Dam
Torgin eru meðal hins skemmtilegasta í Amsterdam. Fremst er þar Dam, torgið fyrir framan konungshöllina. Þetta torg er miðjan, sem gamla miðborgin óx í kringum. Það er afar fjörlegt torg, ekki bara vegna dúfnanna, heldur vegna mannfjöldans, er fylgist með eða tekur þátt í uppákomum.
„Jesús elskar þig!“ stóð á fána hjá uppákomu „Ungs fólks með hlutverk“, sem stóð yfir, þegar við litum þar við síðast. Enskumælandi prédikari reyndi að stunda múgsefjun með reifabarn í fangi, milli þess sem stúlkur í rauðum pilsum og hvítum skyrtum stigu helgidans.
Þar rétt hjá sat gítarspilari á kassa og raulaði þjóðlög. Á þriðja staðnum var enn annar, sem lék á nokkur hljóðfæri í senn. Báðir höfðu myndarlegan áheyrendahóp eins og prédikarinn. Í hinum enda torgsins sátu ungmenni á tröppum stríðsminnisvarðans, sem í Amsterdam gegnir svipuðu hlutverki og styttan af Eros á Piccadilly Circus. (B2)
Leidseplein
Hitt skemmtilega torgið í borginni er Leidseplein, miðpunktur skemmtanalífsins. Þar í kring eru leikhúsin, söfnin, veitingastaðirnir og næturklúbbarnir í röðum. Yfir torginu trónir borgarleikhúsið og í næsta nágrenni eru hinir frægu ungmennastaðir Melkweg og Paradiso.
Á torginu sjálfu er yfirleitt eitthvað um að vera, þótt í smærri stíl sé en á Dam. Síðast sáum við þar gítarleikara og látbragðsleikara, sem við höfðum séð hálfu ári áður í Covent Garden í London. Og svo er á Leidseplein dálítið af gangstéttarkaffihúsum, frægast Café Americain með Parísarstemmningu. (C4-5)
Rembrandtsplein
Einu sinni var Rembrandtsplein þungamiðja skemmtanalífsins. Torgið hefur nú látið á sjá. Klámbíó og lélegir næturklúbbar hafa hrakið hinn heilbrigðari hluta kvöld- og næturlífsins yfir á Leidseplein. Enn eru þar þó ágæt veitingahús og útikaffihús. Og gróðurreiturinn á miðju torgi gerir staðinn vinalegan, þrátt fyrir æpandi neon-auglýsingar. Við hlið Rembrandtsplein er Thorbeckeplein með miklu safni næturklúbba, en styttan af Thorbecke gamla snýr baki í þá. (C-D2)
Kalverstraat
Markaðirnir í Amsterdam eru skemmtilegir eins og torgin. Fjölsóttastur er Kalverstraat, sem í rauninni er ekki markaður, heldur göngugata með verzlunum á báðar hendur. En þröngin og fyrirgangurinn á mjórri götunni er slíkur, að minnir á útimarkað af betra tagi.
Einu sinni var Kalverstraat gata fínna verslana. Nú hefur hún hins vegar að nokkru leyti breytzt í götu gallabuxnasala, þar sem margt er selt við vægu verði. Inn á milli eru dýru tízku- og demantabúðirnar.
Sums staðar í heiminum hafa göngugötur af þessu tagi pláss fyrir útikaffihús. En því er ekki fyrir að fara hér. Sá, sem ætlar að rölta um í ró og næði, neyðist til að greikka sporið til að halda sama hraða og mannhafið. Áhrifin eru semsagt eins og af markaði, en ekki göngugötu.
Kalverstraat verslanirnar eru lokaðar á sunnudögum. (B3)
Albert Cuypstraat
Þetta er aðalmarkaðurinn í Amsterdam og nær nokkrar blokkir til austurs frá horni Ferdinand Bolstraat. Hann hefur magnazt á síðustu árum vegna flutnings Súrinama frá fyrrverandi hollenzku Guyana í S-Ameríku og annars fólks af fjarlægum ströndum til Pijp-hverfisins á þessum slóðum.
