, til hægri, sjáum við aðaljárnbrautarstöðina í 19. aldar nýgotneskum stíl, teiknuð af Petrus Cuypers þeim, sem líka teiknaði Rijksmuseum. Stöðin er reist á þremur tilbúnum eyjum og hvílir á 8687 tréstaurum. Hún er þarna nánast úti í sjó, af því að hvergi var annars staðar rúm fyrir hana.

Fyrir framan er fjörlegt, hvítt timburhús, Noord-Zuid Hollands Koffiehuis, þar sem er veitingastofa og upplýsingastofa ferðamálaráðs borgarinnar.

St Nicolaaskerk

Við göngum eftir Prins Hendrikkade framhjá St Nicolaaskerk, höfuðkirkju kaþólikka, um það bil 100 ára gamalli. Nicolaas þessi er verndardýrlingur sjómanna og barna. Samkvæmt siðvenju í Amsterdam kemur hvítskeggjaður náungi í rauðri biskupsskikkju til borgarinnar í lok nóvember á hverju ári. Hann heitir Sinterklaas og heimsækir borgarstjórann til að kynna sér, hvort borgarbörnin hafi hegðað sér nógu vel til að fá gjafir.

Þannig varð St Nicolaas að Sinterklas og síðan að Sankti-Kláusi eða þeim jólasveini, sem breiðzt hefur út um allan heim, einmitt frá Amsterdam. Og þetta er kirkjan hans.

Schreierstoren

Við tökum beygjuna á Prins Hendrikkade og sjáum strax turninn Schreierstoren á hægri hönd. Þessi turn frá 1482 var upphaflega hluti borgarmúrsins og þá náði höfnin hingað. Sagan segir, að nafnið stafi af, að hingað komu konurnar og börnin til að veifa og gráta, þegar karlarnír lögðu á hafið.

Scheepvaart Museum

Frá turninum sjáum við handan vatnsins miklar byggingar, reistar 1656 sem birgðaskemmur flotans á 18.OOO tréstaurum í höfninni. Þar er nú Scheepvaart Museum eða hollenzka siglingasafnið með ótal líkönum skipa, korta, hnatta og annars, sem minnir á siglingar.

Siglingasafnið er um leið hollenzkt sögusafn, því að saga landsins er saga siglinga. Á stórveldistíma Amsterdam náðu Hollendingar í sínar hendur mestöllum siglingum um Evrópu vestanverða og norðanverða. Þeir endurbættu gamlar skipagerðir og fundu upp á nýjum. Hvarvetna hleyptu þeir nýju blóði í handverk og kaupsýslu. Hvarvetna voru þeir aufúsugestir, nema hjá hirðum einvaldshneigðra konunga, sem stefndu að verzlunareinokun, til dæmis Kristjáns IV yfir Danmörku og Íslandi.

Binnenbantammer

Okkur finnst of langt þangað að sinni og beygjum heldur til hægri eftir austurbakka Geldserkade. Þriðja þvergatan til vinstri er Binnenbantammerstraat, miðpunktur Kínahverfisins í borginni. Þar eru kínversku veitingahúsin í röðum, þar á meðal Azïe (sjá bls. 26). Á þessum slóðum er einna ódýrastan veitingahúsamat af almennilegu tagi að fá í miðborginni.

Zedijk

Úr Binnenbantammerstraat göngum við til baka yfir Geldserkade og beygjum til hqri eftir hinum síkisbakkanum. Síðan förum við næstu þvergötu til vinstri, Waterpoortsteeg, og erum strax komin inn á Zeedijk enn án ý, en á öðrum stað en í fyrra skiptið.

Þetta er hin hefðbundna sjómanna-skemmtigata borgarinnar. Barirnir og búlurnar eru hlið við hlið og mikill mannfjöldi er úti á götu að kvöldlagi. Á morgnana er gatan hins vegar steindauð og hasslyktin horfin.

Við getum gengið götuna til hægri og komizt fljótlega á fyrri slóðir þessarar gönguferðar. En við kjósum heldur að fara til vinstri. Nálægt endanum ber fyrir okkur sjón, sem kemur á óvart í þessari gleðskapargötu. Það er leikvöllur með skrítnum leiktækjum, bleikum fíl og skærum veggmálverkum.

Nieuwmarkt

Hér komum við út á Nieuwmarkt, sem einu sinni var fiskmarkaður borgarinnar. Enn eru hér ýmsar góðar verzlanir, þar sem höndlað er með fisk, kjöt, osta, vín og annað góðgæti. Á torginu er dálítill blómamarkaður og svo fjörlegur fornminjamarkaður á sunnudögum.

Waag

Á miðju torginu er gamall turn, sem eitt sinn var hlið á virkisvegg borgarinnar. Hann hét áður St Anthoniespoort, en hefur lengi verið kallaður Waag, því að þar voru hinar opinberu vigtir, þar sem tryggt var, að vörur væru rétt mældar.

Waag hefur sjö turna og margar dyr, byggður 1488. Lengst af var hann aðsetur ýmissa gilda iðnaðarmanna og hafði hvert gildi sínar útidyr. Meðal þeirra var gildi skurðlækna, sem leyfði Rembrandt að mála hér hinar tvær frægu myndir: Kennsla í anatómíu. Myndin af dr. Tulp er í Mauritzhuis í Haag og myndin af dr. Deijman í Rijksmuseum hér í Amsterdam.

Nú er Waag Sögusafn gyðinga, opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Þar eru til sýnis ýmsir heilagir gripir gyðinga og minjar um hernámið í seinni heimsstyrjöldinni.

