Hefðbundnir fjölmiðlar taka samkeppni nýmiðla ekki nógu alvarlega. Heilar kynslóðir verða fullorðnar án þess að lesa prentmiðla og sjá ljósvakamiðla. Þær lesa ekki, heldur skanna texta á skjá. Þær taka persónulega miðla á borð við Facebook og YouTube og MySpace fram yfir hefðbundna fréttamiðla. Nota GoogleNews í staðinn fyrir fréttamiðla. Vandinn er ekki bara, að ungt fólk vilji ekki borga fyrir fjölmiðla. Það kærir sig hvorki um að sjá né lesa hefðbundna miðla. Aukin nærvera hefðbundinna fjölmiðla á vefnum jafnar þetta ekki. Enn síður dugar hún í tekjuöfluninni. Google hirðir aurinn.