Í Albert Cuypstraat er hægt að fá hin undarlegustu og sjaldséðustu krydd, fiska og grænmeti, ávexti og blóm. Litaskrúðið er mikið á vörum og fólki, vöruúrvalið mikið og ódýrt. Ilmurinn frá snarltjöldunum er bæði fjarrænn og freistandi. Til dæmis ilmur af pönnukökum, fylltum kjöti og grænmeti, og af Barras, sem eru eins konar baunabollur.
Markaðurinn er lokaður á sunnudögum. (E2-3)
Waterlooplein
Flóamarkaðurinn er nú aftur kominn á Waterlooplein eftir langa útlegð í Valkenburgerstraat í nágrenninu. Algengt er, að sölumenn setji upp 50-100% hærra verð en þeir eru að lokum tilbúnir að semja um.
Hér er hægt að fá allt milli himins og jarðar, allt frá pelsum yfir í skrúfur, allt frá fornminjum yfir í bátaluktir. Og ekki má gleyma, að hér fást ódýr reiðhjól til nokkurra daga notkunar fyrir ferðamenn. (C1)
Bloemenmarkt
Holland er land blóma. Og blómamarkaðurinn við Singel, frá Muntplein að Leidsestraat, er frægur um allan heim. Í 200 ár hafa bátarnir vaggað hér við síkisbakkann, fullir af skærum litum blóma. Jafnvel um hávetur, þegar menn vaða snjóinn, eru blómin seld hér utan dyra.
Vafasamt er, að til sé í heiminum nokkur annar slíkur sérhæfður blómamarkaður af þessari stærð. Hann er örugglega eitt af því, sem ferðamenn í Amsterdam verða að gefa sér tíma til að skoða. (C3)
Noordermarkt
Á síðustu árum hefur markaðurinn umhverfis Noorderkerk tekið upp öfluga samkeppni við hinn hefðbundna flóamarkað í Waterlooplein. Hann nær núna langt inn eftir Westerstraat og breytist þar í fatamarkað. En hann er bara opinn mánudaga. Á sama stað er fuglamarkaður laugardaga.
Vöxtur þessa markaðar stafar af, að hverfið í kring, Jordaan, er komið í tízku. Þangað hafa flutt miðaldra hippar frá stúdentauppreisninni 1968, sem nú eru orðnir vel stæðir borgarar og geta innréttað sér dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum.
Úrvalið hér er raunar orðið meira en í Waterlooplein og breiddin meiri, bæði niður í skranið og upp í sómasamlegar vörur. Hér er svo á laugardagsmorgnum skemmtilegur fuglamarkaður. (A3)
Oudemanhuispoort
Langi og mjói 18. aldar gangurinn með þessu langa nafni er í rauninni aðalinngangur háskólans. Á aðra hlið hans eru í röðum kassar bóksala eins og á Signubakka. Hér geta stúdentar keypt notaðar námsbækur og ferðamenn gamlar bækur, landakort og steinprentsmyndir.
Oudemanhuispoort liggur milli síkjanna Kloveniersburgwal og Oudezijds Achterburgwal. (C2)
Postzegelmarkt
Síðdegis á miðvikudögum og laugardögum er frímerkjamarkaður haldinn í Nieuwezijds Voorburgwal, þar sem gatan breikkar fyrir sunnan aðalpósthúsið og fyrir norðan Historisch Museum. Þar er líka seld gömul mynt. (83)
Reynders
Eitt þekktasta kaffihús borgarinnar er Reynders við Leidseplein. Löngum var þetta listamannakrá, en er nú orðin að stað, þar sem heimamenn hittast yfir kaffi, áður en þeir fara eitthvert annað.
Fremst er gangstéttarútskot í venjulegum kaffihúsastíl. Inni er mikið safn gamalla tréborða og tréstóla í einum graut. Innst er billjarðborð. Þetta er hversdagslegur staður með góðri stemmningu heimafólks. Ferðamenn voru fáir, þegar við síðast litum inn. (C4)
Eylders
Í sömu húsalengju, aðeins fjær torginu, er Eylders, annað þekkt kaffihús, heldur snyrtilegra og fínna. Málverkasýning er á veggjum. En borðin eru líka slitin hérna eins og á hinum staðnum, eftir olnboga nokkurra áratuga.