Kloveniersburgwal

Af torginu förum við suður eftir síkinu Kloveniersburgwal, fyrst á hægri bakka, en færum okkur svo á fyrstu brú yfir á vinstri bakka. Við sjáum hægra megin, á nr. 26, eitt af grennstu húsum borgarinnar, hús vagnstjóra Tripps. Að baki þess er sú saga, að vagnstjórinn óskaði sér eigin húss, jafnvel þótt það væri ekki breiðara en dyrnar á húsi húsbóndans. Sá heyrði óskina og uppfyllti hana, nákvæmlega.

Zuiderkerk

Við beygium til vinstri inn Zandstraat og komum að Zuiderkerk. Hún var reist 1611 af hinum þekkta byggingameistara Hendrick de Keyser og er fyrsta kirkja borgarinnar í kalvínskum sið. Mesta skart hennar er turninn, sem er sagður hafa haft mikil áhrif á kirkjuturna Christophers Wren í London.

Montelbaanstoren

Við höldum áfram Zandstraat og út á brúna yfir Oudeschans. Af henni er ágætt útsýni til vinstri til turnsins Montelbaanstoren. Hann er einn af 15. aldar virkisturnum borgarinnar. Árið 1606 bætti Hendrick de Keyser ofan á hann tæplega 50 metra hárri spíru. Margir telja þetta fallegasta turn borgarinnar, enda sést hann oft á málverkum og ljósmyndum.

Rembrandthuis

Áfram höldum við yfir brúna og sjáum strax á hægri hönd hús með rauðum gluggahlerum. Það er Rembrandthuis, þar sem sjálfur meistarinn bjó mestu velgengnisárin, frá 1639 til 1658, þegar hann varð gjaldþrota. Hér málaði hann mörg þekktustu verk sín.

Nú er húsið minningasafn um Rembrandt, opið 10-17, sunnudaga 13-17. Sjá má prentvél hans og rúmlega 250 stungur, en húsbúnaður er ekki hans, heldur annarra samtíðarmanna. Heimilisfangið er Jodenbreestraat 4-6 og minnir á, að þetta var miðja gyðingahverfisins fram að síðari heimsstyrjöld.

Mozes en Aaronkerk

ið förum áfram Jodenbreestraat út að torginu Mr Visserplein. Við enda götunnar er á hægri hönd afturendi kirkju, sem ber hið gyðinglega nafn Mozes en Aaronkerk. Hún var samt upphaflega kaþólsk, en hefur verið breytt í félagsmálamiðstöð.

Hér er nú griðastaður fyrir erlenda verkamenn og ungt ferðafólk. Selt er gos og snarl og boðið upp á sýningar á handíð og list eða á vandamálum íbúa þriðja heimsins. Einnig eru þar á sunnudögum sérhæfðar poppmessur fyrir ungt fólk. Þannig er þetta fjörugasta kirkjan í borginni.

Valkenburgerstraat

Vinstra megin við torgið förum við á flóamarkaðinn í Valkenburgerstraat (sjá bls. 45)

Portugese Synagoge

Þegar við komum aftur inn á Mr Visserplein, höfum við kassalagað stórhýsi á vinstri hönd. Það er höfuð-sýnagóga gyðinga, reist 1675. Þá hafði mikill fjöldi gyðinga streymt frá ofsóknum rannsóknaréttarins á Spáni og í Portúgal til trúfrelsisins og uppgangsins í Amsterdam.

Synagógan er í eins konar jónískum stíl og á að vera stæling á meintu útliti musteris Salómons í Jerúsalem. lnni standa tólf voldugar súlur undir kvennasvölum. Mest áberandi eru kertaljósakrónurnar miklu, er bera þúsund kerti, sem öll eru látin loga við guðsþjónustur á laugardögum.

Portugese Synagoge er opin til skoðunar 10-15, sunnudaga 10-13, lokuð laugardaga.

Blauwbrug

Frá torginu göngum við Nieuwe Amstelstraat að ánni Amstel, þar sem er brúin Blauwbrug. Hún er eftirlíking af brú Alexanders lll Rússakeisara yfir Signu í París, byggð 1880, skreytt miklum ljósakúplum. Þaðan er eitt bezta útsýni í borginni, til suðurs að hinni hvítu Magere Brug.

Við Blauwbrug sjáum við sérkennilega gróinn húsbát í eigu listamannsins Bulgar. Þetta er einn af rúmlega 2000 húsbátum á síkjum borgarinnar. Um helmingur þeirra er þar í óleyfi, en borgaryfirvöld hafa ekki mátt til aðgerða, af því að húsbátamenn í Amsterdam eru jafn harðir af sér og hundaeigendur í Reykjavík. Sumir þessara báta eru verstu hreysi, en aðrir eru lúxusíbúðir með öllum þægindum, þar á meðal rafmagni úr landi. Öllum er þeim sameiginlegt að nota síkin fyrir úrgang, en ekki ræsi borgarinnar.

Magere Brug

Við förum yfir Blauwbrug, Bláubrú, og göngum eftir bakka Amstel í átt til Magere Brug, Mögrubrúar, frægustu og fegurstu brúar borgarinnar. Hún er orðin nærri 3OO ára gömul og þykir sérstaklega falleg að næturlagi, þegar hún er prýdd ótal ljósum. Þessi mjóa trébrú er mikill umferðarhnútur og sýnir því verndun hennar, hve mikla virðingu borgarar Amsterdam bera fyrir hinu gamla.

Museum Willet-Holthuysen

Frá Magere Brug göngum við til baka meðfram Amstel að Herengracht og göngum þar inn hægri bakka síkisins. Þar komum við fljótt að Museum Willet-Holthuysen á Herengracht 605. Það var reist 1687 sem auðmannsheimili og er nú minjasafn um lífið á slíkum heimilum í þá daga. Allt er þetta svo eðlilegt, að það er eins og fjölskyldan hafi skroppið út fyrir klukkustund, en ekki fyrir tæpum 300 árum.

