Ánægjuleg úrsögn.

Greinar

Flestum ríkjum þriðja heimsins ráða harðstjórar, sem kúga almenning af mun meiri harðneskju en nýlenduveldin gerðu á sínum tíma. Þeir beita her og lögreglu til að þverbrjóta hvert einasta mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna.

Glæpamennirnir, sem stjórna meirihluta ríkja heims, vilja ekki sæta því, að vestrænir fjölmiðlar skýri frá framferði þeirra, allt frá morðum og misþyrmingum yfir í stuld á þróunarfé til innlagnar í svissneska banka.

Í stað mannréttinda tala þeir um þjóðréttindi. Þeir segja, að þjóðir þeirra sæti enn óbeinni nýlendukúgun, þar á meðal skoðanakúgun hinna öflugu fjölmiðla á Vesturlöndum, sem velti sér upp úr ótíðindum frá þriðja heiminum.

Hugmyndafræðingar harðstjóranna hafa náð sérstaklega miklum árangri í Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar í stofnun skilja menn ekki, að hin svonefndu þjóðréttindi eru í raun kúgunarréttindi harðstjóranna.

Undir stjórn M’Bow, forstjóra Unesco, hefur verið hrúgað upp vanhæfu starfsliði, sem rekur and-vestræna hugmyndabaráttu í þágu glæpamannanna, er ráða flestum ríkjum þriðja heimsins. Engin stofnun Sameinuðu þjóðanna er verr rekin.

Ferðinni ræður bandalag sovézkra leppríkja, arabaríkja og harðstjórnarríkja þriðja heimsins. Sem dæmi um ofstopann má nefna, að Unesco styrkir ekki fornleifagröft í Ísrael, þótt þar sé eftir meiru að slægjast en víðast hvar.

Fulltrúar vestrænna menntamálaráðuneyta hafa staðið sig illa í Unesco. Þeir eiga erfitt með að skilja, að hinir sléttgreiddu þriðjaheimsmenn í stofnuninni eru að gæta hagsmuna harðstjóra, en ekki kúgaðrar alþýðu.

Sem dæmi um þetta skilningsleysi má nefna fulltrúa Íslands, sem nýlega var verðlaunaður með stjórnarsæti í þessari furðulegu stofnun. Andri Ísaksson sagði í blaðaviðtali, að úrsögn Bandaríkjanna hefði komið sér á óvart!

Öðrum kemur þessi úrsögn ekki á óvart. Menn hafa verið meira hissa á langlundargeði Bandaríkjamanna sem hafa greitt fjórðung kostnaðarins við skipulegar árásir Unesco á helztu hugsjónir vestræns þjóðskipulags.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið lagt til, að Ísland segi sig úr hinni ömurlegu stofnun. Fráleitt er, að lýðræðisþjóð eins og við sé að styðja stofnun, sem traðkar á mannréttindahugsjón Sameinuðu þjóðanna.

Þetta hefur ekki náð fram að ganga, enda eru í húfi ferðahagsmunir íslenzkra embættismanna. Og úrsögn Íslands hefði litla athygli vakið í samanburði við hin gleðilegu stórtíðindi, að Bandaríkin séu nú að kveðja Unesco.

Vonandi feta Bretar í kjölfar Bandaríkjamanna og síðan fleiri þeirra 25-30 þjóða, sem búa við mannréttindi í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá væri von á, að fljótlega færu að kólna stjórnarstólar íslenzkra fulltrúa.

Við þyrftum ekki frekar en Bandaríkjamenn að draga úr fjárstuðningi við góð mál, sem eru á starfssviði Unesco. Við getum afhent þessa peninga beint og milliliðalaust, án þess að brenna þá upp í skriffinnskunni.

Íslendingar eiga að vísa til mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ganga úr Unesco, sem er hin krumpaðasta af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Síðan getum við kannað, hvort ástæða sé til að kveðja fleiri harðstjóraklúbba af því tagi.

Jónas Kristjánsson.

DV