Het Hok
Rétt hjá Leidseplein, á horni Lange Leidsedwarsstraat og Leidsekruisstraat eru tvær skákstofur, þar sem fólk getur teflt, meðan það fær sér kaffi. Þær eru Het Hok á sjálfu horninu og Domino. Fyrri staðurinn er skemmtilegri, rúmgóður og fastagestalegur.(C4)
Café Americain
Merkilegasta kaffistofa borgarinnar er víð sama torgið og hinar. Café Americain er á jarðhæð hótelsins American og er frægasti hluti Jugend-stíls þess hótels. Innréttingarnar eru verndaðar af húsfriðunarnefnd, þar á meðal sérkennilegar ljósakrónur úr frostgleri, súlur og bogar, flauel og steindir gluggar.
Hér hélt njósnarinn Mata Hari brúðkaup sitt. Og hér hafa löngum setið og sitja enn innlendir og erlendir listamenn og láta elginn vaða. Fyrir utan kaffi og með því fást hér ódýrir réttir dagsins, ýmsir smáréttir og ferðamannamatseðill, sem síðast kostaði Fl. 17.
Utan dyra er sá hluti borgarinnar, sem mest minnir á París. Heilt torg er framan við hótelið og þar er þétt setinn bekkurinn á sólríkum dögum. Á þessu gangstéttarkaffihúsi út frá Café Americain mæla ferðamenn sér mót nú á tímum. (C5)
Wijnlokaal Mulliner‘s
Við Leidseplein er fleira en kaffistofur. Þar eru líka vínstofur, þar sem heimamenn stunda sötur eftir vinnu og fyrir heimferð eða útstáelsi. Ein þeirra er Wijnlokaal við Lijnbaansgracht 267.
Þessi staður sérhæfir sig í púrtvíni af ýmsum aldri, allt upp í rúmlega hálfrar aldar gömlu. Barinn liggur næstum í heilan hring og fyrir framan eru smáborð í hornum. (D4)
Continental Bodega
Aðeins nær Leidseplein, við Lijnbaansgracht 246, er sherry-bar borgarinnar. Hann býður upp á ótal tegundir af sherry og léttum vínum fram til klukkan hálfátta á kvöldin. Staðurinn er á þremur hæðum.
Menn fá pöntunarkort við innganginn. Þeir sem sitja uppi á annarri hæð, sjá niður á barinn. Þeir slá í aðra af tveimur kúabjöllum. Barþjónninn halar niður pöntunarlistann og aftur upp með fullum glösum af því, sem pantað var. Síðan borga menn viðskiptin við útidyrnar.
Þetta er mjög líflegur staður, bæði fyrir heimamenn og ferðamenn. Eftir vinnu er hann sneisafellur og jafnvel biðröð við bjöllurnar. lnnréttingar eru rómantískar. Sherryglas er á Fl. 2,90 og við fengum ágætt Manzanilla á Fl. 3,50. (D4)
Cafe de Jaren
Blaðalestrar-kaffihús eru mörg og höfða vel til borgarbúa. Í háskólahverfinu er Cafe de Jaren við hlið Doelen-hótels, við Nieuwe Doelenstraat. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og fullt af stúdentum, sem sumir eru háværir, en aðrir niðursokknir í lestur. Stórar svalir snúa út að Amstel. Nóg er af blöðum og tímaritum, þar á meðal á ensku. (C2)
Morlang og Walem
Tvær kaffistofur eru hlið við hlið við Keizersgracht 449 og 451, rétt hjá Leidsestraat. Þetta eru blaðalestrarstofur og að minnsta kosti Walem hefur úrval erlendra blaða og tímarita. Morlang er heldur rólegri. (C4)
Upstairs
Sérstakt fyrirbæri í Amsterdam eru pönnukökuhúsin. Það skemmtilegasta hét áður Carla Ingeborg‘s, en heitir nú Upstairs. Það er við Grimburgwal 2 og er pínu-pínulítið, gengið upp hænsnastiga. (C2)
Bruine kroegs
Útbreiddustu krár borgarinnar eru bjórstofurnar, svonefndar Bruine kroegs, sem eru á öðru hverju götuhorni í miðborginni. Þær eru yfirleitt minni en brezkir pubs og enn skuggsýnni, bæði vegna lítillar birtu og hins dökka viðar í húsbúnaði. Þaðan kemur nafnið.
Hér horfa menn á barþjóninn fylla glösin af stakri þolinmæði í mörgum áföngum, skafandi froðuna af á milli áfanga með hnífi. Þetta eru staðirnir, sem heimamenn hafa að festasetri.
