Án ábyrgðar

Greinar

Menn hafa ekki orðið upplýstari um stöðu ríkisfjármála, þótt þeir hafi reynt að fylgjast með deilu núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra um halla ríkisfjármála á valdatíma þeirra. Helzt er, að menn hafi sannfærzt um, að alltaf sé unnt að framleiða nýjar tölur.

Mikilvægt er, að Ríkisendurskoðunin stuðli ekki að slíku moldviðri með kæruleysislegri útgáfu á tölum. Þegar hún breytir um reikningsaðferðir, þarf hún að hafa kafla um, hvernig gamla reikningsaðferðin hefði komið út, til að létta fólki samanburð milli ára.

Raunar eru sífelldar breytingar á reikningsaðferðum til þess fallnar að rugla fólk í ríminu og gera lukkuriddurum stjórnmálanna kleift að þyrla upp ryki til að hylja mistök sín. Festa í reikningsaðferðum er nauðsynleg á þessu sviði, svo sem raunar í öðrum fræðigreinum.

Stundum er eins og stjórnmálamenn og embættismenn taki óvart saman höndum um að flækja mál sem mest fyrir fólkinu í landinu. Hin óskráða og ómeðvitaða vinnuregla þeirra virðist hljóða svo: “Af hverju hafa hlutina einfalda, þegar hægt er að hafa þá flókna.”

Embættismenn hafa verið að vinna að hugmyndum um ríkissparnað. Ein hugmynd þeirra er að flytja 775 milljón króna verkefni til sveitarfélaga án þess að flytja tekjur til þeirra á móti. Þetta er gamalkunn aðferð til að spara fyrir hönd allra annarra en sjálfs sín.

Erfitt er að taka þá embættismenn alvarlega, sem framleiða tillögur um tilfærslu á útgjöldum, þegar þeir eru beðnir um tillögur um sparnað útgjalda. Þeir virðast vera brenndir sama ábyrgðarleysinu og lukkuriddararnir, sem örlögin gera að ráðherrum í þessu landi.

Fjármálaráðherra hótaði fyrir helgina, að ríkisstjórnin mundi framvegis gefa út bráðabirgðalög í þinghléum, þótt sá ósiður hafi verið lagður niður í nálægum löndum og þótt stjórnarskrá og þingskapalögum hafi verið breytt hér í fyrra til að gera bráðabirgðalög óþörf.

Ef fjármálaráðherra telur, að setja hefði átt meiri takmörk við ræðutíma þingmanna, þegar þing er kallað saman til að afgreiða mál, sem áður voru leyst með bráðabirgðalögum, á hann að vinna slíkum hugmyndum fylgi innan þingsins, en ekki hunza þingskapalögin.

Öll röksemdafærsla ráðherrans í máli þessu var samfelld hundalógík. Stjórnarskránni hefur verið breytt og ný þingskapalög hafa verið sett, beinlínis til að gera bráðabirgðalög óþörf. Það er út í hött að koma á eftir og segjast ekki geta notað þessar nýju reglur.

Ef ráðherra telur, að ekki sé hægt að nota nýleg lög, af því að þau séu svo seinvirk og af því að stjórnarandstaðan tali of mikið, ætti hann að láta af þeim sið að brjóta lýðræðishefðir um leið og þær verða til og fá sér heldur vinnu á öðrum vettvangi en sjálfs lýðræðisins.

Raunar gildir það um flesta oddvita stjórnmálanna innan stjórnar og utan, svo og um marga helztu embættismenn ríkisins, að ástæða er til að óska sér, að þeir störfuðu á einhverjum öðrum vettvangi, þar sem ætla mætti, að minna tjón hlytist af völdum þeirra.

Engin ein meinsemd í efnahagslífi þjóðarinnar er verri en getuleysi stjórnmálamanna og embættismanna á sviði ríkisfjármála, enda er ríkið stærsta fyrirtæki landsins. Ráðherra fram af ráðherra hafa ríkisfjármálin verið í steik og virðast fremur fara versnandi.

Æðsta stjórn ríkisins hefur of lengi verið mörkuð ábyrgðarleysi og hentistefnu burtreiðarmanna, sem telja ráðherradóm ekki vera starf, heldur lífsstíl.

Jónas Kristjánsson

DV