Næturlíf um helgar er ekki mikið í miðbæ Reykjavíkur í samanburði við ýmsa miðbæi í útlöndum. Í miðbænum í Madrid á Spáni er hundrað sinnum stærra flatarmál fullt af mörg hundruð sinnum fleira fólki, sem heldur virka daga uppi dampi til klukkan fimm að morgni.
Aðaltorgið í Madrid, Plaza de Puerta del Sol, er iðandi af fólki allan sólarhringinn nema milli fimm og sjö á morgnana. Þetta er þeirra Lækjartorg, miðstöð strætisvagna og neðanjarðarlesta. En bragurinn á góðviðrisnótt er annar en hann er á Lækjartorgi Íslendinga.
Í Madrid og annars staðar á meginlandi Evrópu er ekki til siðs, að fólk ráfi slyttingslega um götur og torg eins og aumingjar. Þar ekki til siðs, að fólk veifi áfengisflöskum, gargi og þrugli. Þar er ekki til siðs, að fólk slefi af góðsemi í eyrað á náunganum eða berji hann til óbóta.
Á meginlandi Evrópu er til siðs, að fólk, sem er að skemmta sér, ber sig vel. Sumt er undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna, en það hagar sér samt ekki mjög ólíkt öðru fólki. Það lætur að minnsta kosti ekki eins og apar. Það verður sér ekki til stórskammar.
Á Íslandi hefur hins vegar mótazt sú venja, að ungir sem gamlir geta afklæðzt persónuleikanum og hagað sér eins og fávitar. Þetta gera hinir fullorðnu heima hjá sér og unglingarnir úti á götu. Þetta er meinsemd, sem einkennir Íslendinga umfram margar aðrar þjóðir.
Sumir Íslendingar eru svo ruglaðir í ríminu, að ódrukknum finnst það bara fyndið að sjá ölæðishegðun sína á myndbandi, í stað þess að fyrirverða sig og verða að gjalti, svo sem efni standa til. Hér á landi vantar innri staðal fyrir hegðun fólks á almannafæri.
Víðar en á Íslandi er til fólk, sem kann ekki með áfengi að fara eða slettir úr klaufunum af öðrum ástæðum. Munurinn er sá, að þar er þjóðfélagslegt samkomulag um, hvaða hegðun sé innan marka og hver sé utan þeirra. Slangur, slef og garg eru utan þeirra.
Þetta er ekki unglingavandamál, því að hinir fullorðnu eru ekkert skárri. Heima hjá sér gefa þeir fordæmið, sem unglingar apa eftir á Lækjartorgi og í Austurstræti. Til þess að komast fyrir rætur meinsins þarf að koma upp mannasiðum hjá Íslendingum almennt.
Það er dæmigert fyrir óþolandi hugarfar Íslendinga, að lögreglustjóraembættið í Reykjavík skuli láta viðgangast, að miðbærinn sé eins og apabúr á nóttunni. Enn verra er, að það skuli láta viðgangast, að miðbærinn sé vígvöllur ribbalda og ofbeldismanna.
Hinn nýi borgarstjóri Reykjavíkur ætlar að láta verða eitt af sínum fyrstu verkum að semja við löggæzlu ríkisins um að hreinsa miðbæ Reykjavíkur af ófögnuði næturlífsins. Það er mikilvægt skref í rétta átt og felst í, að yfirvöld fari að neita að sætta sig við ástandið.
Hreinsun miðbæjarins leysir ekki þetta séríslenzka vandamál. Hún færir það að einhverju leyti til. Mergur málsins er þó sá, að hún væri angi af tilraun þjóðarinnar til að koma upp siðareglum í hegðun fólks, svo sem tíðkast meðal siðaðara þjóða í útlöndum.
Smám saman þurfum við að koma því inn hjá okkur sjálfum, að hvert okkar hefur persónuleika og virðingu, sem ekki má í ölæði kasta fyrir hunda og manna fætur. Annaðhvort þarf fólk að “halda” drykknum, svo notað sé amerískt orðalag, eða láta drykkinn eiga sig.
Við skulum hreinsa torg og götur, heimili og sálarkima, svo að næturlíf okkar geti færzt í heilbrigðara mynztur, sem við sjáum harvetna utan landsteinanna.
Jónas Kristjánsson
DV