Að húsabaki er skemmtilegt dæmi um húsagarð eins og þeir tíðkuðust hjá auðugum 17. og 18. aldar borgurum, sem höfðu lítið rými, en reyndu þó að stæla garða franskra aðalsmanna.

Thorbeckeplein

Við göngum Herengracht út að Thorbeckeplein og förum þar út á brúna yfir Herengracht. Þaðan er skemmtilegt útsýni til margra brúa á Herengracht og Reguliersgracht. Síðan förum við norður Thorbeckeplein inn á Rembrandtsplein.

Rembrandtsplein

Skemmtanalífsins á Thorbeckeplein og Rembrandtsplein var getið framar í bókinni (sjá bls. 42). Í þetta sinn göngum við inn í garðinn á miðju torgi og skoðum styttuna af Rembrandt. Kannski er líka kominn tími til að fá sér fiskrétt í hádegisverð á Seepaerd (sjá bls. 32).

Í norðausturhorni torgsins er pínulítil lögreglustöð milli Reguliersbreestraat og Halvemansteeg, sögð sú minnsta í heimi. Þar kveðjum við þetta torg, sem einu sinni var smjör- og ostamarkaður borgarinnar, og göngum norður Halvemansteeg og yfir ána Amstel á brú.

Groenburgwal

Komin yfir Amstel göngum við skamman veg meðfram Kloveniersburgwal, unz við komum að fremstu brúnni yfir það síki. Það er ein af hinum skemmtilegu járnvindubrúm frá gömlum tíma, þegar slíkar brýr tóku við af trévindubrúm á borð við Magere Brug.

Að þessu sinni förum við ekki strax yfir brúna, heldur göngum spölkorn í gagnstæða átt eftir Staalstraat að litlu og Iaglegu síki, sem nefnist Groenburgwal. Af brúnni þar er skemmtilegt útsýni til Zuiderkerk (sjá bls. 65)

Oudemanhuispoort

Síðan förum við sömu leið til baka, göngum yfir áðurnefnda járnvindubrú og beygjum svo til hægri eftir vinstri bakka Kloveniersburgwal.

Brátt komum við að mjóu húsasundi til vinstri og förum þar inn. Það er Oudemanhuispoort eða Gamalmennahússund, sem heitir svo, af því að þetta var einu sinni inngangurinn í fátækrahæli borgarinnar. Nú er þetta inngangurinn í háskólann. Aðalbyggingu hans sjáum við brátt hægramegin, handan húsagarðs. Á vinstri hönd er hins vegar bókamarkaðurinn (sjá bls 46)

Grimburgwal

Þegar við erum komin út úr Oudemanhuispoort, förum við yfir brúna framundan. Þar á horninu fyrir framan er Þriggjasíkjahús, sem heitir svo, af því að það liggur að síkjum á þrjá vegu. Framhlið hússins, fallegri hliðin, er hinum megin.

Við göngum áfram með Grimburgwal, sem við höfum á vinstri hönd. Það er lítið og ljúft síki með háskólabyggingum á vinstri bakka.

Við vorum búin að fara yfir brúna á Oudezijds Achterburgwal og förum nú yfir brúna á Oudezijds Voorburgwal. Af brúnni lítum við til baka að Þriggjasíkjahúsi. Síðan höldum við áfram meðfram Grimburgwal, unz við komum að nokkrum gömlum húsum á síkisbakkanum vinstra megin götunnar.

Þar leynist lítil hurð og að baki hennar þröngur og brattur stigi upp að örsmárri kökustofu, Carla lngeborg‘s Pannekoekenhuis, þar sem er kjörið tækifæri til að fá sér eina stóra, hollenzka pönnuköku með hunangi.

Pijlsteeg

Við göngum síðan aftur til baka að Oudezijds Voorburgwal og röltum nokkurn veg eftir vinstri bakka síkisins. Við förum yfir Damstraat og beygjum síðan inn næsta húsasund til vinstri, Pijlsteeg. Þar er miðja vega jenever-búlan Wijnand Fockink, þar sem við fáum okkur glas ítilefni af, að nú er fyrstu gönguferðinni lokið. Héðan eru aðeins nokkur skref út að Dam og Krasnapolsky, þaðan sem við hófum ferðina

2. ferð:

Enn hefjum við ferð frá Dam, en í þetta sinn byrjum við í hinum enda torgsins, fyrir framan konungshöllina og Nieuwe Kerk. Við höfum áður lýst lífinu á torginu (sjá bls. 42), svo að við snúum okkur strax að konungshöllinni.

Koninklijk Paleis

Höllin var reist 1655 sem ráðhús borgarinnar á miðri auðsældaröld hennar. Hún er teiknuð af Jacob van Campen í síðbúinni, hollenzkri útgáfu af endurreisnarstíl, svokölluðum palladískum fægistíl. Við tökum eftir einkar formföstum hlutföllum hallarinnar, mildum útskotum, veggsúlnariðum og láréttri skiptingu milli hæða.

Höllin minnir raunar á sum ráðhús 16. aldar. Allur útskotni miðbálkurinn er einn risastór og bjartur salur, sem lengi var hinn stærsti í heimi. lnni í höllinni eru ein hin beztu dæmi um Empire húsgögn, arfur frá Louis Bonaparte, er skyndilega hafði sig á brott héðan.

Þessi volduga höll var sem ráðhús ein helzta miðstöð hollenzka heimsveldisins í hálfa aðra öld. Þegar Napóleon Bonaparte tók Holland 1808, gerði hann bróður sinn, Louis, að kóngi í ráðhúsinu. Það konungsveldi varð skammvinnt, en síðan hefur ráðhúsið verið konungshöll landsins.

Að vísu býr drottningin ekki þar, því að tæpast er hægt að búa í höll með háværum umferðaræðum á alla vegu, hafandi ekki einu sinni garð á milli. Hún býr að venju í Haag og kemur bara hingað í opinberar móttökur eða til að gista eina nótt í senn.

