Andskotast í útlendingum

Greinar

Samband Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur hríðversnað síðan George W. Bush tók við forsetavöldum í Bandaríkjunum í upphafi þessa árs og voru þó ágreiningsefnin næg fyrir. Í fyrsta skipti er talað í alvöru um, að leiðir fari að skiljast með þessum bandamönnum.

Hæst ber svik Bush við kosningaloforð sitt um stuðning við Kyoto-sáttmálann um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Svikin framdi hann að undirlagi stóru olíufélaganna í Texas, sem voru umsvifamest í greiðslu kostnaðar við kosningabaráttu hans.

Áður en Bush komst til valda voru Bandaríkin og Vestur-Evrópa hægt og bítandi að ná samkomulagi um staðfestingu sáttmálans, sem hefði jafngilt því, að hann kæmist til framkvæmda. Það tókst ekki á fundi í Haag í vetur, en ætlunin var að reyna aftur í Bonn í sumar.

Vestur-Evrópa telur sanngjarnt, að iðnríki Vesturlanda taki fyrsta skrefið í minnkandi útblæstri, þar sem þau bera ábyrgð á rúmlega helmingi útblástursins og Bandaríkin ein ábyrgð á fjórðungi. Eðlilegt sé, að þróunarlöndin komi ekki til skjalanna fyrr en í annarri umferð.

Næsthæst ber fráhvarf Bush frá tilraunum til sátta milli Suður- og Norður-Kóreu, þrátt fyrir eindregna hvatningu Kim Dae Jung, forseta Suður-Kóreu og friðarverðlaunahafa Nóbels í fyrra, um að halda áfram. Raunar var fráhvarfið blautur hanzki í andlit Kim Dae Jung.

Þetta kom illa við Vestur-Evrópu, einkum Þýzkaland, sem telur sig hafa góða reynslu af samskiptum innan klofins ríkis, þegar Austur-Þýzkalandi var haldið á lyfjum í formi vestræns fjármagns, unz landið hrundi í fangið á Vestur-Þýzkalandi og vestrænni hugmyndafræði.

Fyrir valdatöku Bush voru ýmis ágreiningsefni milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. Hæst ber þar eindreginn peninga- og hernaðarstuðning Bandaríkjanna við hryðjuverkaríkið Ísrael, sem þverbrýtur alla alþjóðasamninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Samband Ísraels og Bandaríkjanna hindrar eðlilega nálgun í samskiptum hins vestræna heims og heims múslíma. Ráðamenn Vestur-Evrópu höfðu vænzt þess, að Bush viki frá stefnu Bills Clinton, sem var mjög háður fjárstuðningi Ísraelsvina í kosningabaráttu sinni.

Bush hefur hins vegar hvergi vikið frá stuðningi Bandaríkjanna við krabbamein Miðausturlanda. Hann hefur ekki heldur vikið frá tilraunum forvera síns til að beita Vestur-Evrópu viðskiptaþvingunum til að hindra merkingar á umbúðum erfðabreyttra matvæla.

Erfðabreytt matvæli eru svo ný af nálinni, að rannsóknir á hugsanlegri skaðsemi þeirra eru skammt á veg komnar. Fyrstu niðurstöður benda til, að þau geti aukið ofnæmi og óþol hjá fólki. Þess vegna vill Vestur-Evrópa, að erfðabreytt matvæli séu greinilega merkt á umbúðunum.

Bardagi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur oft verið harður í Heimsviðskiptastofnuninni og stundum erfitt að sjá, hvor aðilinn sé óbilgjarnari. Oft leynast dulin viðskiptahöft í reglugerðum, sem sagðar eru settar af öðrum tilefnum. Nú er talið, að harkan færist í aukana.

Bush er forseti stórauðugra sérhagsmunahópa, sem vilja beita ríkisvaldinu fyrir sig. Þar eru olíurisar og lyfja-risar einna fremstir í flokki. Fautaskapur þeirra kann að valta yfir þriðja heiminn, en er síður en svo líklegur til að fá Vestur-Evrópu til að leggja niður rófuna.

Verra er, ef ímyndarfræðingar Bush hafa rök fyrir að telja hann auka fylgið heima fyrir með því að andskotast í útlendingum yfirleitt, öðrum en Ísraelsmönnum.

Jónas Kristjánsson

DV