Án virðingar og aga

Greinar

Ríkisstjórnin nýtur ekki virðingar og trausts svokallaðra stuðningsmanna sinna á Alþingi. Þeir standa margir hverjir uppi í hárinu á henni. Hún á í erfiðleikum í hverju málinu á fætur öðru, allt frá sjómannaafslætti og námsgjöldum yfir í síldarsölu og sölu Ríkisskipa.

Verkstjórn af hálfu stjórnarflokkanna er ekki greindarleg á því þingi, sem nú stendur. Óþarfa yfirgangur þingforseta og þingflokksformanna gagnvart stjórnarandstöðu, til dæmis í vali í stjórnunarstöður, veldur því, að samstarf um rennsli mála er lítið sem ekkert.

Er oddvitar stjórnarflokkanna kjósa að hunza stjórnarandstöðuna með þeim hætti, sem gerðist í haust, er þeim mun nauðsynlegra fyrir þá að hafa aga á sínum eigin mönnum. Það hefur brugðizt og nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna hlíta ekki hefðbundnum aga.

Mál eru orðin svo brengluð á Alþingi, að ein þingnefnd er farin að senda bænarskrár út í bæ eins og hver annar þrýstihópur. Hún hefur beðið Seðlabankann um að skipta um skoðun á því, hvort rétt sé af ríkinu að ábyrgjast síldarkaupalán Landsbanka til Rússa.

Hefðbundið er, að þingnefndir taki við frumvörpum og tillögum, sem koma fram; kalli á munnlegar og skriflegar athugasemdir utan úr bæ; síi sjónarmið þrýstihópanna; og geri síðan breytingar á þessum frumvörpum og tillögum fyrir endanlega afgreiðslu þeirra á þingi.

Þingnefndir eru þjónustunefndir þings, innanhússnefndir þess. Ef þær taka nú upp þann sið að fara sjálfar að þrýsta á aðila úti í bæ, er hætt við, að sumir aðilar úti í bæ hætti alveg að skilja, hvaðan á sig stendur veðrið. Hvernig ber að túlka bænarskrár þingnefnda?

Bandormur ríkisstjórnarinnar er lykillinn að framkvæmd stefnu hennar á þessu ári. Hann tafði afgreiðslu fjárlaga fyrir jól og er sjálfur enn ekki kominn í gegn. Dapurlegt gengi hans er bezta dæmið um, að ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á lífi sínu og vegferð sinni.

Tímabært er, að ráðherrar stjórnarflokkanna, verkstjórar þeirra á Alþingi og uppreisnargjarnir þingmenn þeirra komi saman til að finna nýjar vinnureglur um meðferð ágreiningsefna innan stjórnarliðsins, ef hinar gömlu duga ekki lengur í nýju virðingarleysi.

Þrennt þarf að koma til. Þingmenn verða að reyna að hafa hemil á sjálfstæði sínu eða fella það í einhvern formfastan farveg, sem gerir kleift að starfrækja ríkisstjórn í þessu landi. Þá þarf að vera á Alþingi verkstjórn, sem tengir saman ríkisstjórn og þingmenn.

Í þriðja lagi verður ríkisstjórn að starfa þannig, að hún njóti sæmilegs trausts, bæði inni á þingi og úti í bæ. Það gerir þessi ríkisstjórn alls ekki. Raunar hefur hún hafið feril sinn að þessu leyti með meiri hrakföllum en nokkur önnur ríkisstjórn á síðasta mannsaldri.

Ráðherrarnir eru persónulega ekki nógu siðaðir og hafa til dæmis ekki breytt undarlegum tekjuöflunarleiðum sínum. Þeir hafa ekki afnumið ferðahvetjandi greiðslur til sín. Sumir eru ölvaðir á almannafæri. Allt þetta smækkar ráðherrana í almenningsálitinu.

Í niðurskurði ríkisgeirans hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að leggja til atlögu við hina sterku, það er að segja forréttindagreinar atvinnulífsins, og beinir spjótum sínum eingöngu að hinum veiku, börnum, gamalmennum, sjúklingum, öryrkjum og námsmönnum.

Siðblind ríkisstjórn með brenglaða útgáfu af frjálshyggju nýtur ekki trausts og nær ekki þeim aga á Alþingi, sem framkvæmdavaldi er brýnn í þingræðiskerfi.

Jónas Kristjánsson

DV