Höllin er opin almenningi á sumrin 12:30-16 og veturna sömu tíma á miðvikudögum. Gestir geta gert sér í hugarlund, að það þurfti 13.659 tréstaura til að halda höllinni uppi í mýrinni. Að skilnaði skulum við minnast þess, að höllin er eitt fullkomnasta skólabókardæmi um ákveðinn byggingarstíl í fortíðinni.

Sint Luciensteeg

Frá höllinni skellum við okkur í mannhafið og látum okkur berast suður eftir Kalverstraat (sjá bls. 43). Við förum svo til hægri í Sint Luciensteeg, þar sem fyrir okkur verða á vegg vinstra megin húsmerkingarsteinar. Þetta eru eins konar skjaldarmerki, höggvin í stein, sem í gamla daga komu í staðinn fyrir götunúmer í Amsterdam. Hvert hús í fínni hverfunum hafði slíkan húsmerkingarstein. Á göngum okkar um borgina sjáum við marga slíka, en hér hefur verið safnað á einn stað nokkrum steinum af húsum, sem hafa verið brotin.

Við getum litið inn á Nieuwezijds Voorburgwal. Á þessum parti þeirrar götu er frímerkjamarkaðurinn haldinn (sjá bls. 47)

Hlstorisch Museum

Við förum Sint Luciensteeg til baka og höldum áfram suður Kalverstraat nokkra metra, unz við komum að nr. 92 hægra megin. Þar er inngangurinn í borgarminjasafnið Historisch Museum, sem áður var munaðarleysingjahæli borgarinnar.

Þetta er safn fyrir þá, sem ekki hafa áhuga á söfnum. Það er svo vel gert, að óhjákvæmilegt er, að við öðlumst dálítinn áhuga á merkri sögu Amsterdam. Við förum sal úr sal og fylgjumst með þróun og vexti borgarinnar öld fyrir öld.

Amsterdam var upprunalega fiskipláss, sem fékk eins konar kaupstaðarréttindi 1275. Íbúarnir voru aðallega Frísar. Fátt segir af borginni, fyrr en eftir brunann mikla 1452, er timburhús voru bönnuð og fyrirskipað var að byggja úr tígulsteini. Í ríkjamyndunum miðalda komst Amsterdam fyrst undir veldi Búrgundarhertoga og síðan Habsborgara.

Sextánda öldin einkenndist af tilraunum Hollendinga til að losna undan oki hinnar spönsku deildar Habsborgara. Vilhjálmur þögli barðist við hertogann af Alba og varð forfaðir konungsættarinnar af Oranje. Á þessum tíma voru Hollendingar knúnir áfram af kalvínismanum, sem var í ofsafenginni andstöðu við ofsafengna kaþólsku Filipusar II af Kastilíu.

Árið 1602 var Austur-Indíafelagið stofnað, 1609 Amsterdambanki og 1611 kauphöllin. Borgin var virkur aðili að þessum fyrirtækjum og varð heimsveldi á þessum áratug. Um þetta leyti voru gerðir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Miðborgin fékk þann svip, sem hún ber að mestu enn. Holland eignaðist nýlendur út og suður og fræga flotaforingja, sem eru grafnir í Nieuwe Kerk.

Á stórveldístíma sínum mynduðu Hollendingar mikilvægan hlekk í þróunarkeðju Norðvestur-Evrópu, sem fól í sér tæknilegt stökk frá miðöldum inn í vísindatíma nútímans. Siglingar örvuðu handverk, sem örvaði svo aftur siglingar. Þetta hlóð upp á sig og Amsterdam varð Evrópumiðstöð fjármála, kaupsýslu, iðnaðar, tækni, vísinda, lista og menningar.

Amsterdam og Hollendingar urðu á öldinni átjándu að víkja fyrir afli London og Englendinga. Hollendingar voru samt búnir að koma sér vel fyrir, svo sem sýna dæmin af Unilever, Royal Dutch Shell og Philips, stórveldisfyrirtækjum nútímans. Á síðustu áratugum felast þó mestu afrek Hollendinga í gífurlegri tækni við gerð flóðgarða.

Safnið er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17.

Begijnensteeg

Við yfirgefum fortíðina í Historisch Museum og höldum áfram suður Kalverstraat. Næsta hliðargata til hægri er Begijnensteeg, þar sem við beygjum til hægri. Þar er skemmtileg bjórkrá, Pilsener Club (sjá bls. 49). Einnig er þar rómantískt veitingahús, Bistrogijn, með steindum gluggum, gamalhollenzkum húsbúnaði og kertaljósum. Gatan stefnir beint að hliðinu á Begijnhof.

Við hefðum líka getað komizt hingað beint úr safninu bakdyramegin. Þá hefðum við farið um Varðmannasalinn, sem er tveggja hæða glerskáli með stórum málverkum af hetjum Amsterdam, er söfnuðust saman 1580 til að verja borgina fyrir hertoganum af Alba.

Begijnhof

Begijnhof er kyrrlátur unaðsreitur mitt í ys og þys stórborgarinnar. Þar kúra saman smáhýsi í kringum stóra garðflöt og kirkju. Þetta var öldum saman heimili kristilegra kvenna, sem þó voru ekki vígðar sem nunnur. Slík kristileg kvennaþorp hafa hvergi varðveitzt nema hér og í Breda.

Ferðamenn koma lítt við hér, enda eru dyrnar að Begijnhof ekki áberandi. En þetta er einmitt ánægjulegur hvíldarstaður frá hávaða, þrengslum og mannhafi umhverfisins. Sérstaklega er notalegt að koma hingað á sunnudagsmorgnum, þegar orgeltónarnir hljóma úr kirkjunum. Ef Shangri La er einhvers staðar, þá er það hér.

