Andvana þrælaþjóð

Greinar

Íslendingar eru eins og klipptir út úr bókum Guðbergs Bergssonar. Þeir eru saddir og sljóir, lamaðir af yfirtíð og sjónvarpsglápi. Sumir rithöfundar hafa fyrir satt, að þetta hafi gerzt með stríðsárakynslóðinni, en aðrir segja Íslendinga öldum saman hafa verið þrælslundaða.

Einstaka ljós sést í þokunni, til dæmis tilraun Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til að losa bíleigendur undan áþján fáokunarhrings tryggingafélaganna. Sú tilraun mun þó ekki koma í veg fyrir, að meirihluti bíleigenda heldur áfram að þéna undir hefðbundna tryggingaherra.

Ef almennt væri hryggur í þjóðinni, hefði hún flykkzt í Neytendasamtökin og Skattgreiðendafélagið og kúgað þjóðarleiðtogana til að láta af þjónustu við sérhagsmuni. Hún hefði flykkzt í stjórnmálaflokka og rutt brott ómögum og smákóngum, sem þar hafa safnazt fyrir.

Þjóðin hefur örlög sín á valdi sínu, en kærir sig ekki um að notfæra sér það. Menn taka í staðinn því, sem að höndum ber, eins og hverju öðru hundsbiti og reyna að kría út meiri yfirtíð til að halda uppi lífskjörum á erfiðum tímum. Þeir taka ekki ábyrgð á örlögum sínum.

Fólk stundar lífsstíl, sem er gersamlega út í hött, og ætlazt síðan til að heilbrigðis- og tryggingageirinn komi með færibandið, sturti sér inn á sjúkrahús í uppskurði og eiturlyfjameðferð og haldi sér síðan uppi með örorkubótum og sjúkradagpeningum. Það ber enga ábyrgð sjálft.

Ein afleiðing sofandaháttar og þrælslundar þjóðarinnar er, að stjórnmálin snúast ekki um almannahagsmuni, heldur um auð og völd, auð sérhagsmunanna og völd stjórnmálamannanna til að stunda geðþótta út og suður, þvert á vestræn lýðræðis- og markaðslögmál.

Önnur afleiðing er, að þjóðfélagið er illa rekið og þolir ekki há laun. Það er svo illa statt, að reynt er að hampa lágum daglaunum þjóðarinnar framan í erlenda fjárfesta. Láglaunakerfið er beinlínis orðið að landkynningu. En yfirtíðin bjargar öllu að mati imbakassaimbanna.

Tugum milljarða króna er brennt á hverju ári með hindrunum hins opinbera í vegi markaðskerfisins, svo sem innflutningsbanni, innflutningshöftum, innflutningstollum, millifærslum, kvótum, búmarki, aflamarki, sóknardögum, reglugerðum og aftur reglugerðum.

Markmiðið með öllu þessu rugli er, að sérhagsmunirnir geti haft það gott og þurfi ekki að taka til hendinni við að bæta reksturinn. Þess vegna koðnar flest framtak niður í fáokun og einokun, meðan þjóðin ypptir öxlum og stundar sína yfirtíð og sitt sjónvarpsgláp.

Meðal þeirra fáu, sem kunna að reka fyrirtæki, eru nokkrir gamlir kommúnistar austur í Neskaupstað, sem græddu í fyrra hundruð milljóna á hlutabréfabraski og rekstri frystihúss af sama tagi og aðrir reka með dúndrandi tapi. Þetta sýnir vel litróf vannýttra möguleika.

Ísland gæti verið gósenland, ef Íslendingar kærðu sig um. Þjóðin er að vísu svo fámenn, að hún hefur ekki greind til að manna alla pósta, sem máli skipta. En það hlýtur að vera hægt að fá miklu meira vit í pólitíkina, í blýantsnögunar-stofnanirnar og í einkaframtakið.

Svo illa er mannað í toppstöðum þjóðfélagsins, að það er orðinn óskadraumur margra, að landið álpist inn í Evrópusambandið, svo að íslenzkir smákóngar geti síður haldið úti séríslenzku böli á borð við áðurnefndar markaðshindranir og verðmætabrennslu af öðru tagi.

Meðan kjósendur eru meira eða minna andvana í yfirtíð og sjónvarpsglápi, breyta sér ekki úr þrælum í borgara, taka enga ábyrgð á þjóðfélaginu og framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV