Apabúrið hreinsað

Greinar

Borgarstjóri og lögreglustjóri Reykjavíkur hafa tekið saman höndum við að reyna að hreinsa apabúrið, sem myndast oft að næturlægi í miðbæ Reykjavíkur, er valtrandi, slefandi, gargandi, ælandi og berjandi lýður ráfar þar um og telur sig vera að skemmta sér ærlega.

Þótt næturlífið hér sé aðeins brot af næturlífi ýmissa erlendra borga að magni og tíma, tíðkast bara hér, að fólk afklæðist persónuleikanum alveg á almannafæri. Til dæmis er næturlíf margfalt fjölmennara í Madríd og stendur lengur fram á morgun, án slíkra vandræða.

Munur Íslendinga og margra annarra vestrænna þjóða á þessu sviði, er, að hér er algengast, að fólk kunni ekki með áfengi og önnur fíkniefni að fara. Annars staðar heldur fólk ráði og rænu og er umhverfi sínu ekki til ama, en hér hljótast af leiðindi og lögbrot.

Lögreglan í Reykjavík er nú loksins búin að viðurkenna, sem hún hefur hingað til staðfastlega neitað, að afbrotum fer ört fjölgandi í miðbæ Reykjavíkur. Í tilefni af samstarfinu við borgarstjóra hefur lögreglustjóri nú lagt fram óyggjandi tölur um einmitt þessa aukningu.

Í leiðurum þessa blaðs hefur áður verið lagt til, að lögreglan í Reykjavík gegni skyldu sinni og hreinsi miðbæ Reykjavíkur af ófögnuðinum, sem er að verða að einu helzta einkennistákni borgarinnar. Þetta gerðu víkingasveitir lögreglunnar í Amsterdam fyrir löngu.

Hér fá rónar hins vegar að gefa tón miðbæjarbragsins. Á daginn einkennist Austurvöllur og nágrenni vínbúðar Austurstrætis af gömlum rónum og á nóttunni einkennist allt Austurstræti af ungum rónum. Áfengisvandinn er til sýnis á sjálfum miðpunkti Íslands.

En nú á að fara að stíga fyrstu skrefin til að breyta þessu. Lögreglumenn ætla að byrja að horfa á ófögnuðinn á skjá inni á stöð, alveg eins og það dragi úr því aðgerðaleysi, sem þeir hafa hingað til sýnt sem áhorfendur úti á götu. En alténd sýnir þetta vott af viðleitni.

Myndatökur borgarstjóra og lögreglustjóra kunna að ná árangri, svo og áhugamál þeirra um hækkun sjálfræðisaldurs úr sextán árum í átján og um lokun flestra vínveitingastaða á miðnætti. Það hreinsar þó hvorki miðbæinn, né leysir þjóðfélagsbölið að baki vandans.

Hér þarf fyrst og fremst að ná í barsmíðaliðið, kæra það og dæma og taka úr umferð sem allra lengst. Hér þarf fyrst og fremst að hreinsa miðbæinn og láta þau boð út ganga, að það sé ekki hetjuskapur, heldur aumingjaskapur, að valtra, slefa, garga, æla og berja.

Stefna þarf að skammtíma- og langtímaárangri í senn. Efna þarf til lífshátta- og hugarfarsbreytingar, sem fælir fólk smám saman frá því að afklæðast persónuleikanum með aðstoð áfengis og annarra fíkniefna. Það gildir um fólk á öllum aldri og á öllum þjóðfélagsstigum.

Ágætt er, ef sérstök framkvæmdanefnd, sem skipuð hefur verið á vegum borgarstjóra og lögreglustjóra, getur fundið leiðir í málinu á þeim tveimur árum, sem hún hefur fengið til umráða. En sú nefndarskipun má ekki fresta því, að apabúrið í miðbænum verði lagt niður.

Raunar þurfa fleiri aðilar að koma að málunum en embætti borgarstjóra og lögreglustjóra. Breyta þarf meðferð dómstóla og herða refsingar fyrir nauðganir og limlestingar af hvers kyns tagi. Siðvæða þarf Rannsóknalögreglu ríkisins og afturhaldssama dómarastétt.

Bezt væri, ef framámenn þjóðarinnar vildu með góðu fordæmi og markvissum ábendingum stuðla að því, að þessari æluþjóð verði um síðir komið til manns.

Jónas Kristjánsson

DV