Kirkjan á flötinni er mótmælenda, kölluð Enska kirkja. Andspænis henni er kaþólska kirkjan felld inn í húsaröðina, á nr. 31. Hún er hin raunverulega kirkja Begijnen, kristilegu kvennanna.

Rétt vinstra megin við kaþólsku kirkjuna er elzta íbúðarhús borgarinnar, timburhús frá 1478, meira en 500 ára gamalt. Það er eins gamalt og hálf Íslandssagan. Í skotinu að baki hússins eru nokkrir húsmerkingarsteinar eins og þeir, sem áður hefur verið lýst.

Spui

Við förum úr þessum enda Begijnhof um flísalagt portið út á torgið Spui. Þar getum við litið inn í 3OO ára gamla bjórkrá, Hoppe (sjá bls. 48).
Síðan förum við aftur í Kalverstraat, sem liggur um austurenda torgsins. Þar komum við brátt á hægri hönd að vaxmyndasafninu Madame Tussaud, sem er eitt útibúið frá móðursafninu í London, opið 10-18.

Leldsestraat

Við beygjum næst til hægri inn Heiligeweg og í beinu framhaldi af honum Koningsplein og Leidsestraat. Við fylgjum þannig áfram verzlunarás borgarinnar, sem hófst í hinum enda Kalverstraat við konungshöllina og mun halda áfram handan Leidseplein í P.C.Hooftstraat og von Baerlestraat.

Leidsestraat er göngugata eins og Kalverstraat, full af fólki á öllum tímum dags og jafnvel nætur, því nú erum við farin að nálgast Leidseplein. Við förum á brúm yfir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht og erum óheppin, ef eitt einkennistákna borgarinnar, handknúið og ríkulega litskreytt götuorgel eða lírukassi, verður ekki á vegi okkar.

Við skulum staðnæmast á brúnni yfir Herengracht og virða fyrir okkur Gullbogann á síkinu vinstra megin. Þar eru fínustu heimilisföngin í borginni, áður heimili auðugustu borgarherranna og nú virðulegustu bankanna.

Komin á Keizersgracht getum við tekið smákrók til hægri til að líta á hús nr. 446, vinstra megin síkis. Þar átti Casanova um tíma í platónsku ástarsambandi við Esther, dóttur Hope bankastjóra.

Við getum líka staðnæmzt við Prinsengracht. Þar í húsinu á hægra horninu er hótelið Alexander (sjá bls. 11), veitingahúsin Dikker en Thijs og Prinsenkelder (sjá bls. 40) og sælkerabúðin Dikker en Thijs. Hún er hin fremsta hér í borg og vitnar því miður ekki um, að Hollendingar séu miklir matgæðingar.

Leidseplein

Og þá erum við komin á Leidseplein, miðstöð hins ljúfa lífs. Hér eru í röðum veitingahúsin góðu, krárnar fínu og allar útgáfur skemmtanalífsins. Margir eru þeir, sem búa á American hóteli (sjá bls. 18) við torgið og sjá enga ástæðu til að fara út fyrir torgið.

Við Leidseplein eru veitingahúsin Oesterbar (sjá bls. 32), Djawa (sjá bls. 26), Borderij (sjá bls. 38) og Swarte Schaep (sjá bls. 38). Hér eru krárnar Wiinlokaal (siá bls. 48), Continental Bodega (sjá bls. 48), Reynders (sjá bls. 47) og Eylders (sjá bls. 47). Hér er næturklúbburinn Blue Note (sjá bls. 53) og rétt hjá ungmennastaðirnir Melkweg (sjá bls. 52) og Paradiso (sjá bls. 52).

Og á miðju torgi trónir Stadsschouwburg í öllu sínu veldi, borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn. Við setjumst handan þess á stól fyrir framan Café Americain og hvílum lúin bein, virðum fyrir okkur mannlífið og sötrum sérgrein hússins, lrish Koffie.

P.C.Hooftstraat

Handan við Singelgracht eru hótelin Marriott (sjá bls. 16) og Centraal (sjá bls. 20). Milli þeirra er gatan Vondelstraat og inn af henni Roemer Visscherstraat með nokkrum ódýrum hótelum, þar á meðal Owl (sjá bls. 21), Vondel, Parkzicht, Sipermann og Engeland.

Við förum brúna yfir Singelgracht og beygjum síðan til vinstri. Þar verður á vegi okkar enn eitt einkennistákn borgarinnar, einn af mörgum síldarvögnum hennar. Þar er hægt að stýfa úr hnefa ýmsar tegundir af síld, ólíkt matarlegri en pylsurnar hjá okkur.

Við göngum suður garðinn og Stadhouderskade, unz við komum að Hobbemastraat til hægri. Þar á hægra horninu er veitingahúsið Mirafiori (sjá bls. 32). Síðan beygjum við til hægri inn í P.C.Hooftstraat, þar sem sitt á hvoru horninu eru veitingahúsin Sama Sebo (sjá bls. 25) og Rembrandt (sjá bls. 31).

P.C.Hooftstraat er fínasti hluti verzunarássins, sem við höfum fylgt á göngu okkar. Hér eru tízkubúðirnar og ýmsar sérverzlanir með dýrar vörur. Og hér er veitingahúsið Fong Lie (sjá bls. 27).

A mótum P.C.Hooftstraat og Constantijn Huygenstraat getum við beygt til hægri og farið í Vondelpark, notalegan útilífsgarð, sem er mikíð stundaður af trimmurum, hjólreiðafólki og hassreykingamönnum.

Ef við tökum ekki krókinn í garðinn, beygjum við á horninu tíl vinstri og förum von Baerlestraat alla leið að Concertgebouw, sem er hægra megin götunnar. Concertgebouw hýsir samnefnda sinfóníusveit, sem er í frægara lagi (sjá bls. 50).

