Annar framsóknaráratugur.

Greinar

Hið jákvæðasta við nýju ríkisstjórnina er, að hún mun, eftir fimm ára hlé, koma aftur á skynsamlegri stefnu í varnarmálum og stóriðju. Hún mun á þessum sviðum reka stefnu, sem er í samræmi við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.

Hætt verður þráteflinu um olíugeyma í Helguvík og flugstöð á Keflavíkurvelli. Hvort tveggja verður reist, olíugeymarnir til að draga úr mengunarhættu og flugstöðin til að skilja á milli herstöðvar og utanlandsflugs.

Gerð verður einlæg tilraun til að semja um, að orkuverð til álversins hækki verulega og að álverið verði stækkað með fjármagni nýs eignaraðila. Um leið verður reynt að fitja upp á nýrri stóriðju, er gæti komið okkur að gagni.

Í efnahagsmálum er minni ástæða til bjartsýni. Hin nýja stjórn er engin viðreisnarstjórn, sem rífur niður múra skipulags- og ríkishyggju. Hún opnar ekki hagkerfið og færir ekki verðmyndun í eðlilegt markaðshorf.

Lífskjaraskerðing er skammgóður vermir, ef henni fylgir ekki frelsisþeyr í efnahagslífinu, svo að innan tíðar hverfi skerðingin í öldu nýrrar lífskjarasóknar, svo sem varð þegar á fyrsta kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar.

Hin nýja ríkisstjórn hefur gert málefnasamning í anda Framsóknarflokksins. Samningurinn er gegnsýrður ríkis- og skipulagshyggju, svo sem ljósast kemur fram í, að laun á landi og sjó verða að verulegu leyti ákveðin með lögum fram á næsta vor.

Með þessu á að auka kjaraskerðingu ársins úr 10% í 15% eða töluvert umfram minnkun þjóðartekna á mann. Um leið viðurkenna stjórnarflokkarnir með margvíslegum hliðarráðstöfunum, að láglaunafólkið mun ekki þola skerðinguna.

Verðstöðvunarstefna hinnar nýju stjórnar mun vafalaust, eins og allar fyrri slíkar, leiða til skakkrar verðmyndunar, meðal annars til niðurgreiðslu á orku með erlendum lánum, sem börnum okkar verður gert að endurgreiða.

Engin tilraun verður gerð til að hrófla við verðkerfi landbúnaðarins, sem kostar þjóðina árlega nokkrar Kröflur í formi innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, fjárfestingarstyrkja, forgangslána og lánskjara.

Hinir bjartsýnu mættu gjarna hugleiða, hvort þeir telji líkur á, að hin nýja ríkisstjórn muni stöðva tilraun hagsmunasamtaka hins hefðbundna landbúnaðar til að koma á Kröflukerfinu í framleiðslu og sölu á eggjum.

Miklu meiri líkur eru á, að krumla afturhaldsins muni einnig ná til kjúklingaræktar og svínaræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi þola enn frekari kárínur af landbúnaði en þeir hafa mátt þola hingað til.

Engin alvarleg tilraun verður gerð til að hindra hrun sjávarútvegsins niður í eymd landbúnaðar. Engin róttæk leið verður farin til að samræma sókn og stofna, gæði og verð. Hin dauða skipulagshyggja mun áfram ríkja.

Meðal annars vegna framangreindra atriða verður í landinu litil fjármunamyndun til að efla margvíslegan iðnað, svo sem orkufrekan iðnað, rafeindaiðnað, fiskirækt og ylrækt. Skorta mun forsendur nýrrar lífskjarasóknar.

Í efnahagsmálum táknar hin nýja stjórn, að annar framsóknaráratugurinn bætist við. Haldið verður fast við ríkis- og skipulagshyggju, en frelsis- og markaðshyggja kemst ekki að. Þannig er málefnasamningurinn ömurlegt veganesti.

Jónas Kristjánsson.

DV