Hoppe
Hoppe er heiti margra kráa í Amsterdam. Hin upprunalega Hoppe er við torgið Spui vestanvert. Hún er fræg fyrir, að þar hittast háir og lágir og blanda geði, allt frá ráðherrum yfir í Súrinama. Þetta er krá hollenzks jafnræðis og frjálslyndis. (B-C3)
Pilsener Club
Rétt hjá Hoppe er Pilsener Club, öðru nafni Engelse Reet, í þröngu stræti, Begijnensteeg, sem liggur að Begijnhof. Þar er líka margt um manninn úr öllum stéttum. Stundum er mestur hávaðinn frá bridgespilurunum við hringborðið. Á trégólfi er sandur, sem skúrar hvítan viðinn. (C3)
Scheltema
Rétt hjá konungshöllinni er gömul og niðurgrafin blaðamannakrá með kamínu á miðju gólfi. Það er Scheltema við Nieuwezijds Voorburgwal 242. (B3)
Pieper
Dæmigerð krá er Pieper, rétt hjá Leidsestraat, við Prinsengracht 424, rustaleg, skuggaleg, hönnunarlaus, þröng og þægileg. (C4)
Pilserij
Við hlið Classic hótels að baki Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 10, er dimm krá í skemmtilegum ungstíl. (A-B2)
Wynand Fockink
Ein af sérgreinum Amsterdam eru smökkunarstaðir fyrirtækjanna, sem framleiða jenever og líkjöra. Þar fá menn skenkt fleytifull glös og verða síðan að beygja sig niður að borðinu með hendur fyrir aftan bak til að taka fyrsta sopann. Þetta er hefð.
Skemmtilegasta smakkstofan er Wynand Fockink í mjóu sundi, Pijlsteeg 31, út frá Dam við hlið Krasnapolsky hótels. Þar ræður ríkjum tungumálagarpurinn, sagnfræðingurinn og heimspekingurinn P.A. Gijsberti Hodenpijl og er ekki í vandræðum með umræðuefnin.
Sjálfur barinn hefur verið óbreyttur í rúmar þrjá aldir. Gamlar vínflöskur skreyta veggina og barborðið er orðið slitið mjög. Hvergi er hægt að fá sér sæti í þessari litlu brennivínsholu. Það skýrir ef til vill, af hverju enginn er þar nógu lengi til að verða fullur. Nógu góðir eru kryddsnafsarnir samt. (B2)
Drie Fleschjes
Önnur smakkstofa í nágrenninu, rétt undir Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 16, við Classic hótelið, er Drie Fleschjes, einnig gömul og fornfáleg. Þar hittast kaupsýslumenn í hádeginu til að fá sér frystan jenever í stað þess að borða sér til óbóta. Inni í horni er sérkennilegt glerbúr fyrir tvímenningsdrykkju.
Einkenni smökkunarstaða er, að ekki er til siðs, að viðskiptavinir setjist þar upp, heldur fá sér einn eða tvo. Ennfremur, að þetta gerist að degi til. Smakkstofurnar eru nefnilega lokaðar á kvöldin (A-B2)
Bols Taverne
Helsta smakkstofan í hverfinu Jordaan er Bols Taverne við Rozengracht 106. Það er eins konar hverfiskrá, sem býður líka upp á snarl og heilar máltíðir. Þar er boðið upp á rúmlega hundrað tegundir af brennivíni, en samt hefur aldrei sézt þar fullur maður.
Framan við stofuna er lítið garðhorn, sem er notað eins og útikaffihús á sumrin. Og fyrir ofan barinn eru svalir fyrir matargesti. Tilboð dagsins eru skráð á töflur og þau eru bezt. Þetta er snyrtilegur og alþýðlegur staður. (A4)
Concertgebouw
Fleira er skemmtilegt í Amsterdam en torg og markaðir, kaffi og vín, bjór og brennivín. Í samnefndri byggingu er hin þekkta sinfóníuhljómsveit Concertgebouw til húsa við van Baerlestraat. Þar er hljómburður óvenju góður í 2200 manna sal. Senn á að hefjast mikil viðgerð á húsinu.