Concertgebouw snýr út að gras- og blómatorginu Museumsplein. Handan þess sjáum við hið volduga Rijksmuseum, ríkislistasafnið, og á vinstri hönd Stedelijk Museum, borgarlistasafnið, og Rijksmuseum Vincent van Gogh.

Stedelijk Museum

Við höfum nú lokið göngu okkar um verzlunargöturnar Kalverstraat, Heiligeweg, Koningsplein, Leidsestraat og P.C.Hooflstraat og getum hætt að líta í búðarglugga. Hér tekur við menningarsagan.

Við förum til baka götuna, yfir hana og inn í hina nýju álmu Stedelijk Museum, Kjarvalsstaði Amsturdammara. Það er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Hér skoðum við svokallaða nútímalist, þaðer að segja 20. aldar list frægra nafna.

Á veggjum hanga verk eftir Cézanne, Picasso, Renoir, Monet og Manet, einnig Chagall, Malevich, Kandinsky og Mondrian, svo og málverk eftir Cobra-hópinn. Þar eru líka yngri stefnurnar, popplist og conceptual list og hvað þær nú annars allar heita.

Þetta safn nýtur mikils álits, enda er það stöðugt að kaupa ný listaverk og heldur næstum þrjátíu sérsýningar á ári hverju.

Rijksmuseum Vincent van Gogh

Komin úr Stedelijk Museum förum við til hægri og síðan aftur til hægri inn Paulus Potterstraat, framhjá eldri álmu safnsins og að van Gogh safninu, sem er sömu megin götunnar. Það er í nútímabyggingu frá 1973, sem þykir merkilegur aldur í miðborginni!

Rijksmuseum Vincent van Gogh er opið 10-17, sunnudaga 13-17. Það er eitt skemmtilegasta listasafn í heimi. Hvergi er til jafn heildstætt safn málverka eins, heimsfrægs málara. Hér eru til sýnis um 200 málverk hans í réttri tímaröð. Hægt er að fylgjast mánuð fyrir mánuð með listþróun hans og vaxandi brjálsemi undir ævilokin, er hann framdi sjálfsmorð 37 ára gamall árið 1800. Hér eru einnig 500 rissmyndir hans.

Svo merkilega vill til, að mestur hluti afgangsins af málverkum Vincent er líka í Hollandi, ekki langt frá Amsterdam, í safni Kröller-Müller í Hoge Veluwe skógi. Þannig einokar Holland van Gogh gersamlega, öfundað af listvinum í öðrum löndum. En skýringin er, að enginn vildi kaupa myndir Vincents, meðan hann lifði. Síðar sáu ættingjar hans um, að „ruslið“, sem hann skildi eftir í Frakklandi, yrði flutt til heimalandsins.

Coster

Við göngum áfram Paulus Potterstraat að Rijksmuseum. Á enda götunnar, vinstra megin, er gimsteinasalan Coster. Í borginni eru margir góðir gimsteinasalar, sem sýna ferðamönnum slípun gimsteina, og Coster er einn sá besti. Það kostar ekkert að fylgjast með gamla manninum stunda þessa nákvæmnisvinnu með þar til gerðum vélakosti. En viljir þú kaupa, skaltu bara nefna upphæðina. Það er sama, hversu há hún er, Coster hefur eitthvað fyrir þig.

Rijksmuseum

Þunglamaleg höllin Rijksmuseum stendur klofvega yfir Museumstraat. Við komum hér aftan að henni og förum göngin til að komast að framhliðinni, þar sem inngangurinn er.

Rijksmuseum er ekki beinlínís á borð við Louvre, Ufflzi, Prado og National Gallery, en slagar þó hátt upp i þessi söfn Parísar, Flórens, Madrid og Lundúna. Gimsteinn þess er auðvitað Rembrandt og síðan aðrir Hollendingar á borð við Frans Hals og Vermeer.

Hinir miklu málarar Hollands voru uppi á 17 öld, einmitt gullöldinni, þegar opinberar stofnanir og einstaklingar höfðu nóg fé til að moka i listamenn. Þannig fylgdi menningin gróðanum.

Erfitt er að veita leiðsögn um samið, því að í seinni tíð hefur það ekki haft starfslið til að halda öllum vængjum opnum samtímis. Til að komast í alla vængina yrðum við að hafa allan daginn til ráðstöfunar. Til að þjóna þeim, sem ekki hafa tíma til slíks, hafa frægustu málverkin verið látin í míðsalina hægra megin, sem áður voru fyrir sérsýningar. Þessir miðsalir eru alltaf opnir.

Þar er mest látið með risastórt málverk Rembrandts af varðsveit Frans Banning Cocq og Willem van Ruytenburgh, oftast kallað Næturvaktin. Tveir varðmenn vaka yfir Næturvaktinni, sem í rauninni er dagvakt, svo sem í ljós kom, þegar fernisinn var hreinsaður af málverkinu skömmu eftir stríð.
Safnið er opið 10-17, sunnudaga 13-17.

Nieuwe Spiegelstraat

Þegar við komum úr safninu, höldum við beint af augum yfir Singelgracht og götuna Weteringschans, þar sem veitingastofan Opatija (sjá bls. 33) er nálægt horninu hægra megin.

Við höldum áfram yfir Lijnbaansgracht og síðan meðfram Spiegelgracht, þar sem við erum komin inn í hverfi forngripasala. Þeir eru hér á stóru svæði við Spiegelgracht, Prinsengracht og Keizersgracht, en þekktastir og flestir eru þeir við Nieuwe Spiegelstraat, sem er í beinu framhaldi af Spiegelgracht. Á kaflanum milli Prinsengracht og Keizersgracht er einmana vínbúð innan um þrjá tugi forngripasala.

