Spilltu gamlingjarnir í alþjóða ólympíunefndinni munu koma saman á föstudaginn til að ákveða, að andhverfa gríska ólympíuandans og helztu óvinir mannkyns um þessar mundir fái að halda ólympíuleikana í Peking árið 2008 og blakkeppnina á Torgi hins himneska friðar.
Ólympíuleikarnir eru grísk arfleifð með rætur í opnu og gegnsæju þjóðfélagi laga og réttar, dreifðu valdi og vel skilgreindum mannréttindum. Þeir eru samofnir lýðræðinu, sem var fundið upp í Grikklandi hinu forna og hefur löngu síðar blómstrað á Vesturlöndum og víðar.
Gríski andinn blómstrar hins vegar engan veginn í Kína, lokuðu eins flokks ríki, þar sem valdi er safnað á einn stað og stjórnað með gerræði, aftökum og pyndingum í stærri stíl, en þekkist annars staðar í heiminum og þar sem stjórnvöld eiga í útistöðum við nágrannaríkin.
Harðstjórar á borð við stjórnendur Kína hafa alltaf viljað fá tæki til að breiða yfir muninn á stjórnarfari þeirra og vestræna lýðræðinu frá Grikklandi ólympíuleikanna. Frægasta dæmið um það er Hitler, sem tókst að halda ólympíuleika nazismans í Berlín árið 1936.
Þrátt fyrir mótbyr í árangri Jesse Owens tókst Hitler í stórum dráttum ætlunarverkið. Hann auglýsti þjóðskipulag nazismans heima og erlendis, þjappaði þjóðinni í kringum sig og veikti mótstöðuvilja annarra stórvelda. Ólympíuleikar hans voru upphaf stríðsins mikla.
Stjórnarfarið í Kína fer versnandi um þessar mundir. Ráðamenn hafa alveg afklæðst gamalli hugmyndafræði og stefna nú eingöngu að varðveizlu valda sinna. Þeir óttast, að tilslakanir í stíl Gorbatsjovs muni leiða til valdamissis og þess vegna herða þeir tökin jafnt og þétt.
Ofsóknir gegn trúuðu fólki fara vaxandi, einkum gegn kristnum kaþólikkum og Falun Gong. Fylgismenn slíkra hreyfinga eru fangelsaðir hundruðum saman og láta lífið í pyndingum tugum saman. Ofsóknir eru nýlega hafnar gegn vísindamönnum, sem hafa vestræn sambönd.
Kínastjórn berst líka gegn Internetinu og leggur mikla áherzlu á að loka aðgangi að vefútgáfum vestrænna fjölmiðla og samtaka, sem hafa pólitískt gildi. Hún lítur á alla samkeppni um trú, þekkingu og skoðanir sem árás á valdastöðu sína. Hún er óvinur mannkyns númer eitt.
Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs lét ógnarstjórnin í Kína taka 1.780 menn af lífi, miklu fleiri en teknir voru af lífi í öðrum hlutum heimsins samanlagt. Hún lætur setja sjálfstætt hugsandi fólk á geðveikrahæli, þar sem persónur þeirra eru eyðilagðar með lyfjagjöf.
Meðferðin á Tíbetum er vel þekkt um heim allan, sömuleiðis ágengni Kínastjórnar gagnvart nágrannaríkjunum, einkum þeim, sem eiga lönd að Kínahafi. Kínastjórn er ekki aðeins ógnarstjórn inn á við, heldur einnig friðarspillir og óróaafl í fjölþjóðlegum samskiptum.
Tákn stjórnarfarsins í Kína eru skriðdrekarnir, sem óku yfir friðsama mótmælendur á Torgi hins himneska friðar fyrir tólf árum. Hafa má það til marks um niðurlægingu ólympíunefndarinnar, að ætlunin er að hafa keppnina í blaki ofan á tannaförum skriðdrekanna.
Alþjóða ólympíunefndin er heimskunn fyrir spillingu og mútuþægni, einkum á valdaskeiði núverandi formanns, Juans Antonio Samaranch, sem hefur breytt þeim í fjárhagslegt hóruhús, þar sem hlaupið með ólympíueldinn er selt á 3.000 dollara kílómetrann.
Þetta alþjóðlega einkennistákn spillingar mun á föstudaginn kunngera, að það ætli að leyfa hættulegustu harðstjórum heims að endurtaka leikana frá 1936.
Jónas Kristjánsson
DV