Þegar við vorum síðast í Amsterdam stjórnaði Vladimir Ashkenazy þar hljómsveitinni kvöld eftir kvöld í verkum eftir Mozart og Richard Strauss. (E5)
Stadsschouwburg
Borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn eru til húsa í Stadsschouwburg við Leidseplein. Þegar við vorum síðast í borginni, var þar leikið Das unaufhaltsame Aufstieg von Arturo Ui eftir Bertolt Brecht; sungin Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach; og Globe leikhúsið í London gestalék Richard III eflir Shakespeare. En fátt var um fína drætti í ballettinum. (C4-5)
Mickery
Í Amsterdam er alþjóðlega framúrstefnuleikhúsið Mickery við Rozengracht 117, nálægt Bols Taverne. Það er einkafyrirtæki, sem hefur gert mikið af að fá leikhópa frá útlöndum og að fá þar æfðar og frumfluttar leiksýningar, sem síðan fara annað. Oft eru þar leiksýningar á enskri tungu, sem er gagnlegt fyrir ferðamenn. Í vetur var þar King Lear eftir Shakespeare (A4)
Shaffy
Shaffy er eins konar menningarmiðstöð við Keizersgracht 324. Þar er mikið um framúrstefnu í leiklist í fjórum sýningarsölum, svo og kvikmyndasýningar, listsýningar, tónleika og danssýningar. Segja má, að hægt sé að fara þangað, án þess að vita, hvað sé á boðstólum. Eitthvað af því muni reynast nógu freistandi til að bjarga kvöldinu. (B4)
Paradiso
Í gamalli kirkju við Weteringschans 6, rétt hjá Leidseplein, hefur verið komið upp ungmennamiðstöð, sem hefur í nokkur ár verið miðpunktur nútímahávaða fyrir ungt fólk. Fyrst var það poppið, síðan ræflarokkið, þungarokkið og nýjustu bylgjurnar. Þar skiptast á lítt þekktar sveitir og aðrar á borð við Sex Pistols. Þetta er ekki staður fyrir rólega næturstund. (D4)
Melkweg
Að baki Stadsschouwburg, við Lijnbaansgraacht 234a, er gamalt mjólkurbú handan síkis og vindubrúar. Því hefur verið breytt í listamiðstöð fyrir ungt fólk. Dyrnar eru læstar, svo að berja verður upp á, en auðvelt er að kaupa ódýrt klúbbskírteini til þriggja mánaða.
Fyrir innan eru myndasýningar, leiksýningar, hávaðaframleiðsla, dans og tæknilega bezt fluttu kvikmyndasýningar í borginni. Þar að auki eru hér nokkur veitingahús, til dæmis fyrir grænmetisætur. Ennfremur bókamarkaður, flóamarkaður, bar og testofa.
Hér rölta menn um og staðnæmast, ef eitthvað grípur, sem upp á er að bjóða. Ef allt er í of mikilli framúrstefnu, er alténd hægt að skoða bókamarkaðinn. Staðurinn er á fullu frá 21 til 01, en eftir það er diskó. (C5)
Boston Club
Annað af tveimur helztu diskóum fyrir stælfólkið í Amsterdam er Boston Club í Ramada hóteli (sjá bls. 16). Þar er unga fólkið áberandi öðru vísi klætt en í Paradiso og Melkweg. (A2)
Windjammer Club
Hitt diskóið er í kjallara Marriott hótels (sjá bls. 16). Það er sniðuglega innréttað á mörgum pöllum með margvíslegum skúmaskotum. Seglskipastýri og aðrar sæfaraskreytingar á borð við reipi eru á veggjum. Gestir sitja á barstólum við lítil borð. Dansgólfið er mjög lítið. (D5)
Blue Note
Næturklúbbar í Amsterdam eru ekki merkilegir í augum þeirra, sem hafa heimsótt slíka í París eða New York. Hinn gamli, trausti klúbbur í Amsterdam er í kjallara við hlið veitingahússins Borderij (sjá bls. 38), rétt við Leidseplein. Hann heitir Blue Note. Þar lék síðast topplaus stúlknahljómsveit fyrir hefðbundnu sjói, sem getur varla hneykslað neinn nú til dags. Sérfræðingar segja, að Blue Note sé enn skásti kosturinn hér í borg, enda er nóg af svikaklúbbunum. (C-D4)
1984 og 1992
© Jónas Kristjánsson