Þessi samþjöppun er einkar þægileg fyrir áhugafólk um þessi efni. Á nokkrum tugum metra er hægt að finna sérfræðinga í flestum greinum forngripasölu. Og þeir selja ekki bara hollenzka forngripi, heldur hvaða lands sem er. Fransk- og brezkættaðir hlutir eru áberandi í þessum búðum.

Museum Van Loon

Þegar við erum komin út að Keizersgracht, beygjum við til hægri meðfram síkinu, förum yfir umferðargötuna Vijzelstraat að Keizersgracht 672, þar sem Museum Van Loon er til húsa. Það er ættarsafn van Loon ættarinnar, sem löngum hefur verið áberandi í opinberu lífi Amsterdam. Skemmtilegastur er skrautgarðurinn að húsabaki. Safnið er opið 10-12 og 13-16, lokað miðvikudaga.

Museum Fodor

Við þurfum að krækja út á brúna til baka til að komast í Museum Fodor, sem er andspænis Van Loon, við Keizersgracht 672. Þar eru sýnd málverk þeirra, sem enn eru ekki orðnir nógu frægir til að koma verkum sínum í Stedelijk Museum. Þess vegna fara menn hingað til að kynnast nýjum straumum i myndlist.

Verkaskipting þriggja safna er með þeim hætti, að Fodor sýnir list dagsins í dag, Stedelijk list 20. aldar og Rijksmuseum list fyrri alda. Hér á Museum Fodor gerðu Íslendíngar garðinn frægan í árslok 1983, fyrstir erlendra málara. Þetta safn á því stað í hjarta okkar.

Íslendingarnir, sem sýndu á Fodor, voru Árni Ingólfsson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ingólfur Arnarson, Ívar Valgarðsson, Kristinn Harðarson, Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson og Tumi Magnússon.

Bloemenmarkt

Við förum til baka út á Viezelstraat, ljótustu götu borgarinnar, og göngum hana til norðurs fram hjá Algemene Bank Nederland, sem er svo stirður, að hann tekur ekki einu sinni gildar eigin ávísanir. Á brúnni yfir Herengracht stönzum við stutta stund til að virða fyrir okkur Gullbogann til vinstri, sem við vorum áður búin að sjá frá Leidsestraat.

Síðan förum við áfram að blómamarkaðinum, Bloemenmarkt (sjá bls. 46) við Singel og drekkum í okkur litskrúð blómanna. Slíkan blómamarkað sjáum við tæpast í öðrum borgum.

Munttoren

Við erum komin að torginu Muntplein, sem heitir eftir turninum Munttoren. Hann er einn af turnum hins gamla borgarvirkis frá miðöldum og hét áður Reguliers, en fekk nafnið Munttoren, af því að borgin sló eigin mynt í honum um tíma. Á 17. öld brann turninn að mestu og fékk þá nýjan efri hluta. Sjálft torgið er mesta umferðartorg bíla í borginni.

Rokin

Handan Rokin síkis blasir við okkur hótelið Europe (sjá bls. 14) með veitingasalnum Excelsior (bls. 34) og matreiðslumönnunum í kjallaranum undir yfirborði vatnsins. Að baki okkar er veitingahúsið Indonesia (sjá bls. 26) á annarri hæð í hótelinu Carlton.

Við göngum norður eftir Rokin, þar sem við getum á ný tekið upp á að skoða í búðarglugga, ef við fáum okkur ekki bara að borða á Kopenhagen (sjá bls. 34). Margar verzlanir, sem hafa dyr út að Kalverstraat, hafa einnig dyr út að Rokin. Innan skamms erum við komin á Dam, þar sem þessi ferð var hafin. Við höfum skoðað suðvesturhluta miðborgarinnar.

4. ferð:

Þá er ekki annað eftir en norðvesturhlutinn. Við byrjum enn á Dam og í þetta sinn fyrir framan Nieuwe Kerk.

Nieuwe Kerk

Nieuwe Kerk er, þrátt fyrir nafnið, ein elzta kirkjan í Amsterdam, reist á 15. öld. Hún er eins konar Westminster Abbey Hollendinga, krýningarkirkja konungsættarinnar. Þar hafa þrjár Hollandsdrottningar verið krýndar í röð, Vilhelmína 1898, dóttir hennar Júlíana 1948 og dótturdóttirin Beatrix 1980. Svo virðist sem kvennaveldi hafi í heila öld ríkt í ættinni Oranje-Nassau. En nú hefur Beatrix eignast krónprins til að taka við ríkinu.

Nieuwe Kerk er ef til vill frægust fyrir að vera án turns. Mjó spíra var sett á hana til málamynda á 19. öld. Um miðja 17. öld höfðu borgarfeður deilt um, hvort byggja skyldi kirkjuturn eða ráðhús og varð ráðhúsið ofan á. Kirkjan er opin 12-16, sunnudaga 13-17.

Gravenstraat

Að baki Nieuwe Kerk eru nokkur skemmtileg húsasund. Næst kirkjunni er Gravenstraat. Þar á nr. 28 er skemmtileg, lítil ostabúð, Crignon, sem rúmar varla fleiri en einn viðskiptavin í einu, en býður þó upp á rúmlega hundrað tegundir osta frá ýmsum löndum. Að búðarbaki er ostaveitingastofa. Við sömu götu, á nr. 16, er gamla jenever-búlan Drie Fleschjes (sjá bls. 50).

Nieuwendijk

Við förum Gravenstraat til austurs að Nieuwendijk, sem er eins konar framhald Kalverstraat til norðurs frá Dam. Það er gata verzlunar og býður upp á ótal hliðarsund, sem meira að segja höfundar þessarar bókar hafa ekki kannað öll. Eftir því sem norðar dregur, vex skemmtanalífið á kostnað verzlunarinnar. Gatan tekur þverbeygju til vesturs og endar við Singel.

