Annars flokks borgarar

Greinar

Reykvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins eru annars flokks borgarar í landinu. Ríkisvaldið er á ýmsa vegu misnotað gegn þessu fólki. Vegur þar þyngst eindregin byggðastefna núverandi stjórnvalda, einkum í vegagerð og flutningi opinberra stofnana af svæðinu.

Ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið falið að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa flokkinn í borgarstjórn í von um betra veður af hálfu ríkisstjórnarinnar, þótt einstakir ráðherrar kunni stundum að blindast af hatri á núverandi valdhöfum borgarinnar.

Hættulegt væri að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa rétt, því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn höfuðborgarsvæðinu koma jafnmikið niður á nágrannabyggðum Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er víða við völd, ýmist einn sér eða í samfloti með öðrum flokkum.

Hitt er hins vegar rétt, að flokkar ríkisstjórnarinnar telja sér útlátalaust að níðast á höfuðborgarsvæðinu og íbúum þess. Ráðherrarnir mundu ekki haga sér eins og þeir gera, ef kjósendur létu flokka þeirra gjalda fyrir að gera þá að annars flokks borgurum í landinu.

Aldrei hefur verið sett fram sannfærandi skýring á geðleysi Reykvíkinga og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins gagnvart ríkisvaldinu. Ef til vill hafa þeir hreinlega keypt kenningar um, að þeir séu sjálfir eins konar úrhrök íslenzkrar þjóðmenningar og eigi ekki betra skilið.

Við hverja breytingu kjördæmaskipunarinnar hefur verið reiknað með, að aukinn þingstyrkur suðvesturhornsins mundi draga úr ofbeldi hins opinbera. Sú hefur ekki orðið raunin. Þingmenn svæðisins hafa möglunarlítið leyft stjórnvöldum að valta fram og aftur yfir kjósendur sína.

Næst verða þingmenn höfuðborgarsvæðisins helmingur allra þingmanna í landinu. Enn eru uppi vonir um, að ný tilfærsla leiði til óhlutdrægari viðhorfa stærstu stjórnmálaflokkanna í garð íbúanna á svæðinu, enda eru þeir mikill og vaxandi meirihluti kjósenda í landinu.

Ekkert bendir þó enn til, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hyggist láta stjórnmálaflokka taka afleiðingum gerða sinna gegn svæðinu. Við munum því áfram þurfa að sæta ráðherrum á borð við núverandi samgönguráðherra og núverandi iðnaðar- og stóriðjuráðherra.

Sturla Böðvarsson er dæmigerður fulltrúi aflanna, sem kjósendur í Reykjavík efla til valda í landinu. Hann leggur sig í líma við að hindra brýnustu samgöngumannvirki í Reykjavík til að eiga fyrir jarðgöngum úti á landi, þvert gegn sjónarmiðum um arðsemi og umferðaröryggi.

Það er ekki bara hagsmunamál suðvesturhornsins að koma frá völdum þeim þingmönnum, sem stuðlað hafa að ráðherradómi hatursmanna höfuðborgarsvæðisins, heldur er það líka þjóðarmál, að höfuðborgarsvæðið sé samkeppnishæft við erlenda segla atgervis og peninga.

Höfuðborgarsvæðið er eini staðurinn á landinu, sem getur keppt við útlenda staði um atgervi og peninga á tímum hnattvæðingar. Því er beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt, að íbúar svæðisins láti hið bráðasta af geðleysi sínu og bíði færis að reka þingmenn sína úr starfi.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að velja sér allt aðra og betri þingmenn, sem tryggja þjóðinni afturhvarf frá öllum þáttum hinnar skaðlegu byggðastefnu núverandi stjórnvalda.

Jónas Kristjánsson

FR