Stjórnmálamenn eru oft réttilega sakaðir um að lofa upp í ermina á sér og tala jafnvel þvert um hug sér. Þessar ódýru aðferðir við að afla sér atkvæða eru smámunir í samanburði við þær aðferðir, sem upp á síðkastið hafa þróazt í framúrstefnulöndum áróðurstækninnar.
Þegar formaður Framsóknarflokksins gerði milljarð til fíkniefnavarna að höfuðmáli síðustu kosningabaráttu, var hann að lofa upp í ermina á sér og tala þvert um hug sér. Eftir kosningar hefur milljarðurinn ekki komið í ljós og ekki heldur nein viðleitni formannsins í þá átt.
Framganga formannsins var ekki annað en ýkt útgáfa ómerkilegheita, sem lengi hafa tíðkazt. Menn hafa löngum lofað því, sem þeir hafa ekki ætlað að efna. Nú er hins vegar farið að tíðkast að lofa einhverju, þótt menn stefni ótrauðir að því að framkvæma hið gagnstæða.
Bush Bandaríkjaforseti er fyrirtaks dæmi um skipulega notkun og mikinn árangur þessarar nýju tegundar áróðurstækni. Sem ríkisstjóri í Texas hafði hann slæman feril í umhverfismálum. Samt rak hann baráttuna fyrir forsetakosningarnar sem einlægur umhverfisvinur.
Í þeim tilgangi tefldi hann rándýrri áróðurshrinu gegn keppinaut sínum í forkosningum repúblikana, John McCain, þar sem því var haldið fram, að McCain mundi ekki standa sig í umhverfismálum. Þessi hrina réð úrslitum um, að Bush náði tilnefningu flokks síns.
Þegar Bush var setztur í forsetastól, sneri hann umsvifalaust við blaðinu. Hann leyfði umfangsmikla olíuborun í friðlöndum náttúruvinja í Alaska. Hann afturkallaði aðild Bandaríkjanna að Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Í kosningabaráttunni fann Bush upp slagorð “brjóstgóðrar” íhaldssemi og gaf í skyn, að hann mundi gæta hagsmuna þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þar með sló hann gamalkunnugt vopn úr höndum demókrata, sem hingað til hafa talið sig fulltrúa smælingjanna.
Eftir kosningar sneri Bush skyndilega við blaðinu. Hann hafði frumkvæði að nýjum skattalögum, sem eru eindregið höll undir þá, er breiðust hafa bökin í landinu. Hann hafði frumkvæði að stórfelldum niðurskurði útgjalda í málaflokkum velferðarþjóðfélagsins.
Aðferðina notar hann ekki bara á innlendum markaði. Ímyndar- og áróðursfræðingar hans telja, að aðgæzluleysi á þessu sviði sé ekkert einkamál bandarískra kjósenda, heldur sé umheimurinn yfirleitt haldinn botnlausri trúgirni, þar á meðal ráðamenn í Vestur-Evrópu.
Að undanförnu hefur Bandaríkjaforseti ferðazt um Evrópu og ekki notað neitt slagorð oftar en það, að hann sé að hafa “samráð” við leiðtoga evrópskra ríkja. Ætla mátti eftir þessu hugtaki, að hann ætlaði að taka tillit til evrópskra sjónarmiða í gerðum sínum á næstunni.
Þvert á móti kom í ljós í hverju einasta smáatriði, að Bush gaf ekki eftir tommu af þeim áformum, sem mestri andstöðu hafa mætt í Evrópu. Hann ætlar í öllum smáatriðum að fylgja nákvæmlega þeirri stefnu, sem hann fylgdi, áður en svokölluð “samráðs”-ferð hófst.
Andstaða hans við Kyoto-sáttmálann er nákvæmlega jafn hörð sem áður. Fyrri ákvarðanir hans um eldflaugavarnir standa nákvæmlega eins og þær voru. Hann ætlar hvorki að taka þátt í stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna né alþjóðabanninu gegn jarðsprengjum.
Alvarlegast er, að hvorki almenningur né leiðtogar virðast átta sig á, að framvegis má búast við, að í pólitík séu orð og verk ekki óskyld, heldur beinar andstæður.
Jónas Kristjánsson
DV