Ronde Luterse Kerk

Við tökum örstuttan krók suður með vinstri hlið Singel, bæði til að virða fyrir okkur mjósta hús borgarinnar, sem er á Singel nr. 7, og til að skoða Ronde Luterse Kerk, sem er kúpulkirkja frá 1671.

Tvær milljónir tígulsteina og þakkopar frá Karli XI Svíakonungi fóru í þessa tæplega 50 metra háu kirkju í barokk- eða hlaðstíl. Hún var um síðir afvígð og gerð að pakkhúsi, unz Sonesta hótelið (sjá bls. 16) endurlifyaði hana.

Brouwersgracht

Til baka förum við og yfir Singel, göngum spölkorn inn Haarlemmerstraat, þar sem á nr. 43 er mjósta veitingahús heims, Groene Lanteerne í 17. aldar stíl og þjónusturnar bera eins konar þjóðbúninga.

Síðan göngum við götuna til baka, beygjum til hægri og síðan aftur til hægri eftir Brouwersgracht. Við þetta síki byrja hin margnefndu skeifusíki Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Hér er síkjastemmningin í algleymingi. Við tökum sérstaklega eftir fallega endurnýjuðu pakkhúsi á nr. 118.

Hér erum við um það bil að detta út af kortinu á bls. 36, svo að nú verða menn að fylgja þessari leiðarlýsingu undanbragðalaust. Við höldum áfram eftir hægri bakka Brouwersgracht framhjá Herenmarkt, sem er greinilega huggulegt torg, úr því að gamla fólkið situr þar og ungu börnin leika sér þar.

Jordaan

Þegar við komum að Prinzengracht, beygjum við til vinstri eftir henni, förum yfir á hægri bakkann og heilsum upp á Norderkerk og markaðinn við hana (sjá bls. 46). Kirkjan var reist 1623 og er í laginu eins og grískur kross.

Við erum komin í Jordaan, hverfið milli Prinsengracht og Lijnbaansgracht. Það var upphaflega fetækrahverfi franskra Húgenotta, en hefur á síðustu árum verið endurlífgað af miðaldra hippum, sem hafa innréttað dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum. Og við erum aftur komin inn á kortið á bls. 36.

Suður eftir Prinsengracht göngum við og lítum að vild inn í hliðargöturnar á hægri hönd. Á kránni Prins við Prinsengracht lO4 er kjörið að hvíla lúin bein.

Á næsta horni förum við inn Egelantiersgracht, afar notalegt síki, sem er dæmi um, hve vel hefur tekizt að endurreisa Jordaan. Af 8000 húsum hverfisins hafa 800 verið tekin undir verndarvæng húsfriðunarnefndar borgarinnar.

Anne Frank Huis

Við göngum hinn bakka Egelantiersgracht út að Prinsengracht og förum þar yfir næstu brú. Þar komum við á vinstri bakkanum að Anne Frank Huis á Prinsengracht 263. Það er opið 9-17, sunnudaga 10-17.

Hér bjó Anna Frank með sjö ððrum gyðingum í felum frá 1942 og þangað til þau voru svikin í hendur nazista í ágúst 1944. Hér skrifaði Anna dagbókina, sem hefur öðlazt heimsfrægð. Hér sjáum við bókaskápinn, sem var um leið hurð að felustað flóttafólksins.

Við sjáum einnig blaðaúrklippurnar, sem 13 ára stúlkan límdi á vegginn fyrir ofan rúmið sitt. Þar er mynd af Deanna Durbin og Margréti Bretaprinsessu. Fyrir tilviljun fannst þetta allt og þar á meðal dagbókin.
Lesendur fjögurra milljón eintaka af dagbók Önnu Frank geta hér endurlifað bókina á dramatískan hátt. Íslenzkir lesendur geta glaðzt yfir, að íslenzka útgáfan er þar til sýnis með öðrum útgáfum bókarinnar. Þetta er án efa eitt af allra merkustu söfnum borgarinnar.

Westerkerk

Aðeins ofar og sunnar við Prinsengracht er Westerkerk, byggð 1631 af feðgunum Hendrick og Pieter de Keyser í hreinskornum formum og mælirænum einingum. Hún hefur tvö snubbótt þverskip og kubblaga turn. Hún er dæmigerð kalvínsk kirkja, hefur engar hliðarkapellur fyrir dýrlinga og kórinn er stuttur, svo að skammt sé milli prests og safnaðar.

Turninn er hinn hæsti í Amsterdam, 85 metra hár, og býður dugnaðarfólki upp á óviðjafnanlegt útsýni í góðu skyggni. Í turninum er klukknasamstæða eftir Francois Hemony, sem raunar hefur sett saman slíkar klukkur í fleiri turnum borgarinnar. Samstæður þessar spila fjörug lög, sem klingja í eyrum ferðamanna, löngu eftir að þeir eru farnir heim.

Á torginu fyrir framan bjó franski heimspekingurinn Descartes um tíma á nr. 6. Þaðan skrifaði hann í bréfi: „Í hvaða landi væri að finna slíkt fullkomið feelsi?“ Þar vísaði hann til þess, að Holland, með Amsterdam í fararbroddi, hefur löngum verið griðastaður flóttamanna og annarra þeirra, sem ekki bundu bagga sína sömu hnútum og samferðamenn.

Héðan getum við farið til baka yfir Prinsengracht og kynnst Jordaan nánar. Slíkri könnun hæfir engin sérstök leiðarlýsing. Ef við höfum hins vegar fengið nóg af rölti í bili, þá göngum við Raadhuisstraat til austurs að fyrrverandi ráðhúsi og núverandi konungshöll, þar sem við hófum þessa göngu.

Leiðsögninni um Amsterdam er lokið og við getum stungið okkur inn á Drie Fleschjes að baki Nieuwe Kerk eða farið yfir torgið til að prófa nýjan snafs hjá Gijsberti Hodenpijl.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson